Desmond Tutu (1931-2021)

avatar
Óli Gneisti

Hverju munu sagnfræðingar svara ef þeir verða spurðir: “Hver var mesti leiðtogi kristinnar kirkju frá árinu 1979 til ársins 2021” Þeir væru auðvitað hissa á að vera spurðir um akkúrat það tímabil sem afmarkar ævi mína til þessa. En ég get betur svarað fyrir mig heldur en ímyndaða sagnfræðinga framtíðarinnar.

Jóhannes Páll II hefur misst glansinn og Móðir Teresa líka. Páfinn hylmdi yfir með brotamönnum og Móðir Teresa dældi þeim fjármunum sem hún aflaði í allt annað en líknarstarf. Það er heilmikið um þau að segja. Seinna.

En hver þá? Ég segi Desmond Tutu. Enginn annar hefur staðið betur fyrir þau gildi sem kristið fólk vill vera þekkt fyrir. Hann reyndi aldrei að mála sig sem heilagan mann þó hann hafi oft verið settur í slíkt hlutverk. Hann talaði ekki í innantómum frösum helgileiks heldur einfalt mannamál. Hann var líka mjög fyndinn, sbr. þessi klippa úr þætti Craig Ferguson.

Desmond Tutu, fyrrverandi erkibiskup, er látinn, níræður að aldri.
Köllun hans var ekki að gerast prestur heldur kennari. En það átti að breyta skólakerfinu þannig að svört börn myndu eingöngu læra það sem taldist nauðsynlegt til að þjóna hvítum yfirmönnum sínum sagði hann nei. Hann vildi ekki vinna með kerfi kúgunar.

Það sýnir eðli Apartheid að þegar Tutu reyndi að vara forsætisráðherra Suður Afríku við að kúgunin myndi leiða til ofbeldis, var að svarið að einhver hlyti að hafa hjálpað honum að skrifa bréfið. Væntanlega einhver hvítur.

Nokkrum vikum seinna, 16. júní 1976, hófust mótmæli skólabarna gegn því að vera neydd til að læra Afrikaans, tungumál hinna hvítu Búa.

Við vitum ekki hve mörg börn voru myrt af suður-afrískum yfirvöldum til þess að kæfa mótmælin. Hundruð. Fórnarlömbin voru allt að 700.
Mig langar að öskra eða gráta af reiði. En höldum áfram. Þetta er ekki saga Apartheid.

Erkibiskupinn barðist vissulega fyrir réttindum eigin fólks. En ekki bara þess.
Tutu barðist fyrir réttindum hinsegin fólks áður en það varð “vinsælt” og hélt því áfram til dauðadags.

Hann lýsti því yfir að hann myndi ekki vilja eyða eilífðinni í hómófóbísku himnaríki.

Þegar fólk segir að það sé ósanngjarnt að líkja stefnu Ísraels við Apartheid var Desmond Tutu maður sem hafði séð hvoru tveggja og vissi betur. Hann studdi baráttu Palestínumanna.

Í þessu ljósi er rétt að muna að þeir sem börðust fyrir réttindum svartra í Suður Afríku voru kallaðir hryðjuverkamenn. Og eru það reyndar enn. Fyrir nokkrum árum fór ég með konunni á hótel á Ásbrú til að hvíla okkur aðeins frá foreldrahlutverkinu. Við enduðum í heita pottinum. Sem var, eftir á að hyggja, líklega fullur af blýmenguðu vatni. Þar voru hjón frá Suður Afríku. Hvít, en samhengið ætti að gera það ljóst.

Konan, eða pabbi hennar, var upprunalega frá Cork á Írlandi og þar sem ég er með þann stað á heilanum síðan ég tók eina önn af háskólanámi mínu þar ákvað ég að vera í spjallstuði.

Allt í einu, án þess að við hefðum opnað á umræðuefnið, fór hún að tala um að Mandela væri bara hryðjuverkamaður. Ég er ekki týpan til að rífast þegar ég er eingöngu klæddur sundskýlu þannig að ég vissi ekki hvað ég ætti að segja. Sama ástæða og að ég hangi helst ekki í heitu pottum sundlauganna.

En hélt konan í alvörunni að hvítt fólk frá Íslandi væri líklegt til að vera sammála þeim? Við yfirgáfum pottinn fljótlega. Blýið var kannski ósýnilegt en það var ekki eina eitraða í vatninu.

Það ókristilegasta í málflutningi Tutu, allavega í ljósi þess að bjóða hinn vangann, var að hann krafðist þess ekki að kúgaðir ættu eingöngu að nota “friðsamlegar” aðferðir í baráttu sinni. Hann hvatti ekki til “ofbeldis” en fordæmdi ekki þá sem neyddust til að beita hörku í sjálfsvörn. Sjálfur benti hann á að við gætum ekki barist við Hitler ef við viðurkenndum ekki nauðsyn valdbeitingar til að verja líf.

Það var einmitt skýrt að þó hann viðurkenndi rétt Palestínumanna til sjálfsvarnar vildi hann frekar að alþjóðasamfélagið myndi bregðast við með því að takmarka viðskipti við Ísrael.

En alþjóðasamfélagið er undir hæl stórfyrirtækja sem reyna að stimpla stuðning við mannréttindabarátta vafasama. Það að sniðganga vörur er bannað samkvæmt markaðstrúnni. En Desmond Tutu sagði okkur að það sem virkaði í Suður-Afríku hefði verið það þegar alþjóðafyrirtæki sáu að það væri ekki í þeirra hag að styðja hagkerfi Apartheid. Peningar sem koma beint frá almenningi um víða veröld er eldsneytið sem kúgun gengur fyrir.

Ég hlustaði nýlega á viðtal við Desmond Tutu frá árinu 1994 í breska þættinum Desert Island Discs. Þá höfðu nýlega farið fram lýðræðislegar kosningar í Suður-Afríku. Á þeirri sigurstundu var hann samt mjög skýr í máli og benti á að þó jafnrétti gagnvart lögum yrði líklega tryggt væri efnahagslegur aðskilnaður ennþá til staðar í Suður-Afríku. Eignirnar væru ennþá nær eingöngu í höndum hvítra.

Það minnti mig á orð James Connelly, írsku sjálfsstæðishetjunnar sem var myrtur af Bretum í kjölfar Páskauppreisnarinnar árið 1916, sem sagði:
Ef þú rekur enska herinn úr landi á morgun og flaggar græna fánananum yfir Dyflinnarkastala en byrjar ekki að skipuleggja sósíalískt lýðveldi er allt þitt streð hégómi einn.

Það var ekki bara sósíalismi, með ólíkum áherslum, sem sameinaði þessa tvo menn. Það var sú staðreynd að barátta þeirra var ekki bara barátta eigin fólks heldur barátta gegn kúgun og þeirra sameiginlegi þráður var líka baráttan gegn heimsvaldastefnunni.

Við látum stundum eins og heimsvaldastefnan sé dauð. Að mörgu leyti er það vanþekking á sögu hennar. Heimsvaldastefnan snerist alltaf um að tryggja yfirráð herranna yfir náttúruauðlindum. Hún var alltaf í þágu viðskiptahagsmuna.

Í dag eru yfirráð herranna yfir auðlindum fátækra ríkja dulbúin sem viðskiptafrelsi. En það er ekkert frelsi í samskiptum kúgarans og hins kúgaða. Gömlu herraþjóðirnar, með fulltingi annarra ríkra landa, koma í veg fyrir að lönd sem eru rík af náttúruauðlindum geti náð að standa á eigin fótum.

Baráttan fyrir mannréttindum, frelsi og jafnrétti er að mörgu leyti andóf gegn kapítalismanum. Fyrirtæki standa ekki fyrir utan þetta. Hinn frjálsi markaður þykist óháður en er það ekki. Með því að starfa með og í ríkjum sem stunda kúgun er tekin afstaða gegn mannréttindum.

Þegar hinn frjálsi markaður kom til hinna gömlu Sovétríkja réði sú einfeldningslega trú að með honum fylgdi virðing fyrir mannréttindum. Samvinna í stað stríðs. Enginn er betri táknmynd þessarar hugmyndarfræði en Thomas Friedman sem gaf árið 1999 út bókina Lexusinn og ólífutréið. Kapítalismi tryggir frið. Lönd með McDonalds útibúa fara ekki í stríð við hvert annað. Auðvitað sjáum við núna að það var aldrei satt.

Stórfyrirtæki tryggðu ekki heldur mannréttindi í Suður Afríku með veru sinni. Stórfyrirtæki hugsa bara um eitt, peninga. Það að láta eins og það hafi jákvæð áhrif fyrir heiminn er lygi. Við getum stundum notað skipulagðar herferðir til að neyða stórfyrirtæki til að vinna að markmiðum okkar. Ekki með hinum frjálsa markaði heldur þvert á móti með því móti sem þau geta séð í bókhaldi sínu. Auðvitað er þetta ekki lausn til framtíðar en við þurfum að nota þessi áhrif okkar.

Fall kommúnismans var talinn sigur kapítalismans. En fall aðskilnaðurstefnunnar var ósigur kapítalismans.

Ronald Regan beitti neitunarvaldi á refsiaðgerðir gegn Suður Afríku árið 1986. En á þeim tímapunkti voru Demókratar með, hvað heitir það? Hugsjónir? Kjark? Demókratar notuðu þingstyrk sinn til að þröngva banninu í gegn. Auðvitað var Thatcher á sama máli og Íhaldið fylgdi henni.

Þegar við tölum um viðskiptabann á Ísrael er það kallað mismunun. Sem sýnir best hvernig hinn frjálsi markaður og aðrir kúgarar hafa lært hvernig á að aðlaga tungumál mannréttinda að þeirra eigin hagsmunum. Við megum ekki segja já við því. Við þurfum að geta kallað kjaftæði kjaftæði. Tölum mannamál.

Ég ætla ekki að gera Desmond Tutu að ímynd allra minna hugsjóna. Hann var það ekki. Ég gæti gert lista yfir margt sem ég er ósammála honum um. En auðvitað munu margir reyna að gera hann að táknmynd þess sem hann var ekki.

Á sama hátt og Martin Luther King er í dag notaður til að kúga svart fólk með því að velja vandlega tilvitnanir í hann sem hunsa samhengið. Martin Luther King var kannski talsmaður friðsamlegra aðgerða en hann predikaði ekki að svart fólk ætti um leið að verða fótþurkkur valdsins og bíða eftir að stjórnmálin færðu því umbætur. Hann var líka sósíalisti. Hann vissi, líkt og Tutu, að raunverulegar breytingar nást ekki fram með því að ríkisvaldið verði hlutlaust í garð fólks. Efnahagslegur aðskilnaður hverfur ekki með almennum réttarbótum. Það þarf að styðja þann veika gegn hinum sterka. Baráttunni líkur ekki með einum stórum sigri.

Þó baráttan haldi áfram megum við auðvitað leyfa okkur smá hégóma. Þegar Desmond Tutu valdi sér lúxus til að hafa með sér á ímyndaða eyðieyju varð ísgerðarvél fyrir valinu. Mjög mannlegt val fyrir mann sem var mjög mannlegur, í besta skilningi þess orðs.

Ávísanir:
Desert Island Discs þátturinn
Craig Ferguson um þáttinn sem var sýndur 4. mars 2009

Og hér er myndband á YouTube sem gæti horfið á morgun.

„Ég átti sko transvin“

avatar
Óli Gneisti

Dave Chappelle er grínisti sem fór að mestu framhjá mér. Aðallega af því að ég var ekki með sjónvarpsstöðvarnar sem sýndu þáttinn hans og af því að ég forðast lélegar gamanmyndir. Ég hef reyndar séð Robin Hood Men in Tights en samt bara einu sinni. Slakasta Mel Brooks myndin að mínu mati. En ég vissi að hann hafði hætt með fyrrnefnda þætti þrátt fyrir boð um gull og græna skóga.

Eftir langt hlé poppaði Dave Chappelle upp á Netflix með uppistand árið 2019. Ég ákvað að horfa og gafst upp þegar hann eyddi of miklum tíma í að tala um transfólk. Fyrir utan ömurleg efnistök voru brandararnir bara lélegir. Ef húmor þinn byggir á fáfræði þinni og áheyrenda þinna ertu kannski ekki fyndinn.

Það er rétt að taka fram að ég hef heyrt marga góða brandara um transfólk. Aðallega eftir að ég fór að fylgjast með transfólki á Twitter. Hægt og rólega fékk ég innsýn í líf þeirra og samfélag. Í kjölfarið fylgdi að ég byrjaði að fatta brandarana sem transfólk var að segja um sjálft sig og annað transfólk. Ég er ekki bara að tala um einhverja góðlátlega brandara enda hefur fullt af transfólki mjög beittan húmor.

