Twitter, Trump og tjáningarfrelsi

Í sjálfu sér hef ég ekki miklar áhyggjur af því að Twitter (ásamt fleirum) sparkaði Donald Trump. Það var engin árás á tjáningarfrelsið. Maðurinn er með ótrúlega öfluga maskínu á bak við sig sem getur komið boðskap hans á framfæri.

En Trump virðist ekki kunna að koma sér öðruvísi á framfæri. Það er áhugavert. Hann lærði á Twitter. Hann náði að auglýsa sig þar. En hann hafði fjögur ár til að finna sér betri sápukassa til að standa á en gerði það ekki. Mig grunar að hann hafi tengt töluvert af persónulegri vellíðan sinni við lækin sem hann fékk þar.

Það sem við höfum séð gerast síðasta áratug eða svo er að samfélagsmiðlarnir hafa náð að koma sér í þá stöðu að vera gátt margra að vefnum. Fólk sem fór fyrst að stunda netið á þessum árum þekkir varla annað en að nálgast efni á þennan hátt. Það hafa margir varað við þessari þróun.

Frá banni Trump hefur umræðan mikið verið um tjáningarfrelsi og ritskoðun. Því hefur verið haldið fram að einkafyrirtæki svo sem Twitter og Facebook geti ekki stundað ritskoðun enda sé ekki um ríkisvald að ræða. Ég held að það sé í raun rétt en að málið sé samt ekki svo einfalt. Þessi fyrirtæki hafa komist í þá stöðu að stjórna aðgangi að samfélagslegri umræðu.

Þegar ég segi að ég hafi ekki áhyggjur af banni Trump þá er það vegna þess að samfélagsmiðlar hafa alltaf verið að sparka fólki út. En það hefur almennt verið valdalítið fólk sem missir nær alveg sína rödd þegar það missir aðgang sinn af samfélagsmiðlum.

En hvaða kröfur getum við gert til samfélagsmiðla þegar þeir eru í raun miðstöð tjáningar? Mér finnst mikilvægast að reglur séu skýrar og gildi jafnt fyrir alla. Donald Trump hafði margoft brotið reglur Twitter og Facebook. Hann var ekki bannaður vegna þess að fyrirtækin voru að græða á honum. Reglurnar gengu ekki jafnt yfir alla.

Það segir annars sitt hvenær Twitter og Facebook fóru að taka á Trump. Þá á ég ekki bara við árásina á þinghúsið í Washington DC. Ég á við að það gerðist á þeim tímapunkti að ljóst var að hann hefði tapað. Þegar við vissum að Demókratar væru að taka við völdum.

Það er auðvelt að giska á útreikning fyrirtækjanna. Trump varð minna virði. Margir Demókratar hafa líka talað um að setja harðara lög um samfélagsmiðla. Þannig má vissulega sjá bann Trump sem tilraun til að friðþægja nýja valdhafa. Það er ekki falleg tilhugsun.

Á sama tíma og Trump var bannaður var gerð atlaga að samfélagsmiðlinum Parler. Ég syrgi ekki Parler. Þar fengu nýnasistar að vaða uppi með hótunum um ofbeldi. En það að Google, Apple og Amazon gátu í samvinnu drepið samskiptamiðil er vægast sagt áhugavert. Það eru allar líkur á að skilmálar fyrirtækjanna hafi verið með þeim hætti að þetta hafi allt verið samkvæmt reglum sem Parler hafi gengist undir. Mig grunar samt að Parler hafi fyrir löngu brotið umrædda skilmála. Þarna er það sama, reglurnar eru endilega skýrar og ganga ekki jafnt yfir alla.

Ég held að við hefðum getað komist hjá þeirri stöðu sem við erum í dag þar sem örfá stórfyrirtæki hafa gríðarleg völd yfir samskiptum og tjáningu. Við eigum tólin, það eru samkeppnislög sem voru bókstaflega sett til að koma í veg fyrir einokunina sem við sjáum í dag. En síðustu 40-50 ár hefur frjálshyggjan gert atlögu að þessum lögum.