Ég slökkti á Chappelle og sagði Netflix að uppstandið hans væri „ekki fyrir mig“. Mér brá því þegar nýtt uppistand með honum birtist árið 2021 og Netflix setti það endalaust efst á skjáinn minn. Það pirraði mig eiginlega meira en að Chappelle væri að gera annað uppistand fyrir Netflix. Miðað við hve mikið af efni er falið fyrir okkur á Netflix og fátt sem er sett í forgrunn er þetta voðalega skrýtið. Ég hefði haldið að sjálfvirka kerfið væri þannig að ef ég segi að mér líki ekki við eitt uppistand með grínista muni það ekki sýna mér næsta uppistand hans.

Það eru tvær skýringar sem mér dettur í hug á því að Netflix ákvað að troða þessu uppistandi framan í mig. Sú fyrri er einfaldlega sú að fyrirtækið borgaði Dave Chappelle ógeðslega mikla peninga fyrir uppistandið. Sú seinni er ekki endilega óháð hinni fyrri. Netflix gæti einfaldalega hafa tekið þá ákvörðun að benda á okkur sem líkaði ekki við fyrra uppistandið á hið seinna í von um að græða á umræðunni. Það er ekki ólíklegt að ef við hefðum aðgang að tölum Netflix myndum við sjá að áhorf á upprunalega uppistandið hafi tekið kipp þegar umræða skapaðist um það á Twitter.

Það hvernig Netflix kemur fram í málefnum transfólks beinir ljósi að því hvernig fyrirtæki hegða sér almennt í slíkum málum. Það var nefnilega Netflix sem framleiddi heimildarmyndina Disclosure sem fjallar um birtingarmynd transfólks í dægurmenningu. Málið er að Netflix hefur enga hugmyndafræði. Bara Excelskjal. Ef það myndi græða peninga á að segja að transfólk séu einhvers konar englar af himnum komið myndi Netflix framleiða dýrar kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir um það. Ef Netflix myndi græða meira á að segja okkur að transfólk borði smábörn myndi fyrirtækið framleiða efni með slíku þema. Á þessum tímapunkti er fyrirtækið að reyna að segja bæði í einu til að græða sem mest.

Um leið og seinna uppistand Chappelle var birt var það gagnrýnt. Vörnin var, í þessu tilfelli, að gagnrýnendurnir hefðu algjörlega rangt fyrir og að allir sem hefðu horft á uppistandið vissu að það væri ekkert transfóbískt við það.

Það sem þessir verjendur töldu að sýndi að Chappelle væri enginn transfóbi er að í þessu nýrra uppistandi segir hann sögu af “vinkonu” sinni sem var trans. Reyndar kallaði hann hana ekki alltaf konu sem sýnir ágætlega að hann var ekki frábær vinur.

Áheyrendur mínir heyra vonandi gæsalappirnar sem ég set utan um orðið vinkona hérna. Það væri slæmt ef ég þyrfti að taka upp myndbönd til að koma slíkum blæbrigðum á framfæri. Réttast er að kalla hana sínu rétt nafni, Daphne Dorman.

Saga Chappelle af Daphne var í stuttu máli sú að henni hafi þótt grín hans um transfólk rosalega fyndið. Síðan hafi hún vogað sér að verja hann á Twitter og lent í endalausum árásum transaktivista sem töldu hana svikara. Í kjölfarið hafi hún framið sjálfsmorð. Tengingin var skýr þó áheyrendur hafi þurft að finna hana sjálfir. Transfólk lagði hana í einelti og það var svo hræðilegt að hún gat ekki lifað með því. Að lokum sagði Chappelle að Daphne hafi ekki verið „trans“ heldur grínisti. Það er nógu slæmt að stimpla suma meðlimi jaðarhópa sem „einn af þeim góðum“. Það er töluvert verra að segja að manneskjan hafi í raun ekki tilheyrt þeim hópi.

Þetta töldu aðdáendur Chappelle alveg rosalega vel heppnað svar við gagnrýni á hann. Ég sá söguna í töluvert öðru ljósi.

Frá mínu sjónarhorni var þetta saga af manneskju sem dáðist að Dave Chappelle og sá grín hans í því ljósi. Minnir á þegar prestar tala um að lesa ógeðfellda kafla Biblíunnar „í ljósi Krists“. Ef við gefum okkur að Jesús hafi verið bestur þá er ekkert að marka ljótu orðin. Sama má segja um þetta vinasamband. Hún túlkaði grín hans á besta mögulega hátt. Það er erfitt að sætta sig við að hetjan þín, sérstaklega þegar hún er góð við þig persónulega, sé fordómafullt fífl.

En Chappelle greip hana og notaði sem skjöld. Það er ótrúlegt hve fáir sjá í gegnum þetta. Rasistar nota þessa afsökun endalaust. „Ég á sko svartan vin“ segja þeir. Chappelle átti sko transvin. En fæstir sem segjast eiga svartan vin eru svo skyni skroppnir að þeir bæti við að svarti vinur þeirra sé ekki í alvörunni svartur heldur frekar, sem dæmi, bara grínisti.

Það ljótasta er samt hvernig Chappelle túlkar dauða Daphne þannig að hún hafi verið svo miður sín yfir árásum annars transfólks og nefnir sérstaklega viðbrögð á Twitter. Hann vandar sig við að segja það ekki nákvæmlega en það er augljóst hvernig hann vill að það sé túlkað.

Ég fletti upp umræddri færslu Daphne Dorman. Þar voru ótrúlega mörg komment. Glæný. Frá aðdáendum Chappelle og margir þeirra voru að halda því fram að það hafi örugglega allir verið búnir að eyða andstyggilegu svörunum sem urðu til þess að grey konan framdi sjálfsmorð. Ólíkt þeim ákvað ég að rannsaka málið og fann afrit af færslunni með upprunalegum svörum. Þau voru mjög fá svör og satt best að segja virtist þessi vörn hennar ekki hafa vakið mikil viðbrögð. Fæstir tóku eftir því sem hún sagði.

Það var samt fleira ógeðfellt við málflutning Chappelle. Þegar hann talaði um sjálfsmorð „vinkonu“ sinnar nefndi hann að hún hafi átt dóttur. Chappelle tekur sig um leið til og montar sig af því að hafa stofnað styrktarsjóð fyrir stúlkuna.

Þegar ég las ummæli Chappelle varð mér hugsað til Jesú. Það er sagan af tollheimtumanninum og faríseanum. Þið þekkið þetta kannski. Faríseinn var voða montinn yfir að vera rosalega góð manneskja og Jesús sagði að það væri skítlegt viðhorf. Sama má segja um Chappelle. Hann fer ekki einu sinni fínt í þetta.

Fyrir löngu síðan vann ég fyrir Aðföng sem dreifði vörum í verslanir Baugs. Við tókum reglulega til vörur sem voru að nálgast síðasta söludag og síðan var hjálparsamtökum boðið að hirða þetta. Enginn sagði hjálparsamtökunum að þau ættu að segja frá þessum gjöfum. Jóhannes heitinn í Bónus var ekki að heimta hrós. En það var auðvitað undirliggjandi að það væru meiri líkur á gjöfum til framtíðar ef hjálparsamtökin myndu vekja athygli á góðmennsku fyrirtækisins almennt og Jóhannesar sérstaklega. Þannig að í besta falli get ég túlkað framkomu Chappelle sem heiðarlega auglýsingu um eigin „góðmennsku“.

En ég sé samt annan þráð. Þegar Chappelle ákvað að nota Daphne Dorman sem skjöld þurfti hann að tryggja að sem fæstir myndu mótmæla því sem hann sagði. Hann gat auðvitað ekki keypt sér velþóknun transsamfélagsins en hann gat friðað fjölskylduna. Hvað er auðveldara fyrir ríkan mann en að gefa brotabrot af auðæfum sínum til að reyna að bjarga orðspori sínu? Ég er kannski óhóflega að vísa mikið í Jesú en ég man líka eftir sögunni um eyri ekkjunnar.

Þrátt fyrir umræddan styrktarsjóð sá ég ekkert frá fjölskyldu Daphne um að þau teldu að dylgjur Chappelle um ástæður sjálfsmorðsins væru á rökum reistar.

Ég nefndi áðan að Chappelle ekki keypt sér velþóknun transsamfélagsins. Hann fékk hana ekki heldur. Þeir vinir sem Daphne átti innan þess samfélags. Fólk sem raunverulega þekkti hennar daglega líf gáfu lítið fyrir skýringar grínistans. Þeir vinir nefndu sérstaklega þá andlega erfiðleika sem hún var að glíma við, að hún hafi misst forræði yfir dóttur sinni og að hún hafi þurft að þola endalaust áreiti transfóba, ekki bara á netinu heldur í sínu daglega lífi.

Aðdáendur Chappelle hunsuðu þetta flestir í þeim samskiptum sem ég tók þátt í eða fylgdist með. Þeir hafa fengið alveg stórfenglega afsökun. Hetjan þeirra er góð manneskja en transsamfélagið uppfullt af ömurlegu fólk.

Þegar Dave Chappelle ákvað á sínum tíma að hætta með gamanþætti sína voru væntanlega ýmsar ástæður þar að baki. En í viðtali við nafna sinn Letterman nefndi hann sérstaklega að honum þótti óþægilegt að sjá fólk hlæja vitlaust að bröndurunum hans. Rasistar gátu nefnilega hlegið að honum, en ekki með. Þeir hlustuðu á brandarana og fengu heimsmynd sína staðfesta.

Þannig að ég held að það sé alls ekkert ósanngjarnt að velta fyrir sér hverjir hlæja að bröndurum Dave um transfólk og hvers vegna? Hvaða áhrif ætli það muni hafa á framkomu þeirra í garð transfólks til framtíðar? Er ekki einfaldlega verið að búa til her af fólki sem telur í fínasta lagi að ráðast á transfólk af því að það er ógeðslegt fólk sem tilheyrir andstyggilegu samfélagi?

Verjendur Chappelle láta eins og sagan um Daphne sé fjarvistarsönnun hans. Hann er góði gaurinn. Ég er því gjörsamlega ósammála. Ég held að sagan af Daphne sé eiginlega það versta sem ég Chappelle hefur sagt um transfólk. Það að nota dauða konu til að ráðast á samfélag hennar og bera það röngum sökum er hrikalega ógeðfellt.

Það er langt frá því að vera fjarvistarsönnun, þetta er glæpur.

Fyrir utan Chappelle og aðdáendur hans var ýmislegt undarlegt á seyði hjá Netflix. Forstjóri, eða öllu heldur „meðforstjóri“, hjá fyrirtækinu gaf út yfirlýsingu um að þau teldu að brandarar Chappelle hefðu ekki slæm áhrif á transfólk í raunveruleikanum. Ég tel það einfeldningshátt ef það er einlæg skoðun. Auðvitað mun Chappelle eitra út frá sér. Aðdáendur hans hafa fengið eigin fjarvistarsönnun. Transfólk er jafnvel verra en þeir héldu fyrir.

Transfólk og bandamenn þess innan Netflix var merkilegt nokk sammála mér að mestu. Það reyndi að ræða málin. Viðbrögðin voru undarleg. Ein transkona var sett í leyfi fyrir upplognar sakir. Það var dregið til baka þegar bent var á að þetta væri rugl en hún endaði með segja upp sjálf, skiljanlega. Önnur manneskja var sökuð um að hafa lekið upplýsingum og var rekin fyrir það. Ég á erfitt með að sjá það öðruvísi en refsingu fyrir að skipuleggja mótmæli innanhúss. Enda valdi Netflix að semja um kvartanir þeirra frekar en að láta þær verða að dómsmálið.

Þið hugsið kannski. Það er bannað að banna hluti. En ég sá engan tala um að banna eitt eða neitt. Það var reynt að taka upplýsta umræðu og Netflix fríkaði út. Aðdáendur Chappelle fríkuðu út.

Ég ákvað að segja upp áskriftinni af Netflix. Til framtíðar eða ekki. Svo fyrirtækið viti að það sé ekki bara gróði í að ráðast á transfólk. Það er eina sem fyrirtækið skilur. En við lifum á undarlegum tímum þar sem ákvörðun einstaklinga um að versla ekki við fyrirtæki sem dreifa hatri er kallað aðför að tjáningarfrelsi. En ég er ekki einu sinni að segja að Chappelle eigi að þegja. Ég er að segja að, þar sem ég tel að áróður hans gegn transfólki muni án efa leiða til haturs og líklega ofbeldis í garð þeirra, vilji ég ekki að peningar mínir séu notaðir í slíkt. Einfalt reikningsdæmi fyrir þá sem byggja siðferðisviðmið sín á Excelskjölum.

Látið ykkur líða vel og gleðileg jól til þeirra sem vilja slíkar kveðjur. Þið megið öll taka til ykkar ósk um að þið látið ykkur líða vel nema mögulega ef þið eruð að reyna að gera líf fólks sem tilheyrir jaðarhópum erfitt. Þá megið þið (muna að setja píp til að láta eins og ég hafi ritskoðað eitthvað).

Hinsta andvarp bloggarans?

Ég byrjaði að blogga reglulega í febrúar 2002. Ég var ekki einn af þeim fyrstu en ég var töluvert á undan stóru bylgjunum sem komu þegar íslenskir aðilar fóru að bjóða upp á bloggkerfi, Blogg Central og Blog punktur Is. Hérna er brandari sem ég þarf að útskýra fyrir lesendum. Ég ber Blog punktur Is þannig að það rímar við flog. Ég geri þetta af því það hefur alltaf verið hallærislegt að sleppa seinna géinu sem einkennir íslenska orðið blogg.

Bloggsamfélagið árið 2002 var lítið. Til þess að geta bloggað þurfti fólk annað hvort að vera mjög tæknivætt eða þekkja einhvern slíkan. Ég var sæmilega tæknivæddur og gat sett upp blogg með vefhönnunarforritinu Frontpage. Það var ekki besta kerfið en virkaði.

Þegar ég byrjaði voru kommentakerfi sjaldgæf. Ef þú vildi taka þátt í umræðum vísaðir þú á skrif annarra í þinni eigin færslu. Sömuleiðis vorum við flest með tengla á okkar uppáhalds bloggara sem okkar lesendur gátu séð. Þannig gátu þeir fundið nýja bloggara. Bloggarar grínuðust með hugtakið skjallbandalag um þá sem vísuðu gjarnan á hver aðra.

Það var samt þreytandi að þurfa sífellt að opna síður til að athuga hvort fólk væri komið með nýjar færslur. Hjálpin barst í formi nýrrar veftækni. Ég myndi segja að sú tækni sé sú merkilegasta sem hefur bæst við vefinn frá því að ég byrjaði að stunda netið reglulega. Ég er að tala um RSS strauma. Þó þið þekkið ekki orðið ættuð þið samt að kannast við táknmyndina, það er appelsínugulur ferningur með tveimur bylgjum sem streyma frá punkti í horninu.

Skammstöfunin RSS hefur ekki bara eina meiningu en mér líka alltaf best við “Really Simple Syndication” sem gæti íslenskast sem “afar einföld dreifing”. Þessi staðall var fyrst þróaður af fólki tengdist Netscape vafranum en seinna tóku við aðrir hópar. Af þeim sem bjuggu til þennan staðal myndi ég vilja nefna Aaron Schwartz, ekki af því að hann hafi verið mikilvægastur heldur af því að saga hans er bæði sorgleg og táknræn fyrir þá hugmyndafræði sem RSS tilheyrir. En ég fer ekki í þá sögu í dag.

Sú afar einfalda dreifing sem RSS býður upp á er tiltölulega einfalt skjal sem er tengt til dæmis bloggsíðum eða fréttavef. Í hvert skipti sem nýtt blogg eða frétt birtist uppfærðist þetta skjal. Í því kom fram, hið minnsta, titill hinnar nýju færslu og tengill á hana. Þróuð skjöl bjóða upp á meiri upplýsingar, svo sem útdrátt úr færslunni, tímastimplun og svo framvegis. Það er hægt að kalla lýsigagnayfirlit.

Þessi skjöl, eða straumar, eru ekki hönnuð til þess það að manneskjur lesi þau. Þau eru gerð fyrir tól sem opna skjölin reglulega og láta síðan manneskjur vita þegar eitthvað nýtt hefur birst. Ástæðan fyrir því að þetta er betra en sækja bara upplýsingar um uppfærslur beint á síðurnar er sú að þetta er stöðluð, kerfisbundin aðferð til að dreifa þessum gögnum. Um leið skipti miklu máli á sínum tíma að þessir straumar kröfðust ekki mikillar bandvíddar.

Tólin sem sóttu og birtu strauma íslenskra blogga á formi sem hentaði mannfólki voru svokallaðar RSS-sveitur. RSS Molar var ekki fyrsta bloggveitan. En hún var sú mikilvægasta þegar ég stundaði bloggheima sem mest. Umsjónarmaður hennar var Bjarni Rúnar Einarsson (sem ég hugsa enn um sem BRE þar sem hann notaði skammstöfunina reglulega á þessum tíma). Hann hefur þó nýlega tekið upp viðurnefnið “er ekki á Facebook” sem sýnir ágætlega hvernig hann er í mínum huga líka táknmynd þeirrar hugmyndafræði sem ég er að lýsa hér.

Þegar við heimsóttum RSS Mola fengum við lista með allra nýjustu bloggfærslunum í öfugri tímaröð. Fyrirsagnir þeirra leiddu okkur beint á þessar færslur. Fljótlega buðu RSS Molarnir upp á þann möguleika að notendur gætu búið til lista með sínum uppáhalds bloggurum.

Það er engin tilviljun að þetta minnir okkur á flesta samfélagsmiðla dagsins í dag. Tímalína þín er útgáfa af þessu, bara miklu verri. Félagsmiðlarnir byggja ekki á neinu jafnrétti. Þú færð ekki að sjá bara nýjasta efnið sem fólkið sem þú fylgir er að skrifa eða deila. Algóryþminn ákveður þetta fyrir þig. Fyrirtækin vilja að þú sýnir viðbrögð, að þú smellir og kommentir. Besta leiðin til þess er að gera fólk reitt. Þessi eitraða útgáfa af blogg- og fréttaveitum er stór ástæða fyrir stöðu samfélagslegrar umræðu í dag.

Önnur útgáfa af RSS-veitum voru þær þjónustur sem söfnuðu og birtu bara strauma sem þú valdir. Af þeim er Google Reader frægust enda var hún eiginlega allsráðandi á tímabili. Árið 2013 ákvað Google að loka veitunni í augljósri von um að allir myndu hópast á Google Plus í staðinn. Eruð þið ekki öll á Google Plus? Góð áminning um að við ættum aldrei að treysta á að þjónusta Google verði til staðar til lengri tíma.

Þegar Google Reader lokaði markaði það endalok ákveðins tímabils í sögu RSS strauma. Upp til hópa gafst fólk upp á að fylgja þessum straumum. Í staðinn er það tímalínan á samfélagsmiðlunum. Sem er ekki gott.

Við sem dreifum efni okkar á vefnum lítum samfélagsmiðlega töluvert öðru ljósi en almennir notendur. Facebook er auðvitað verst, enda stærst. Þegar Facebook byrjaði að lokka okkur bloggara til sín var það með loforð um gull og græna skóga. Við byrjuðum að deila efni okkar á Facebook og ýttum um leið undir að fólk hætti að nota þessar gömlu veitur. Engin þörf á slíku þegar hlekkirnir bara birtast á tímalínunni þinni.

Það kom auðvitað í ljós að við sem sköffuðum efni vorum ekki að njóta þess að eyða tíma okkar í grænum skógi, við vorum skógurinn og Zuckerberg var fljótur að höggva okkur niður. Við fengum auðvitað ekkert gull, þvert á móti áttum við að nota eigið gull til að fá Facebook til þess að sýna notendum sínum efnið sem við vorum að dreifa.

Grófasta dæmið um fyrirlitlega framkomu Facebook í garð þeirra sem skapa efni var hið svokallaða “pivot to video”. Á einhverjum tímapunkti ákvað Facebook að myndbönd væru framtíð þess. Fyrirtækið fór að herja á vefi sem höfðu til þessa fyrst og fremst gefið út efni á textaformi og sannfærði þá um að byrja að framleiða myndbönd. Þegar það fór á fullt voru allir rosalega glaðir. Áhorfið á þetta efni í gegnum Facebook var ótrúlegt. Bókstaflega ekki trúlegt í ljósi þess að það var verið að ljúga um áhorfstölur. Ótrúleg svikamylla sem Facebook hefur aldrei þurft að gjalda fyrir.

Ég tók bara óljóst eftir þessu á sínum tíma. Ég sá að skemmtilegir vefir sem ég fylgdi fóru að birta fleiri myndbönd en ég nennti eiginlega aldrei að horfa og las bara greinarnar áfram. Gott dæmi um þetta er vefurinn Cracked. Að mínu viti besti “lista vefurinn”. Sumsé, vefur sem bauð upp á lista en ekki list. Topp fimm hitt og þetta. Cracked var frábært.

Ég fylgdi Cracked í gegnum Facebook. Annað hvort tenglar frá þeim sjálfum eða vinum og kunningjum. Fáar smellibeitur en mikið um frumlegt og skemmtilegt efni. Eins og ég sagði tók ég lítið eftir myndböndunum. En allt í einu byrjaði Cracked að deila efni með misvísandi titlum. Eldri greinar fengu nýja titla. Ég varð fljótt þreyttur á þessu og hætti að nenna að fylgjast með.

Ég áttaði mig ekki á að það var myndbandsbyltingin setti Cracked eiginlega á hausinn. Það hafði verið fjárfest gríðarlega í þessum markaði sem Facebook sagði að væri risastór. Tapið varð ógurlegt og klárir höfundar misstu vinnuna í tugavís.

En hér fer að koma að punktinum með þessum pistli. Ég veit að þið eruð steinhissa að komast að því að þetta sé ekki bara handahófskennt röfl frá fúlum gömlum bloggara. Auðvitað er þetta röfl fúls gamals bloggara, bara ekki alveg handahófskennt.

Höfundarnir sem misstu vinnuna hjá Cracked, og sömu sögu er að segja um marga aðra slíka, byrjuðu að skapa efni á mörgum vígstöðvum. En áberandi flestir þeirra færðu sig yfir í hlaðvörpin.

Hvað er það sem gerir hlaðvörpin góðan kost fyrir klárt og hugmyndaríkt fólk? Það er straumurinn. Hlaðvörp eru í dag eini miðillinn sem byggir fyrst og fremst á RSS straumum. Þú veist það kannski ekki. Þú notar bara app til að hlusta. En hlaðvörpum er ekki dreift miðlægt. Umrædd forrit eru kannski miðlæg í huga þínum þar sem þau safna saman þessum straumum. Þú segir forritinu hvaða straumum þú vilt fylgjast með og það birtir lista yfir þau, oft í öfugri tímaröð eins og RSS-veitur gerðu fyrir blogg.

Það er frekar sorglegt að fæstir átta sig á því að RSS straumar eru grunnur hlaðvarpsins. Ég sé endalaust marga hlaðvarpara sem skilja ekki að straumurinn er grunnpunkturinn sem miðill þeirra byggir á. Þetta fólk veit varla hvað þú ert að tala um þegar þú spyrð það um strauminn.

Við erum að sjá tilraunir stórfyrirtækja til að kæfa þennan grunnpunkt hlaðvarpsins. Þegar Spotify keypti þátt Joe Rogan var það ekki bara til að styrkja mann sem dreifir vafasömum upplýsingum um heilapillur og ormalyf. Markmiðið er að gera Spotify að miðstöð hlaðvarpa. Það á að gera kerfið miðlægt og ef það tekst hverfur straumurinn.

Hugsið um YouTube. Berið saman við hlaðvörp. Annars vegar er miðlægt apparat sem er nær sjálfgefið að nota til að dreifa myndböndum. Hins vegar er dreift kerfi sem allir geta notað til að miðla efni eða nálgast það efni sem það kýs. Hlaðvarpsforrit byrja ekki allt í einu að fela nýja þætti frá sumum og birta í staðinn þætti frá fólki sem er því þóknanlegt. Þannig að það yrði martröð ef Spotify tækist að verða YouTube hlaðvarpsins.

Þegar fólk hætti að nota RSS strauma til að fylgjast með bloggum minnkaði lestur á mitt eigið blogg auðvitað um leið. Ég fór frá því að fá reglulega þúsundir lesenda á sólarhring yfir að fá tugi eða hundruði nema í þeim undantekningartilfellum þegar færslan fór á flug á samfélagsmiðlum. Þá fæ ég þúsundir lesenda en þessir gestir verða ekki tryggir lesendur. Enginn er að nota þau góðu tól sem gerðu okkur kleift að fylgjast með bloggum og fá tilkynningar þegar þau voru uppfærð.