Í dag er túlkun á einokun og samkeppnishömlunum mjög þröng. Það er einblínt á verð til neytandans. Auðvitað er hagur almennings ekki einskorðaður við slíkt. Amazon, Apple, Google, Facebook og Twitter hafa öll hamlað valfrelsi og nýsköpun. Þessi fyrirtæki hafa öll keypt eða kæft ótal samkeppnisaðila með markaðsráðandi stöðu sinni.

Í þessu ljósi er óneitanlega fyndið að sjá frjálshyggjufólk kvarta yfir banninu á Trump. Hugmyndafræðilega gjaldþrota í kjölfar bankahrunsins náði það að sjá loddarann sem lausnara sinn og snerist gegn eigin arfleifð.

Til framtíðar vona ég að andstæðingar Trump falli ekki fyrir því að þessi stórfyrirtæki séu núna allt í einu samfélagslega ábyrg. Þau eru það ekki. Þau mega ekki hafa þessi völd. Ég vona að það sé hægt að vinda ofan af þeim. Alls ekki með því að ríkisvæða þessar “veitur”. Það er voðaleg hugmynd. Netið sjálft er eins og vatnið í krananum en einstaka netfyrirtæki eru það ekki. Ætti allavega ekki að vera það.

Það væri betri hugmynd að kljúfa Facebook og Twitter í minni einingar og neyða fyrirtækin til að opna á tengingar við aðra samfélagsmiðla. Fyrirtækin mættu þá auðvitað hafa skýrar reglur, sem gilda jafnt fyrir alla, sem myndu koma í veg fyrir tengingar við fyrirbæri á við Parler.

Ekki það að ég hafi endalausar lausnir. En þetta eru nokkrar hugmyndir sem ég tel rétt að hafa í huga til framtíðar.

Stjörnustríðsjól

Árið 1978 var Star Wars Holiday Special frumsýnd. Þetta var ári eftir að fyrsta myndin var frumsýnd. Þessi jólamynd hlaut ekki góða dóma.

Þannig að þetta varð hálfgoðssagnakennt. Aldrei gefið út aftur. En fólk hafði tekið þetta upp á myndbandsspólum og þær voru afritaðar í áratugi. Síðan lak þetta á netið.

Ég veit ekki hvenær ég fann afrit af þessu. Gæðin voru vægast sagt slök. Lélegt afrit af lélegri upptöku í lágum gæðastöðlum. DivX fyrir þá sem þekkja slíkt.

Ég ætlaði að horfa og hlæja. Myndin gerist að mestu á heimaplánetu Chewbacca þar sem verið að er að fagna “Lífsdeginum” sem eru þeirra jól. Fyrsta atriðið er bara Vákafjölskylda að spjalla saman á sínu tungumáli, án texta. Það er mjög langt atriði. Ég gafst bara upp.

Í desember fann Gunnsteinn þetta á sjónvarpstölvunni okkar og stakk upp á að horfa á. Ég var ekki í stuði þá.

Í dag ákváðum við strákarnir að horfa saman á Lego Star Wars Holiday Special. Það var gaman. En það leiddi af sér hugmyndina að horfa á upprunalegu myndina. Allavega að sjá hvað við myndum endast lengi.

Það að horfa á þetta með strákunum gerði þetta bærilegt, jafnvel skemmtilegt. Gerðum endalaust grín að þessu öllu.

Það er margt asnalegt í myndinni. Skrýtnast fannst mér eiginlega að atriði þar sem keisaraveldið neyðir þegna sína að horfa á óklippta útsendingu frá barnum í Mos Eisley. Þessum þar sem óþokkar heimsins safnast saman. Barþjónninn er Bea Arthur sem mín kynslóð man helst eftir úr Klassapíum. Hún skiptist á gríni við viðskipavinina og syngur lag með hljómsveitinni frægu. Þetta er fólkið á heimaplánetu Vákanna neytt til að horfa á.