Þannig að hinsta andvarp bloggarans er að prufa að lesa færslurnar sínar í hlaðvarpi. Ef enginn hlustar veit ég að það er bara því að kenna að ég er ekki spennandi. Það er ekkert kerfi að hunsa mig bara af því að ég kem ekki af stað réttu hegðunarminnstri hjá notendum.

Ég mun áfram birta þessa pistla á blogginu mínu og það eru allar líkur til þess að ég muni stundum skrifa eitthvað sem ég tel ekki henta hlaðvarpsforminu. Ef þið viljið kíkja á bloggið getið þið fundið það á truflun punktur net skástrik oligneisti í einu orði án sér íslenskra stafa.

Ef þið viljið styðja mig ættuð þið að kíkja eftir spilunum mínum til dæmis í Nexus eða Heimkaup. Það er #Kommentakerfið II, Stafavíxl og Hver myndi?. Látbragð og #Kommentakerfið upprunlega eru því miður löngu uppseld.

Utangarðsmaður á rokktónleikum í London

Árin eftir að Freddie Mercury dó gáfu bæði Brian May, gítarleikari Queen, og Roger Taylor, trommari hljómsveitarinnar, út sólóplötur og fóru á tónleikaferðir. Þá dreymdi mig um að fara á slíka tónleika. Ég var sérstaklega hrifinn af efni Roger Taylor. Happiness? og Electric Fire. Ég man eftir að hafa reynt að sannfæra skólafélaga minn um ágæti Happiness? og þegar ég sagði að þetta væri trommari Queen þá datt honum ekki annað í hug en að þetta væru endalaus trommusóló. En auðvitað spilar Roger á ótal hljóðfæri.

Þegar ég byrjaði að stunda utanlandsferðir voru Roger og Brian ekki að spila eigið efni reglulega. Í staðinn fóru þeir félagar að spila saman undir “Queen+” nafninu. Ég hef farið á þrenna slíka tónleika en mig langaði ennþá að heyra þá spila sólóefnið.

Þeir félagarnir ætluðu að fara í tónleikaferð sem Queen+ Adam Lambert núna í fyrra en þurftu að fresta. Það verður bara á næsta ári í staðinn. En síðan heyrðist orðrómur um að Roger Taylor væri að taka upp nýja plötu. Það varð síðan meira spennandi þegar það var staðfest að það væri ekki bara platan Outsider heldur líka tónleikaferð um Bretland.

Ég keypti miða strax. En ég þorði ekki að kaupa flugferð strax. Ég beið aðeins. Ég bókaði ótrúlega ódýrt hótel með ákaflega góðum afbókunarskilmálum (langaði auðvitað að kíkja á hótelið sem er með útsýni yfir gamla húsið hans Freddie). Beið aðeins lengur. Bókaði flug. Keypti nokkra leikhúsmiða.

Ég átti erfitt með að velja sýningar til að fara á enda úrvalið ennþá aðeins takmarkað. Þar sem ég er aðdáandi söngkonu sem heitir Samantha Barks (Les Mis myndin) þá ákvað ég að kíkja hvað hún væri að gera. Hún er í aðalhlutverki í Frozen-söngleiknum. Ég sá ekki fyrir mér að það liti vel út að vera 42 ára kallinn í leikhúsi fullu af ungum stelpum. Meira af vali mínu hér neðar.

Ég þurfti að fylgjast vel með Covid-19 skilyrðum í Bretlandi. Að lokum var það þannig að ég þurfti bara að mæta með bólusetningarvottorð og bókun í smitpróf á öðrum degi ferðarinnar. Smitprófið átti bara að senda á hótelið og það fylgdi með svarumslag fyrir sýnið.

Fimmtudagur (útferð og 11. september)

Ég flaug snemma á fimmtudagsmorgun og var lentur um hádegi. Neðanjarðarlest á hótelið. Ég ætlaði að nota bara kort til að borga í lestarnar eins og síðast en kreditkortið mitt er með ónýta örflögu og debetkortinu var hafnað. Ég þurfti því að kaupa ostrukort.

Hótelið er staðsett í Fulham. Heitir Ibis London Earls Court. Sjúskað en ekki sóðalegt. Smá lúr, ekki nógu langur. Leið eins og ég allur væri lurkum laminn. Fór niður í Soho. Svo heppilega vildi til að það var nýopnuð skyndibúð í Karnabæ. Sú heitir Queen The Greatest og er tileinkuð fimmtíu ára afmæli Queen.

Queenbúðin selur Queenvörur. Ég skoðaði mikið en keypti ekki margt. Auðvitað langaði mig að kaupa Queenboli á drengina mína og stóð við borðið þar sem barnastærðirnar voru. Ég lenti tvisvar í því að starfsfólk kom mjög alvarlegt til mín og útskýrði að bolirnir væru fyrir krakka. Ég sagðist vita það. Fann rúmleg númer fyrir strákana.

Ég var kominn í tímaþröng og gat ekki fundið neinn góðan veitingastað þannig að ég hoppaði inn á skyndibitastað sem heitir Slim Chickens. Ég fékk kjúklingavængi sem voru ekki sérstaklega góðir. Verra var samt að það var enginn vaskur á klósettinu. Enginn vaskur á klósettinu! Ef þið hafið borðað kjúklingavængi sjáið þið kannski vandamálið. Þetta er fingramatur. Vængirnir voru hjúpaðir sósu. Sumsé klístrað. Ég gat ekki þvegið mér. Lausnin? Ég notaði töluvert magn af spritti til að ná því mesta af mér.

Rétt hjá kjúklingastaðnum var staður sem virtist koma vera tímaferðalangur. “Live Nudes” og “Peep Show” er ekki beinlínis eitthvað sem er á hverju horni í Soho 21. aldarinnar. Meira eitthvað frá sjöunda og áttunda áratugnum. Ég skoðaði ekki vandlega en eftir að Cory Doctorow birti mynd af sama stað ákvað ég að leita að upplýsingum. Kemur í ljós að þetta er mexíkanskur veitingastaður.

Það var í kringum 11. september þar sem ég var að skoða mögulegar leikhúsferðir. Mögulega hafði allt tal um tuttugu ára afmælið þau áhrif að ég keypti miða á Come from Away. Það er söngleikur um 11. september 2001. Við hin eldri munum mörg eftir því að eftir hryðjuverkin voru allar flugvélar í lofthelgi Bandaríkjanna sendar á kanadíska flugvelli.

Áður en þotutæknin varð til þess að hægt var fljúga lengri vegalengdir þurfti að millilenda til að taka eldsneyti. Mig minnir að Keflavík hafi sinnt slíku hlutverki. Smábærinn Gander á Nýfundnalandi varð líka miðstöð fyrir millilendingar. Þannig að þar varð til risavaxinn flugvöllur sem varð fljótlega úreltur.

Þann 11. september 2001 þurftu ótal þotur að lenda á öruggum stað, helst fjarri fjölmennri byggð. Þrjátíu og átta farþegavélar lentu í Gander. Skyndilega tvöfaldaðist nær mannfjöldinn. Söngleikurinn fjallar um þetta aðallega í gamansömum tón með nokkrum dökkum atriðum. Þetta var eiginlega of skrýtið til að sleppa og ég sá ekki eftir því. Það sátu samt engin lög eftir í höfðinu á mér.

Í röðinni í leikhúsið þurfti ég að sýna bólusetningarvottorðið, eins og ég þurfti að gera á öllum slíkum samkomum. Það var hins vegar skrýtið að sjá hve fáir voru með grímur í salnum (og almennt í London miðað við stöðuna og reglur).

Föstudagur (Roger Taylor í Shepherd’s Bush)

Ég var ótrúlega þreyttur þegar ég kom á hótelið og mig langaði til að sofa af mér föstudaginn. Ég gerði það ekki alveg en ég afrekaði ekki mikið. Ég íhugaði að kíkja á nuddstofu í götunni en ég veit bara ekkert hvernig maður sér muninn á nuddstofu og “nuddstofu”.

Rétt áður en ég fór af stað á tónleikana kíkti ég við á Rudie’s Jerk Shack. Það er lítil keðja af jamaískum veitingastöðum. Ég keypti aftur kjúklingavængi og hafði franskar með. Fyrsti bitinn var ekki góður. Líka alltof sterkur. En þetta varð fljótt ákaflega gott. Samt sterkt.

Yfirgrundin ferjaði mig til Shepherd’s Bush þar sem tónleikarnir voru. Þar sem munnurinn minn var enn logandi ákvað að ég að kíkja í Waitrose og finna eitthvað til að slökkva eldinn. Hér áður fyrr hefði ég notað kók eða annað gos en í staðinn greip ég kanilsnúð. Það dugði.

Það var áhugavert að heimsækja matvöruverslanir í London. Víða voru afsakanir varðandi vöruskort. Brexit er sumsé alveg að virka. Í Waitrose þótti mér fyndið að sjá osta merkta með “inniheldur mjólkurvörur”. Ég ætlaði að taka mynd en hugsaði með sjálfum mér að myndi yrði kannski notuð af fólki sem telur þetta tengjast hruni vestrænnar siðmenningar.

Tónleikastaðurinn er sögufrægur, Shepard’s Bush Empire. Það opnaði árið 1903 og samkvæmt Wikipediu kom sjálfur Chaplin fram á sviðinu. Lengi var salurinn notaður fyrir upptökur og útsendingar BBC.

Brian og Roger hafa báðir spilað áður í salnum. Sjálfur John Deacon spilaði þarna árið 1995 með SAS band, næstsíðustu tónleikar hans til þessa (spilaði síðast 1997 með Brian, Roger og Elton John undir dansi hjá Bejart Ballettinum).

Röðin við Shepherd's Bush Empire
Ég aftastur í röðinni. Það kom reyndar fljótlega fólk fyrir aftan mig.

Síðasta tónleikaferð Roger á sólóferlinum var 1998-99. Þannig að ég hafði beðið lengi. Ég beið í svona tvo klukkutíma í röðinni. Ég var ennþá aumur í líkamanum eftir flugið daginn áður þannig að þetta voru ekki notalegar stundir. Ég nennti ekki einu sinni að spjalla við fólk í röðinni. Nema reyndar stúlkuna sem var á eftir mér í röðinni.

Ég var alltaf að horfa á hana að velta fyrir mér hvers vegna hún væri svona kunnugleg. Ég áttaði mig skyndilega hvers vegna. Sama hárgreiðsla og stór gleraugu (á nútímamælikvarða). Stór gleraugu á samtíma mælikvarða – ekki endilega níunda áratugs. Ég afsakaði mig við stúlkuna og útskýrði á að hún minnti mig mjög á systur mína. Ég nefndi ekki að útlitslega séð væri hún eiginlega blanda af mér (á unglingsárum) og Önnu.

Þegar ég kom inn bölvaði ég sjálfum mér töluvert fyrir að hafa ekki keypt sæti á svölunum. Lítið í því að gera þannig að ég fór aftast í salinn og settist niður þar meðan ég beið. Gat um leið dáðst að þessum fallega tónleikasal.

Ég heyrði líka fólk tala um að grímur væru óþarfar. Miðað við smitþróun í London var ég ekki jafn bjartsýnn. Ég hugsaði líka um hve auðvelt væri að dreifa sýklum með því að syngja hástöfum með lögunum.

Upphitunaratriðið var Colin MacLeod (líklega yngri bróðir Connor). Mjög fínn en ég var ekki í neinu stuði. Ég var glaðastur með að setjast aftur niður þegar hann fór af sviði.

Þegar klukkan fór að nálgast níu byrjuðu kunnuglegir tónar að heyrast. Ekki Roger eða Queen. Það var Hoppípolla með Sigur Rós. Lagið boðaði augljóslega upphaf tónleikanna. Ég gladdist mjög. Fékk smá orku. Langaði að vera gaurinn sem talar um að vera frá Íslandi.

Síðan kemur Roger og fyrsta lagið hans var Strange Frontier. Nú er það þannig að ég hef aldrei verið jafn hrifinn af eldri sólóplötum hans. Það er Strange Frontier og Fun in Space. Ég eignaðist þær seint og síðarmeir. Happiness? og Electric Fire fékk ég 15 og 19 ára gamall. Ég man gleðina sem fylgdi því að finna Happiness? í skammlífri plötubúð (HP?) í göngugötunni á Akureyri. Það er erfitt að jafna tilfinningatengsl táningsins við tónlist. En Strange Frontier er frábært lag.

Næst tók Roger lagið Tenement Funster. Það er af Queenplötunni Sheer Heart Attack. Það gaf tóninn fyrir tónleikana.

And my rock’n’roll forty fives
Been enragin’ the folks on the lower floor

Roger hefur alltaf verið nostalgískur sem textasmiður og yrkir gjarnan um sín yngri ár. En þemað var ekki um persónulegar upplifanir heldur sameiginleg tengsl okkar við rokktónlist. Í raun mætti kalla þessa tónleika ástarbréf til rokksins.