Það er eitt atriði sem hefur fengið jákvæða dóma. Það er teiknimynd sem kynnti fyrst persónuna Boba Fett. Hún var þolanleg miðað við restina. En samhengið í þessari mynd var mjög undarlegt. Sonur Chewbaccea, Lumpy, var að horfa á teiknimynd þar sem pabbi hans var í aðalhlutverki með Hans Óla og vélmennunum. Hver gerði þetta teiknimynd í heiminum þeirra?

Það var margt fleira í myndinni. Mörg mjög óþörf tónlistaratriði. Við spóluðum yfir atriðið sem Jefferson Starship spilar sem heilmynd. Í samhenginu myndarinnar þá eru einhver keisaraliðsforingi að horfa á tónlistarmyndbandið.

Í lok myndarinnar syngur Lilja prinsessa Lífsdagslag. Það er voðalegt. Viðeigandi endir á mjög slæmri mynd.

Þegar myndin var búin nefndi ég að það væri örugglega hægt að finna hana í hærri gæðum til að horfa á á næsta ári. Drengirnir voru ekki spenntir fyrir þeirri hugmynd.

 

Að selja ókeypis bækur

Þegar verkefni í þágu almennings taka að sér að koma efni á rafrænt form þá gerist það gjarnan að aðrir taka efnið og fara að rukka fyrir það. Stundum er einhverju bætt við en ekki alltaf.

Fyrir nokkru síðan rakst ég á að Forlagið selur rafbókaútgáfu af Hómerskviðum. Mig grunaði strax að hér væri á ferðinni textinn sem Rafbókavefurinn gaf út á sínum tíma. Ég nennti samt ekki að rannsaka það.

En núna áðan rakst á þessa bók hjá Google Books. Af þeim síðum sem sjást þar er ljóst að þetta er einfaldlega textinn frá okkur. Það eina sem við hefur verið bætt er ný kápumynd og höfundaréttaupplýsingar sem eru í meira lagi skrýtnar.

Sú hugmynd að Saga Egmont eigi höfundarétt að þessum texta er brandari. Útgáfan á væntanlega rétt á kápumyndinni og engu öðru. Ég játa að mér finnst töluvert fyndið að gefa Hómer höfundarétt. Fyrir utan þá staðreynd að hann var líklega ekki til þá var höfundaréttur alveg örugglega ekki til á þeim tíma sem hann á að hafa verið uppi.

En hvernig get ég verið viss um að þetta sé textinn sem Rafbókavefurinn setti á netið? Aðallega af því að þessi texti sést í sýnishorninu á Google Books.

Rafbókavefurinn tiltekur vissulega að öllum er frjálst að nota þá texta okkar sem eru merktir sem opið efni. Þannig að við bönnum engum að nota þetta. En það er auðvitað ákaflega vafasamt siðferðislega að selja efni sem þú hefur nær ekkert lagt til. Sömuleiðis finnst mér að það ætti að vera ólöglegt að gefa til kynna höfundarétt þar sem hann er ekki til staðar. Þá finnst mér hálfömurlegt að fella burt klausur um framlag Kristins Ármannssonar og Jóns Gíslasonar til útgáfunnar.

Ég er mjög hissa á að Forlagið sé að selja þessa útgáfu. Það væri gaman að sjá hvort þessi klausu um Rafbókavefinn sé líka í þessari útgáfu sem er verið að selja hjá þeim.

Annars þá er Rafbókavefurinn ennþá niðurgreiddur af mér. Það hafa bæst við smá styrkir á Karolina Fund en ekki einu sinni nóg til að borga hýsinguna. Ef fólk gæti gefið eitthvað þá myndi það hjálpa okkur – jafnvel í að koma þessu verkefni aftur á fullt skrið.

Enginn Sókrates á Twitter

Ég er búinn að vera mikið á Twitter síðastliðið ár. Allavega meira en fyrri ár. Ég hafði lengi grínast með það að ég notaði Twitter aðallega til að reyna að fá fræga fólkið til að taka eftir mér. Ég játa alveg að það er smá sannleikur í því. Mér fannst skemmtilegt þegar Neil Gaiman “endurtísti” mig nýlega.