Auðvitað er þemað ekki algilt eins og næsta lag sýnir okkur. Það var We’re All Just Trying To Get By af nýju plötunni Outsider. Það lag fjallar beint og óbeint um heimsfaraldurinn sem við upplifum núna. Frekar ljúft og fallegt.

Næsta laga var síðan eitt uppáhaldið mitt af Electric Fire, A Nation of Haircuts. Ég hef alltaf sett lagið í samhengi við “Cool Britannia”. Brit popp varð vinsælt og það var aftur fínt að vera breskur. En það er vissulega smá sjálfsháð í textanum enda Roger alltaf verið meðvitaður um ímynd sína. Það var yndisleg tilfinning að syngja með í viðlaginu.

And we salute you all you groovy dudes
Yeah we salute you you’re so fucking cool

These Are The Days Of Our Lives er lag sem er óþarfi að kynna fyrir Queenaðdáendum. Hápunktur Rogerískrar fortíðarþrá sem fékk aðra og dýpri merkingu eftir dauða Freddie. Bókstaflega síðasta skotið af honum í tónlistarmyndbandi er hann að segja “I still love you” sem ég hef alltaf litið á sem vísun í Love of My Life. Kjarni Rogers kemur hins vegar skýrt fram í eftirfarandi línum.

No use in sitting and thinkin’ on what you did
When you can lay back and enjoy it through your kids

Það var líka gaman að sjá börnin hans mætt til að sjá gamla kallinn. Ég þekkti reyndar bara tvö þeirra, Tigerlily (sem hannaði hið minímalíska og áhrifaríka umslag Outsider) og Rufus (núverandi trommari The Darkness).

Árið 2013 gaf Roger út plötuna Fun on Earth. Þar má finna lagið Up sem kom næst. Ég hef aldrei grennslast fyrir um það en textinn minnir mig á samnefnda mynd.

Queen var aldrei pólitísk hljómsveit en sem sólólistamaður hefur Roger ort töluvert um skoðanir sínar. Mig grunar að það hafi alveg haft áhrif á mig, sérstaklega Happiness? platan og nánar tiltekið lögin Nazis 1994 og Dear Mr. Murdoch. Þau lög voru ekki spiluð í þetta sinn. En í staðinn fengum við glænýtt lag sem heitir Gangsters Are Running This World.

Absolutely Anything er líka af Outsider. Það er þó nokkuð eldra. Lagið var samið fyrir samnefnda kvikmynd frá árinu 2015 sem Terry Jones leiksstýrði. Ég hef aldrei séð myndina en Roger segir að hún hafi fengið ósanngjarna dóma. Ég þori varla að horfa.

Það er erfitt að ímynda sér Queen syngja um heimilisofbeldi en það gerir Roger í laginu Surrender af Electric Fire. Ég hef aldrei heyrt baksögu lagsins nákvæmlega en Roger hefur staðfest að það byggi á persónulegri reynslu. Miðað við að foreldrar hans skildu þegar hann var ungur liggur ákveðin túlkun í augum uppi. Hér tók Tna Keys (Christina Hizon) að sér að syngja á móti Roger.

No hope left, just pain
Whiskey on his breath, violence in his brain
Scared kids, with scarred minds

Að öðrum ólöstuðum (og að Roger undanskildum) var Tna Keys stjarna kvöldsins. Hún spilaði á hljómborð, fiðlu og trommur auk þess að syngja. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar voru mér góðkunnir en hún kom fersk inn, glöð og hæfileikarík.

Man on Fire var á Strange Frontier. Platan innihélt líka lag eftir Bruce Springsteen en þetta lag minnir mig einmitt alltaf á “The Boss”. Kannski er það raddbeitingin, kannski textinn, líklega bæði. En það er allavega gaman að syngja með.

Styrkur hljómsveitarinnar sem Roger setti saman fyrir tónleikaferðina sást best þegar hann sjálfur tók sér pásu og leyfði þeim að spreyta sig á Queenlaginu Rock It (Prime Jive). Það var trommarinn Tyler Warren sem tók að sér að syngja lagið. Hann kom inn í Queenfjölskylduna í gegnum farandssýninguna Queen Extravaganza sem hefur heimsótt Ísland. Hann hefur líka tekið að sér trommuslátt á tónleikaferðum Queen+ Adam Lambert. Líkt og á þessum tónleikum tekur Roger alltaf ennþá nokkur lög en hann er 72 ára og Tyler gefur honum tækifæri á að spara kraftana.

Með Rock It kom eitt af þessum yndislega sterku upplifunum þegar áhorfendur syngja með og, allavega ég, fara að trúa bókstaflega á boðskap tónlistarinnar.

When I hear that rock and roll
It gets down to my soul
When it’s real rock and roll
Oh rock and roll

Það er löngu þekkt að af Queen þá var Roger alltaf stærsti aðdáandi David Bowie og naut þess mest að taka upp Under Pressure með honum (það eru til ýktar sögur um árekstra Brian og Bowie). Hann syrgir Bowie enn og tók auðvitað lagið þeirra.

Brian og Roger unnu lengi með Nelson Mandela til að vekja athygli á alnæmisfaraldrinum í Afríku. Fyrsta lagið sem þeir tóku upp með Paul Rodgers, Say it’s Not True, var einmitt til stuðnings því verkefni (46664). Roger tók lagið líka plötunni Fun on Earth. Það er erfitt að líta framhjá hve vel textinn endurspeglar ástandið í heiminum í dag. Ég söng allavega mjög innilega með.

With the wonders of science
All the knowledge we’ve stored
Magic cocktails for lives
People just can’t afford

Næsta lag var kynnt með vísun í kvikmyndina Bohemian Rhapsody. Roger taldi að ill hafi verið farið með lagið þar. Gert of mikið grín að því. Við tónleikagestir glöddumst allavega mjög að syngja með I’m in Love with My Car.

Titillag plötunnar Outsider er þema tónleikana í hnotskurn. Ekki af því að það fjallar um rokk heldur af því það fjallar um að vera utangarðs sem hefur alltaf verið stór hluti sjálfsmyndar rokksins. Það má segja að það hafi verið fáránleg hugmynd þegar Queen var upp á sitt besta en í dag lítur það stundum út fyrir að rokkið sé aftur komið utan garðs.

More Kicks er af nýju plötunni og sýnir mjög vel það sem ég hef verið að nefna.

I was young and stupid
I didn’t feel no pain
I was looking for trouble
I didn’t feel no shame

Sparkið sem lagið vísar til er þó augljóslega trommuleikur og því viðeigandi að Tyler og Roger hafi saman tekið smá trommueinvígi í kjölfarið. Mjög gaman. Mikið rokk.

Eina lagið sem spilað var af Happiness? var í hálfgerðum felulitum. Það er Foreign Sand. Á þeirri plötu var það flutt með japanska tónlistarmanninum Yoshiki. Roger endurgerði lagið fyrir Outsider, strípaði það niður í einfaldan og fallegan búning. En áhorfendur á þessum túr hafa tekið sig til og gert það að hefð að taka undir á óvenjulegan hátt.

It’s not a lie, it’s not a shame we play for keeps, it’s not a scam
No bigotry, we’re hand in hand, it ain’t a cinch, we make a stand
We learn to live on foreign sand
Just say hello

Textinn er einlægur og endurspeglar afstöðu Roger til heimsins. En þegar hann söng “Just say hello” svara áhorfendur með eigin “Hello”. Roger hálfskammaði okkar og sagði “It’s supposed to be a serious song”. Ég held að hann hafi ekki alveg vitað hvað honum ætti að finnast um þetta uppátæki.

Little Richard lést í fyrra en Roger sagði að hann lifði áfram í huga hans. Tutti Frutti er auðvitað ein helsta varðan frá upphafsárum rokksins. Queen tók lagið nokkrum sinnum á tónleikum og má heyra það á Live at Wembley plötunni. Útgáfa Rogers var frekar trú upphaflega hljómnum (en þó meira í rokkabillí enda gítardrifið).

Fyrir tónleikana var sterkur orðrómur um að Brian May myndi láta sjá sig. Auðvitað þorði ég ekki að trúa því. En þegar Tutti Frutti virtist vera að lokum komið þá heyrðist kunnuglegur tónn og hávaxinn grákrullóttur maður steig á svið. Þá var Tutti Frutti keyrt aftur í gegn, nú með þyngri tón. Gleðin í salnum var algjör.

Brian May kemur á svið með Roger Taylor í Shepherd's Bush Empire 22. október 2021
Ég náði bestu myndina af félögunum Brian og Roger á sviði.

Brian var líka með í næsta lagi, Queenlagi eftir Roger úr kvikmyndinni Highlander. A Kind Of Magic hefur aldrei verið uppáhalds hjá mér en það voru galdrar þarna í Sheperd’s Bush Empire og gleðin endalaus.

Allir yfirgáfu sviðið og eftir málamyndauppklapp kom hljómsveitin aftur á svið. Þá tók Roger smá Zeppelin stund og spilaði Rock & Roll. Þema tónleikanna var ekki óljóst á þeirri stundu.

Í kjölfarið heiðraði Roger aftur minningu Bowie, í þetta skiptið með laginu Heroes.

Lokalag tónleikanna var stærsti smellur Roger og eitt fyrsta Queenlagið sem ég man eftir. Radio Ga Ga. Það var hreint yndislegt að fylgjast með (og taka þátt) áheyrendum lyfta höndum og klappa í anda tónlistarmyndbandsins. Mér skilst að, ólíkt We Will Rock You, hafi þessi hefð skapast alveg óvart.

Við klöppuðum, hljómsveitin yfirgaf sviðið, ljósin kveikt og þegar ég sá fjölskyldu Roger taka saman föggur sínar vissi ég að það yrði ekkert auka uppklapp.

Þegar ég kom við í Queenbúðinni í Karnabæ greip ég bæði Outsider og nýju útgáfuna af Back to the Light með Brian May í von um áritanir. Ég ákvað að hanga þarna og sjá hvort ég myndi hitta á annan hvorn eða báða. Ég vissi að Roger hafði áritað eftir suma tónleika þannig að ég var vongóður. En þegar á leið heyrði ég að líklega yrði ekkert svoleiðis vegna Covid.

Allavega fékk ég gott hrós fyrir grímuna og myndina á töskunni minni. Bæði Trap Jaw.

Ég heyrði sögu frá stúlku sem talaði með írskum hreim en sagðist vera ensk. Hún hafði brugðið sér á salernið og lenti í því að einhver stór gaur var í dyrunum að horfa á tónleikana. Hún bað hann um að færa sig og hann biðst innilegrar afsökunar á meðan hún missti andlitið. Þetta var Brian May.

Það voru líka gaurar að spjalla, annar frá Írlandi og hinn frá Brasilíu. Allt í góðu þar til forseti Brasilíu var nefndur. Þá kom gaurinn forseta sínum til varnar og sagði það gott að hafa sterkan mann. Augnabliki seinna þurfti Írinn að fara.

Við sáum töluvert af börnum Roger að rölta inn og út. Ég sá ekki Tim Staffell, þriðja meðlim Smile en hann var víst líka svæðinu.

Að lokum fór svo að Roger yfirgaf staðinn í bíl. Ég var að vonast eftir því að hann myndi kasta á okkur kveðju þar sem hann var með opinn glugga en auðvitað var það skemmt. Gaur sem var greinilega að taka upp á síma tróð sér upp að bílnum og kallaði spurningar til Roger sem nennti greinilega engu svoleiðis.

Ég var mjög þreyttur. Þyrstur. Svangur. Yfir- og undirgrundirnar voru hættar að ganga. Ég var ótrúlega glaður að sjá M&S Simply Food ennþá opið rétt hjá. Í raun hálfgerð bensínstöðvarsjoppa. Ég rölti þangað og greip fjórar flöskur af kolsýrðu vatni. Á leiðinni að kassanum sá ég samlokur og ákvað að taka eina með skinku af osti. Þegar ég ætlaði að borga sagði afgreiðslumaðurinn eitthvað illskiljanlegt. Ég hváði. Hann endurtók og ég áttaði mig á að hann var að bjóða mér að hita samlokuna. Þakklæti mitt var endalaust og þarna náði hann breyta snarli í máltíð.

Þrátt fyrir að strætisvagnarnir séu eitt helsta einkennistákn London hef ég aldrei notað þá. Þó það hafi ekki verið nema rúmlega 30-40 mínútna labb að hótelinu hafði ég enga orku. Ég kom mér á strætóstöðina og beið ekkert rosalega lengi. Get ekki sagt að ferðin hafi verið merkileg lífsreynsla. Ég þurfti að ganga í svona tíu mínútur að hótelinu. Ég fékk smá nasaþef af hinu fræga næturlífi London. Einn fullur að pissa. Stúlka sem ég hélt að væri að betla var, þegar betur var séð, greinilega á leiðinni á eða af djamminu. Sat og sötraði gosbjórinn sinn á gangstéttinni.

Laugardagur (nördabúðir, indverskir veitingastaðir og tvö leikrit)

Ég var enn svolítið aumur daginn eftir. Fjárfesti í verkjalyfjum til að draga úr verkjunum. Keypti líka aspirín til að eiga bara heima á Íslandi til að berjast við mígreniköst.

Allar heimsóknir til London krefjast viðkomu í búðum á, og nálægt, Shaftesbury Avenue. Fyrst fór ég í Forbidden Planet. Þar voru margar freistingar. Það var hægt að kaupa Trap Jaw Funko í yfirstærð. Sá ekki fyrir mér að hafa pláss fyrir þann grip. Ákvað í staðinn að kaupa eitt stykki Orko. Ég lagði þó áherslu á að finna eitthvað fyrir strákana. Ég áttaði mig að það er miklu auðveldara að finna eitthvað til að gleðja Ingimar en Gunnstein. Ég hefði kannski gripið einhver Pokemon spil en komst að því að það er skortur á þeim á Bretlandi.

Seinna um daginn heimsótti ég Orc’s Nest. Frábær spilabúð. Á meðan ég var á staðnum sá ég Íslendinga, pabba með tveimur krökkum. Ég ákvað að auglýsa ekki nærværu mína. Langaði að minna þau á að kíkja líka á Forbidden Planet.

Þrátt fyrir góðan vilja hafði ég ekki komið mér á indverskan veitingastað í ferðinni. Sá sem ég ætlaði að heimsækja í nágrenni hótelsins var lokaður. En rétt hjá Forbidden Planet var staður sem heitir Punjab. Í stuttu máli var maturinn frábær þar.

Almennt fer ég frekar á söngleiki en leikrit. En í þetta skiptið rakst ég á tvö leikrit sem heilluðu mig. The Shark is Broken fjallar um samskipti þriggja aðalleikara kvikmyndarinnar Jaws. Höfundur verksins er Ian Shaw, sonur Robert Shaw (T.S. Quint) sem einnig leikur föður sinn. Ég vandaði mig á að horfa á Jaws áður en ég fór út. Man ekki eftir að hafa séð hana áður í góðri upplausn og víðskjá. Ég man ekki eftir að hafa verið hræddur þegar ég sá hana á myndbandsspólu en kannski hefði verið erfiðara að þola þetta í hárri upplausn. B-mynd en góð B-mynd.

Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast við af leikritinu. En sagan og persónurnar voru áhugaverðar. Allavega Shaw og Richard Dreyfuss. Ian nær pabbi sínum, sem lést nokkrum árum eftir tökur á myndinni, ótrúlega vel. Þeir eru líka mjög líkir nema að andlit Robert bar með sér að hann væri “lifaður”. Ian ber aldurinn betur. Ég veit ekki hvort Richard Dreyfuss var jafn óþolandi vælutýpa og leikritið sýnir.

Það hefur lengi verið vitað að samskipti leikara á bak við tjöldin endurspegluðu ´atökin á milli persóna þeirra í myndinni. Þetta þýðir auðvitað að peróna Roy Scheider (lögreglustjórans Brody) er ekki sérstaklega áhugaverð. Hans hlutverk var að miðla málum.

Yfir heildina naut ég sýningarinnar. Ég fékk smá aulahroll yfir sumum bröndurunum sem endurspegluðu sjónarhorn 21. aldarinnar. En áhorfendur voru hrifnir af þeim. Leiksviðið var frekar einfalt en virkaði ágætlega. Ég held að ég sé ekki að höskulda neitt með því að segja að einræða Quint hafi verið hápunktur sýningarinnar.

Það er merkilegt að ég hef áður lent í því að finna ekki laust borð á góðu veitingastöðunum í kringum leikhúsin fyrir kvöldsýningarinnar en ég læri ekki neitt. Fór fram og til baka og endaði á indverskum stað sem var ekki alveg í fyrsta flokki. Vonbrigðin með samósurnar virtust staðfesta ótta minn. Þær hefðu allt eins getað komið úr Iceland. En aðalrétturinn var yndislegur og naanið líka þannig að ég var frekar sáttur. Strand Tandori.

Hitt leikritið sem ég sá í London var Ocean at the End of the Lane, byggt á samnefndri skáldsögu Neil Gaiman. Alveg óvart var laugardagskvöldið fyrsta sýningin á leikritinu, ekki frumsýning heldur forsýning.

“Rafmiðinn” sem ég fékk innihélt ekki sætisnúmer en ég fann það í bókunarpóstinum mínum. Ég settist í sæti sem var frekar framarlega, og fyrir miðju. Eftir augnablik kom kurteis maður og sagði að ég væri í sætinu hans. Þar sem hann var með tveimur öðrum ákvað ég að það væri auðveldara fyrir mig að víkja. Ég fór upp í miðasöluna og fékk staðfestingu á að sætisnúmerið mitt væri rétt. Bara á svölunum. Ímyndið ykkur hve vandræðalegt það hefði verið ef ég hefði ákveðið að vera með vesen við gaurinn sem raunverulega átti sætið. Því miður var raunverulega sætið mitt mjög óþægilegt. Ég þurfti að karlgleiða mig af því ég gaf bókstaflega ekki komið hnjánum mínum fyrir.

Leikhúsið hafði verið lokað í um eitt og hálft ár og það var gleði hjá leikurum og leiksstjóra. Allir spenntir. Það var varað við að mögulega þyrfti að stoppa sýninguna ef eitthvað væri úrskeiðis.

Því miður var ég ekki rosalega hrifinn af leikritinu. Kannski af því að ég elska bókina of mikið. Mögulega var þetta ekki orðið nógu smurt. Sumt í framsetningunni var ekki að heilla mig. Síðan fannst mér gamla frú Hempstock ekki frábærlega leikin. Öldrunargervi hennar var frekar slakt. Sá sem lék pabbann og fullorðna strákinn var ekki heldur að grípa mig.

Ljónastytta á Trafalgar
Ljón fyrir Eygló

Ég ætlaði að rölta niður á Trafalgartorg, sælla minninga, en það var afgirt. Ég náði samt boðlegri mynd af einu ljóninu til að senda á Eygló. Á leiðinni á hótelið lenti ég í djammlest. Reyndar bara milli tveggja stoppistöðva. Beint fyrir framan mig settist ung kona í ótrúlega stuttum kjól. Ég var alveg rosalega einbeitur í að horfa ekki á hana. Grandskoðaði lestarleiðirnar sem voru sýndar fyrir ofan hana.

Fyrr um daginn hafði Covid-19 heimaprófið borist mér á hótelið. Þar sem ég beið eftir lest áttaði ég mig á að ég hefði ekki ennþá klárað það. Ég notaði því tækifærið að stinga pinnanum upp í nefið á mér og setja í litla plastglasið með saltlausninni. Ég fékk síðan penna gefins á hótelinu (Covid!), skrifaði á “umslagið” og stakk í póstkassa rétt hjá. Þar sem þetta var laugardagskvöld var augljós að ég fengi aldrei niðurstöðurnar áður en ég yfirgæfi landið.

Sunnudagur (illkvittni, indverskur og innferð)

Ég vaknaði seint og síðarmeir. Plön dagsins urðu að litlu. Ég fann veitingastað í Soho til að prófa. Hann virkaði frekar “fínn” á mig og enginn matseðill á heimasíðinni. Ég er ekki fínn og ég er hrifinn af matseðlum. Þegar ég kom inn á staðinn leið mér ekkert óþægilega í mínum hversdagsfötum.

Maturinn var æðislegur. Samóskurnar yndislegar. Þeim fylgdi hálfgerður aukaréttur, kjúklingabaunir í frábærri sósu. Allt hitt frábært líka. Mæli með. Masala Zone Soho.

Síðasta leikhúsferð ferðarinnar var á söngleikinn Wicked (baksaga Galdramannsins í Oz). Það var örlítið vanhugsað hjá mér því sýningin er frekar löng. Ég hafði allavega gott sæti. Önnur röð frá sviðinu en lengst til hægri. Útsýnið var örlítið takmarkað en fótaplássið bætti það upp. Ég átti í smá einhliða haturssambandinu við konuna við hliðina á mér. Þegar ég var að leita að sætinu mínu lenti ég í vandræðum af því það var ekki einföld númeraröð á þeim. Hún hafði sett jakkann sinn yfir sætið mitt og faldi þar með númerið. Ég varð mjög pirraður þegar ég áttaði mig á þessu.

Það var ekki mikill tími eftir sýningu. Ég kom mér á hótelið að grípa farangur minn og síðan beint á Heathrow. Ég var auðvitað á góðum tíma. Upplýsingaskiltið sagði mér að bíða til 20:40 eftir að hliðarnúmerið yrði birt.

Það var ekki um margt matarkyns að velja á flugvellinum. Endaði með að fá burrito á Pret A Manger. Alveg boðlegt.

Þegar ég fór að athuga hvort hliðarnúmerið mitt væri komið biðu mín frekar óvænt, og óþægileg, skilaboð. “Hliðið” var lengst í burtu og krafðist þess að nota skutlu. Ég þurfti því að drífa mig óhóflega hratt sem var ekki best miðað við þreytustig mitt.

Lítið meira að segja. Flugið óspennandi, sem er gott, og óáhugaverð rútu- og leigubílaferð. Gott að komast heim.

Á þriðjudaginn fór ég Covid-hraðpróf og fékk úr því á nær nákvæmlega sama tíma og úr breska prófinu. Fékk sumsé tvö nei. Ekki óvænt miðað við hve passasamur ég var.

Af portkonum, guðspjöllum og íslenskum Óskarsverðlaunahafa

Um daginn sá ég full af fólki tala um “sex workers” á Twitter. Ég er ekkert rosalegur aðdáandi þess að nota þetta enska hugtak. Einfaldast væri að tala um kynlífsvinnu og kynlífsverkafólk. En það varð til þess að ég fór að pæla í eldri orðum um þetta fyrirbæri á íslensku.

Þegar ég var í áttunda eða níunda bekk sagði íslenskukennarinn okkur sögu af Halldóri Laxness. Ég myndi giska að hún væri flökkusaga en hún hefur allavega tvisvar komið fyrir á prenti. Gísli Jónsson endurtók hana í pistli um íslenskt mál árið 1999.

Frá því er að segja, að á ofanverðum dögum Halldórs Kiljans Laxness var portkona ekki tíðhaft orð. Í elli sinni dvaldist hann í sæmd og æru á Reykjalundi, og einn sunnudag vinnur honum beina ung kona, í pilsum varla niður á þykkvalær og í opinskárri blússu. Verður þá öldunginum að orði: “Fyrirgefið þér fröken, eruð þér portkona?” Frammistöðustúlkan rýkur fram í eldhús, rétt eins og bitin væri af sel, og spyr matseljuna, lífsreynda og ráðsetta: “Hvað þýðir þetta orð portkona? Karlinn sem fékk Óskarinn, sagði þetta við mig.” Ráðskonan skýrði orð Nóbelskáldsins vandlega fyrir hinni ófróðu stúlku.

Ég verð að játa að eftir á þykir mér þetta skrýtin saga til að segja unglingum. En mörgum þótti þetta sniðug athugasemd hjá Halldóri og skemmtilegt skot á unga fólkið sem skortir orðaforða og þekkingu. Í dag myndu margir frekar sjá þetta sem drusluskömmun.

Orðið portkona er áhugavert. Ég held að ég geti fullyrt að almennt skilur fólk orðið þannig að það sé vísun í að þessar konur stunduðu iðju sína í t.d. húsasundum. Ég held að ég hafi fyrst skilið það þannig. En þegar ég fór að hugsa málið þótti mér líklegra að umrætt port væri höfn. Ég sá fyrir mér íslenska sjómenn, á flutninga- eða fiskiskipum, koma við í höfn og hitta umræddar portkonur fyrir þar.

Ég hafði rétt og rangt fyrir mér. Portið er vissulega höfn. Það er hins vegar miklu eldra en ég bjóst við. Fyrsta dæmið sem við eigum um þetta orð á íslensku er úr Nýja Testamenti Odds Gottskálkssonar, fyrst prentað 1540, nánar tiltekið í Lúkasarguðspjalli. Þið kannist kannski við söguna.

En nú eð þessi þinn sonur kom, hver út hafði svælt sínu góssi meður portkonum, þá slátraðir þú honum alinkálf.

Eða, samkvæmt ritmálssafni Árnastofnunar.

… huer vt hafdi suælt sinu godzi medr port konum.

Orðaforði Odds var samt fjölbreyttari þannig að í Matteusarguðspjalli notaði hann annað orð.

Sannlega segi eg yður að tollheimtarar og pútur munu fyrri komast í Guðs ríki en þér.

Það kom mér á óvart að sjá orðið “púta”. Mér hafði ekki dottið í hug að það hefði verið notað í íslensku fyrr á öldum. Ég tengi orðið helst við spænsku þó ég hafi ekki lagst í neina orðsifjafræði beint.

Heiðna-Biblian frá árinu 1908 notar síðan orðið skækja í stað pútu.

… en er þessi sonur þinn, sem sóað hefir eigum þínum með skækjum, er kominn, þá slátraðir þú fyrir hann alikálfinum.

Biblía 21. aldar, umdeild vegna þýðinga sem löguðu til siðfræði hinnar helgu ritningar, hélt sig við orðið skækja.

En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.

Ég verð reyndar að taka fram að það er ótrúlegt metnaðarleysi hjá Hinu íslenska biblíufélagi í framsetningu á texta á vefnum. Það ætti að vera auðvelt að hoppa á milli ólíkra þýðinga í stað þess að smella fram og til baka.

Það sem mér þótti einna áhugaverðast við portkonuna er að það orð þekkist í eldri Biblíuþýðingu. Guðspjöllin frá Lindisfarne eru áhugaverð heimild. Í grunninn er textinn á Latínu en um árið 970 kemur til fræðimaður að nafni Aldred og krassar (eða lét aðra krassa) í handritið. Ef ég tæki mig til og glósaði inn á forn handrit í dag þá yrði ég ekki vinsæll. En Aldred er hálfgerð hetja fyrir sitt uppátæki. Hann var nefnilega að skrifa þýðingar á fornensku.

Í umræddum kafla úr Lúkasi segir hann að glataði sonurinn hafi verið eyða peningum sínum í portcuoene. Þar sem það var engin stöðluð stafsetning á fornenska þá er orðið t.d. líka skrifað port-cwén. Ég held að þetta sé nokkuð skýrt. Kona eða kvenmaður. Ég vildi að ég gæti sýnt ykkar mynd af umræddri orðnotkun úr þessu fræga Lindisfarne-handriti en, talandi um metnaðarleysi, þá virðist það ekki til á stafrænu formi nema einstakar síður. Það er þó hægt að sjá hvernig setningin er umrituð í prentuðum útgáfum.

Ég efast um að Oddur Gottskálksson hafi haft aðgengi að fornenskum þýðingum guðspjallanna. Þannig að við getum ímyndað okkur að portkona hafi verið nokkuð vel þekkt orð. Við höfum þarna rúm fimmhundruð ár á milli. Mér sýnist að í þessu tilfelli sé samt nokkur sátt meðal fræðimanna um að íslenska orðið hafi komið úr enskunni frekar en enska orðið úr norrænu.

Þannig að, ef ég leyfa mér að giska óhóflega í eyðurnar, getum við ímyndað okkur að það hafi verið íslenskir sjómenn sem fluttu orðið með sér eftir að hafa hitt fyrir portkonur. En það gerðist bara miklu fyrr en ég hugsaði mér. Við getum jafnvel séð fyrir okkur víkinga sem hittu fyrir portkonur og víkkuðu um leið orðaforða sinn.

Reyndar liggja leiðir Norrænna manna við Lindisfarne guðspjöllin ekki bara saman í orðaforða. Bókin sjálf er ríkulega myndskreytt en kápan sjálf var bókstaflega verðmæt enda skreytt með gimsteinum. Það er talið líklegt að víkingar hafi stolið þeim fjársjóði líkt og gerðist með Bókina frá Kells. Það er líka rétt að minnast á að árásin á Lindisfarne árið 793 er almennt sögð marka upphaf víkingaaldar.

Filippus og kónganöfn

Vegna fréttaflutnings af andláti og útför Filippusar drottningarmanns þá hefur mikið verið rætt um nafnið hans. Það eru margir sem kvarta yfir því að það sé verið að þýða það á íslensku og segja að það eina rétt sé að kalla hann Philip.

Nú verð ég að taka fram að mér er alveg sama hvort fólk segir Philip eða Filippus. Mér finnst það hins vegar kjánalegt að halda því fram að það eigi að skrifa og segja Philip.

Mig grunar að hér sé fólk ranglega að tengja íslenskar útgáfur af kónganöfnum við ósanngjörn íslensk nafnalög sem neyddu innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn eða grínþýðingar á nöfnum erlendra poppstjarna sem voru gjarnan notaðar í æsku minni. Þetta er ekki einhver séríslenskur siður heldur eitthvað sem hefur fylgt kóngafólki í gegnum aldirnar.

Í dag tengjum við kóngafólk oft við þjóðir og, um leið, tungumál. En í sögu Evrópu þá hefur það alls ekki verið reglan. Kóngar og drottningar ríktu yfir mörgum þjóðum. Einn af fylgifiskum þess var að kóngafólkið notaði mismunandi útgáfur af nöfnum sínum. Þetta voru allra þjóða kvikyndi.

Það er ágætt að hafa í huga er að kóngafólkið flakkaði um, allavega dæturnar. Þegar Maria Antonia fór til Frakklands var hún kölluð Marie Antoinette. Þetta var franska útgáfan af nafninu hennar.

Viðhorfið var sumsé að nöfn hefðu hliðstæður í mismunandi tungumálum. Þannig var ekki hugsað um þetta sem þýðingar heldur útgáfur af sama nafninu. Nöfnin voru líka oftast til í latínu og, sérstaklega innan kaþólskra ríkja, þá var hægt að líta á sem latínunafnið sem formlegu útgáfuna. Þó breska útgáfan af kónganafninu hafi verið James þá kölluðu fylgismenn kóngsins sig Jakobíta. Frá þeim sjónarhólki er auðvelt að skilja hvers vegna það er eðlilegt að kalla þessa kónga Jakob á íslensku.

Síðan má bæta því við að kónganöfnin eru ekki nærri því alltaf persónulegu nöfn þeirra. Fólki finnst kannski asnalegt að kalla kónginn Játvarð áttunda en vinir og vandamenn kölluðu hann alltaf David. Þannig eru kónganöfnin jafnvel líkari titli heldur en eiginnafni.

Filippus drottningarmaður var grískur, danskur, breskur, þýskur og örugglega margt fleira. Hann var upprunalega grískur prins og fékk nafnið Φίλιππος eða Fílippos. Þar sem hann var tengdur fullt af kóngafjölskyldum þá hefur hann alist upp við að vita að nafnið hans væri til í ótal útgáfum. Við sjáum líka hér að íslenska útgáfan af nafninu er mun nær því upprunalega heldur en sú breska.

Mér finnst alltaf undarlegt að líta á stafsetningu nafns sem óumbreytanlega. Þegar Jóhanna Guðrún reyndi fyrir sér á erlendum vettvangi kallaði hún sig Yohanna. Fólk bókstaflega missti sig í kommentakerfunum og sagði að hún væri að breyta nafninu sínu. En hún var bókstaflega að verja nafnið sitt með því að aðlaga stafsetninguna. Fyrir henni var það greinilega mikilvægara að reyna að hafa frumburðinn réttan. Heitir fólk frekar nöfnum eins og þau eru skrifuð eða eftir því hvernig þau eru sögð? Ég held að fólk ætti að fá að ráða því sjálft.

Þegar íslenska ríkið neyddi innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn þá var það oft vanvirðing. Reyndar má ekki gleyma innflytjendum sem gátu tekið upp íslensk nöfn sem voru hliðstæð upprunalega nafninu og voru bara glaðir. En auðvitað voru margir mjög ósáttir.

Þannig að mig grunar að margir telji það einhvers konar vanvirðingu við Filippus að nota íslenska útgáfu af nafninu hans. Ég efast stórlega um að hann hafi hugsað þannig. Það er miklu líklegra að kóngafólk telji ákveðna virðingu fólgna í því að fólk noti hliðstæð nöfn milli tungumála. Það er bara hluti af pakkanum.

Þannig að þó mér sé sama hvaða útgáfu þið notið af nafninu hans þó ættuð þið ekki að láta ykkur detta í hug að breska útgáfan sé sú eina rétta eða að það sé einhver sérstök virðing fólgin í að nota hana.

Óreglulegir Sherlock Holmes þættir

Þegar ég var svona 10-11 ára þá keypti ég Sherlock Holmes bækur á bókamarkaði. Las þær allar. Elskaði þær. Líklega hafði ég þá þegar horft á bæði Sherlock Holmes þættina með Jeremy Brett og kvikmyndina Young Sherlock Holmes. Þá var ég líklega búinn að sjá The Private Life of Sherlock Holmes þar sem Loch Ness skrýmslið kom við sögu.

Ég hef líka verið hrifinn af uppstokkun á Sherlock Holmes. Dæmi um slíkt er Without A Clue þar sem kemur í ljós að Watson er í raun sá klári. Síðan fannst mér Elementary frábær nútímavæðing á persónunum. Ég féll hins vegar aldrei fyrir Sherlock.

En af öllum þessum uppstokkunum á persónunni þá stendur smásagan A Study in Emerald eftir Neil Gaiman uppúr. Þar er blandað saman Sherlock Holmes og H.P. Lovecraft. Frábært alveg. Í sama dúr er skáldsagan The Angel of the Crows eftir Katherine Addison (Sarah Monette). Þar er einkaspæjarinn settur í fantasíuhrylling og útkoman æðisleg.

Þannig að þegar ég sá þættina The Irregulars á Netflix þá varð ég mjög spenntur. Titilinn gaf til kynna að hér væri verið að fjalla um götukrakkana sem Holmes notaði oft til að njósna fyrir sig. Um leið var ljóst að yfirnáttúru og hryllingur blandaðist inn í það.

En þættirnir eru bara “meh”. Ég hef séð þetta gert svo mikið betur. Það eru fullt af góðum hugmyndum en lausnirnar eru oftar ekki einfeldningslegar. Það að blanda fjölskyldu Viktoríu drottningar inn í söguna er ein af þessum góðu hugmyndum sem hefði mátt vinna betur úr.

Það sem stóð uppúr var hins vegar aðalleikkonan Thaddea Graham. Ég kannaðist við hana úr annarri “lala” Netflix seríu The Letter for the King. Það er engin tilviljun að allir dómar sem ég hef lesið um The Irregulars segja það sama, hún er það besta við þættina. Ef Thaddea Graham fær betri efnavið þá verður hún stjarna.

Í þessum þáttum er farin sama leið og t.d. í Bridgerton (sem ég hef reyndar ekki séð). Leikarnir eru af ýmsum uppruna en það er aldrei talað um húðlit. Ég skil alveg kostinn við þessa nálgun. Hingað til þá hefur verið nær alveg lokað á aðra en hvíta leikara í svona sögulegu efni sem er staðsett í Bretlandi. Svona fá þeir tækifæri. En það er samt næstum því eins og það séu allir að leika hvítar persónur.

Þegar þættirnir byrjuðu og ég sá að Thaddea Graham, sem er mjög greinilega af kínverskum uppruna, ætti systur í þáttunum sem leit út fyrir að vera mjög “bresk” þá fór ég að vona að hér yrði kafað ofan í reynsluheim slíkrar fjölskyldu á Viktoríutímabilinu. En það var augljósleg ekki gert.

Vandinn við sögulegt efni er svo oft að það hunsar þann fjölbreytileika sem var til staðar. Við höfum séð endalausar birtingarmyndir London þessa tíma þar sem allir eru hvítir. En það var ekki þannig. Meira að segja Arthur Conan-Doyle notaði persónur af öðrum uppruna í sögum sínum en því miður var hann frekar rasískur í því hvernig hann sýndi þær.

Þegar svartur maður fékk aðalhlutverkið í Les Mis á Broadway þá var fullt af reiðu fólki sem hafði engan skilning á því að það var svart fólk í Frakklandi á þeim tíma sem sagan gerðist. Frægastir þeirra eru auðvitað hershöfðinginn Dumas og rithöfundarnir sonur hans og sonarsonur.

Þannig að mér finnst svona “litblint” leikaraval ekki svara þeirri þörf að segja sögur sem hafa ekki verið sagðar.

Klám í hlaðvarpi

Ég var að hlusta á hlaðvarp sem heitir Once upon a time … in the Valley. Ég gat ekki hætt að hlusta. Yfirleitt er það gott. Ég gefst yfirleitt strax upp á lélegu efni. En ekki núna. Þetta var svo slæmt að ég gat ekki annað en hlustað í gegn.

Þættirnir fjalla um Traci Lords. Ef þið þekkið ekki söguna þá er hún í grunnatriðum þau að þessi unglingsstúlka, 15 ára, náði sér í skilríki til að þykjast vera fullorðin. Hún sat fyrir hjá fullt af blöðum, m.a. Penthouse, og endaði síðan í klámi. Þegar hún var 15-18 ára. Ég man náttúrulega fyrst eftir henni í kvikmyndinni Cry Baby.

Ég hef undanfarið verið að hlusta á þætti sem heita You’re Wrong About sem fjalla oft um konur sem lentu í fjölmiðlasirkúsi. Það er uppfullt af einlægu spjalli og innsæi. Ólíkt Once upon a time … in the Valley.

Það er bara allt að þessi hlaðvarpi. Það er kannski ágætt að líkja þessu við klámmynd. Það er léleg tónlist, léleg framleiðsla og ósannfærandi leikarar. Með leikarar á ég við stjórnendur þáttarins. Þættirnir eru fullir af litlum leikþáttum þar sem stjórnendurnir þykjast vera að spjalla en eru að fara eftir handriti. Frammistaðan er trénuð.

En auðvitað er verst hvernig er farið með Traci Lords. Það er nær algjör skortur á samkennd með henni. Viðhorfið hjá þáttastjórnendum, og mörgum viðmælendum, virðist vera að það sé kannski ólöglegt að framleiða klám með unglingsstúlku en það hafi ekki verið beint ósiðlegt af því að hún virtist njóta þess. Viðmælendur úr klámheiminum er flestir á þeirri línu að Traci hafi verið vergjörn. Það er ótrúlega ógeðfellt þegar þetta fólk er að lýsa kynlífi með henni.

Fólkið úr klámheiminum er upp til hópa tilbúið að úthrópa Traci sem lygara en þáttastjórnendur eru ekki nógu duglegir að benda á að sögurnar frá klámheiminum eru ósannfærandi og í hrópandi mótsögn við hver aðra.

Í stað þess að skilja að unglingar hafi ekki þroska til að vera í þessum heimi þá er Traci máluð sem einhvers konar snillingur sem hafi leikið á alla. Verst er kannski þegar fólk úr klámheiminum lætur eins og að hún skuldi þeim afsökunarbeiðni fyrir að hafa farið svona illa með þau.

Þáttastjórendur eru mjög uppteknir af því að finna dæmi um að Traci sé ekki sjálfri sér samkvæm. Það er í fyrsta lagi enginn skilningur á því að skilningur hennar á því sem átti sér stað hafi breyst með tímanum. En síðan er bara sú einfalda staðreynd að þarna er manneskja að takast á við erfitt tímabil í lífi sínu og geti ekki alltaf verið heiðarleg, bæði til að verja sig og aðra.

Síðan er það þessi ömurlega taktík þáttastjórnenda að vera sífellt og endalaust að segja “eigum við að benda hlustendum á að þetta er ekki alveg satt?” – “nei, við skulum bara leyfa hlustendum að dæma sjálfir”. Þegar fólki segir svona þá er það að gera það sem það segist ekki vera að gera. Það er svo mikill tvískinnungur í þessu.

Þetta er líka dæmigert hlaðvarp sem teygir lopann endalaust. Ótrúlegar endurtekningar. Það þarf ekki alltaf að gera 13 þætti. Það má hætta þegar meginatriðunum hefur verið komið til skila.

Ég skil ekki hvernig þetta hlaðvarp var framleitt árið 2020. Þetta er hræðileg drusluskömmun í garð unglingsstúlku. Þetta er svo mikið drasl að ég gat ekki annað en skrifað aðeins um það.

Twitter, Trump og tjáningarfrelsi

Í sjálfu sér hef ég ekki miklar áhyggjur af því að Twitter (ásamt fleirum) sparkaði Donald Trump. Það var engin árás á tjáningarfrelsið. Maðurinn er með ótrúlega öfluga maskínu á bak við sig sem getur komið boðskap hans á framfæri.

En Trump virðist ekki kunna að koma sér öðruvísi á framfæri. Það er áhugavert. Hann lærði á Twitter. Hann náði að auglýsa sig þar. En hann hafði fjögur ár til að finna sér betri sápukassa til að standa á en gerði það ekki. Mig grunar að hann hafi tengt töluvert af persónulegri vellíðan sinni við lækin sem hann fékk þar.

Það sem við höfum séð gerast síðasta áratug eða svo er að samfélagsmiðlarnir hafa náð að koma sér í þá stöðu að vera gátt margra að vefnum. Fólk sem fór fyrst að stunda netið á þessum árum þekkir varla annað en að nálgast efni á þennan hátt. Það hafa margir varað við þessari þróun.

Frá banni Trump hefur umræðan mikið verið um tjáningarfrelsi og ritskoðun. Því hefur verið haldið fram að einkafyrirtæki svo sem Twitter og Facebook geti ekki stundað ritskoðun enda sé ekki um ríkisvald að ræða. Ég held að það sé í raun rétt en að málið sé samt ekki svo einfalt. Þessi fyrirtæki hafa komist í þá stöðu að stjórna aðgangi að samfélagslegri umræðu.

Þegar ég segi að ég hafi ekki áhyggjur af banni Trump þá er það vegna þess að samfélagsmiðlar hafa alltaf verið að sparka fólki út. En það hefur almennt verið valdalítið fólk sem missir nær alveg sína rödd þegar það missir aðgang sinn af samfélagsmiðlum.

En hvaða kröfur getum við gert til samfélagsmiðla þegar þeir eru í raun miðstöð tjáningar? Mér finnst mikilvægast að reglur séu skýrar og gildi jafnt fyrir alla. Donald Trump hafði margoft brotið reglur Twitter og Facebook. Hann var ekki bannaður vegna þess að fyrirtækin voru að græða á honum. Reglurnar gengu ekki jafnt yfir alla.

Það segir annars sitt hvenær Twitter og Facebook fóru að taka á Trump. Þá á ég ekki bara við árásina á þinghúsið í Washington DC. Ég á við að það gerðist á þeim tímapunkti að ljóst var að hann hefði tapað. Þegar við vissum að Demókratar væru að taka við völdum.

Það er auðvelt að giska á útreikning fyrirtækjanna. Trump varð minna virði. Margir Demókratar hafa líka talað um að setja harðara lög um samfélagsmiðla. Þannig má vissulega sjá bann Trump sem tilraun til að friðþægja nýja valdhafa. Það er ekki falleg tilhugsun.

Á sama tíma og Trump var bannaður var gerð atlaga að samfélagsmiðlinum Parler. Ég syrgi ekki Parler. Þar fengu nýnasistar að vaða uppi með hótunum um ofbeldi. En það að Google, Apple og Amazon gátu í samvinnu drepið samskiptamiðil er vægast sagt áhugavert. Það eru allar líkur á að skilmálar fyrirtækjanna hafi verið með þeim hætti að þetta hafi allt verið samkvæmt reglum sem Parler hafi gengist undir. Mig grunar samt að Parler hafi fyrir löngu brotið umrædda skilmála. Þarna er það sama, reglurnar eru endilega skýrar og ganga ekki jafnt yfir alla.

Ég held að við hefðum getað komist hjá þeirri stöðu sem við erum í dag þar sem örfá stórfyrirtæki hafa gríðarleg völd yfir samskiptum og tjáningu. Við eigum tólin, það eru samkeppnislög sem voru bókstaflega sett til að koma í veg fyrir einokunina sem við sjáum í dag. En síðustu 40-50 ár hefur frjálshyggjan gert atlögu að þessum lögum.

Í dag er túlkun á einokun og samkeppnishömlunum mjög þröng. Það er einblínt á verð til neytandans. Auðvitað er hagur almennings ekki einskorðaður við slíkt. Amazon, Apple, Google, Facebook og Twitter hafa öll hamlað valfrelsi og nýsköpun. Þessi fyrirtæki hafa öll keypt eða kæft ótal samkeppnisaðila með markaðsráðandi stöðu sinni.

Í þessu ljósi er óneitanlega fyndið að sjá frjálshyggjufólk kvarta yfir banninu á Trump. Hugmyndafræðilega gjaldþrota í kjölfar bankahrunsins náði það að sjá loddarann sem lausnara sinn og snerist gegn eigin arfleifð.

Til framtíðar vona ég að andstæðingar Trump falli ekki fyrir því að þessi stórfyrirtæki séu núna allt í einu samfélagslega ábyrg. Þau eru það ekki. Þau mega ekki hafa þessi völd. Ég vona að það sé hægt að vinda ofan af þeim. Alls ekki með því að ríkisvæða þessar “veitur”. Það er voðaleg hugmynd. Netið sjálft er eins og vatnið í krananum en einstaka netfyrirtæki eru það ekki. Ætti allavega ekki að vera það.

Það væri betri hugmynd að kljúfa Facebook og Twitter í minni einingar og neyða fyrirtækin til að opna á tengingar við aðra samfélagsmiðla. Fyrirtækin mættu þá auðvitað hafa skýrar reglur, sem gilda jafnt fyrir alla, sem myndu koma í veg fyrir tengingar við fyrirbæri á við Parler.

Ekki það að ég hafi endalausar lausnir. En þetta eru nokkrar hugmyndir sem ég tel rétt að hafa í huga til framtíðar.

Stjörnustríðsjól

Árið 1978 var Star Wars Holiday Special frumsýnd. Þetta var ári eftir að fyrsta myndin var frumsýnd. Þessi jólamynd hlaut ekki góða dóma.

Þannig að þetta varð hálfgoðssagnakennt. Aldrei gefið út aftur. En fólk hafði tekið þetta upp á myndbandsspólum og þær voru afritaðar í áratugi. Síðan lak þetta á netið.

Ég veit ekki hvenær ég fann afrit af þessu. Gæðin voru vægast sagt slök. Lélegt afrit af lélegri upptöku í lágum gæðastöðlum. DivX fyrir þá sem þekkja slíkt.

Ég ætlaði að horfa og hlæja. Myndin gerist að mestu á heimaplánetu Chewbacca þar sem verið að er að fagna “Lífsdeginum” sem eru þeirra jól. Fyrsta atriðið er bara Vákafjölskylda að spjalla saman á sínu tungumáli, án texta. Það er mjög langt atriði. Ég gafst bara upp.

Í desember fann Gunnsteinn þetta á sjónvarpstölvunni okkar og stakk upp á að horfa á. Ég var ekki í stuði þá.

Í dag ákváðum við strákarnir að horfa saman á Lego Star Wars Holiday Special. Það var gaman. En það leiddi af sér hugmyndina að horfa á upprunalegu myndina. Allavega að sjá hvað við myndum endast lengi.

Það að horfa á þetta með strákunum gerði þetta bærilegt, jafnvel skemmtilegt. Gerðum endalaust grín að þessu öllu.

Það er margt asnalegt í myndinni. Skrýtnast fannst mér eiginlega að atriði þar sem keisaraveldið neyðir þegna sína að horfa á óklippta útsendingu frá barnum í Mos Eisley. Þessum þar sem óþokkar heimsins safnast saman. Barþjónninn er Bea Arthur sem mín kynslóð man helst eftir úr Klassapíum. Hún skiptist á gríni við viðskipavinina og syngur lag með hljómsveitinni frægu. Þetta er fólkið á heimaplánetu Vákanna neytt til að horfa á.

Það er eitt atriði sem hefur fengið jákvæða dóma. Það er teiknimynd sem kynnti fyrst persónuna Boba Fett. Hún var þolanleg miðað við restina. En samhengið í þessari mynd var mjög undarlegt. Sonur Chewbaccea, Lumpy, var að horfa á teiknimynd þar sem pabbi hans var í aðalhlutverki með Hans Óla og vélmennunum. Hver gerði þetta teiknimynd í heiminum þeirra?

Það var margt fleira í myndinni. Mörg mjög óþörf tónlistaratriði. Við spóluðum yfir atriðið sem Jefferson Starship spilar sem heilmynd. Í samhenginu myndarinnar þá eru einhver keisaraliðsforingi að horfa á tónlistarmyndbandið.

Í lok myndarinnar syngur Lilja prinsessa Lífsdagslag. Það er voðalegt. Viðeigandi endir á mjög slæmri mynd.

Þegar myndin var búin nefndi ég að það væri örugglega hægt að finna hana í hærri gæðum til að horfa á á næsta ári. Drengirnir voru ekki spenntir fyrir þeirri hugmynd.