En mig langar stundum að ræða einhver mál á Twitter og þá fer allt til fjandans. Sjálft formið er auðvitað hræðilegt. Maður getur ekki komið almennilegum hugsunum til skila í örfáum orðum. Þannig að ég lendi ítrekað í því að fólk svarar mér með því að benda á eitthvað sem ég hefði tekið fram ef ég hefði fleiri stafabil.

Það er auðvitað til ákveðin lausn sem er Twitterþráður. Mörg tíst í röð sem mynda eina heild. En ég nenni slíku almennt ekki. Ég myndi frekar blogga en að skrifa mörg tíst.

Stundum dreymir mig um að verða hálfgerður Sókrates á Twitter. Ég er reyndar svolítið að ýkja eigin sjálfsálit hérna. En ég hugsa oft um hvernig samræður í verkum Platóns virka. Það eru leiddir fram punktar með spurningum og svörum sem eru ekki augljósir í fyrstu.

En ef Sókrates hefði verið á Twitter þá hefði hann aldrei komist að kjarna málsins. Eða hann hefði kannski komist að kjarna málsins í djúpum samskiptum við einn tístara. Á sama tíma væri hann að fá endalausar athugasemdir við fyrri tíst frá fólki sem hefur ekki reynt að lesa umræðuna í heild sinni. Hann væri löngu búinn að útskýra og útfæra betur punktana sína. Samt væri alltaf eitthvað fólk að hamra á einstökum punktum sem virka vel í stóra samhengi þess sem hann var að segja.

Hér er vandamálið ekki bara leti fólks. Á Facebook getur fólk skoðað umræður í heild sinni á einfaldan hátt. En það nennir því bara ekki því það telur sínar hugsanir of merkilegar til að setja sig inn í samræðurnar. Twitter er hins vegar þannig að það er voðalega erfitt að sjá allt í samhengi. Maður sér svör í allskonar röð og maður veit varla hver er að svara hverjum nema að maður smelli aftur og aftur og þá missir maður alltaf stærra samhengið.

Þannig að ef málsvörn Sókratesar hefði farið fram á Twitter þá hefði hann líklega verið enn fljótari að drepa sig.

Andstæðan við Sókrates er Handan góðs og ills eftir Nietszsche. Þar skellir Nietzsche fram mörgum kjarnyrtum punktum. Margir þeirra eru bókstaflega á lengd við tíst. Nietzsche hefði getað komið sínum á framfæri á Twitter.

Þannig að ég hugsa stundum að ég þyrfti að vera meira eins og Nietzsche ef ég ætla að tjá mig á Twitter. En mér tekst það voðalega sjaldan. Ég er líka töluvert hrifnari af samræðuforminu þannig að ég reyni það enn þrátt fyrir slæma reynslu mína af því.

Síðustu viku hef ég nokkrum sinnum séð hve ólukkulegt þetta samræðuform er. Fyndnasta dæmið er að einhver kallaði mig frjálshyggjumann. Ég var svolítið hissa en giskaði síðan að sá hefði mislesið upplýsingaklausuna um mig á Twitter. Þar titla ég mig “librarian”. Þetta var mislesið sem “libertarian”.

Sá sem kallaði mig frjálshyggjumann bakkaði strax í næsta tísti. En það sem gerðist var að fólk hélt áfram að gefa “læk” á frjálshyggjukommentið. Það taldi að þarna hefði ég svoleiðis verið afhjúpaður.

Þetta sé ég ítrekað á Twitter. Twitter sýnir ekki samhengið í heild þannig að fólk heldur áfram að styðja staðhæfingar sem hafa verið dregnar til baka. Fólk hefur náð sátt um ákveðinn punkt en meirihlutinn sér það aldrei.

Þannig að mér finnst Twitter að mörgu leyti verri vettvangur en Facebook sem er alveg ótrúlegur árangur af því að ég hata Facebook svo innilega.

Kaldbruggað kaffi

Ég hef aldrei verið hrifinn af kaffi. Það er ekki skrýtið þar sem ég er almennt ekki hrifinn af heitum drykkjum. Ekki einu sinni kakói. En ég mér finnst kaffibragð gott. Nammi, krem og ís með kaffibragði er allt gott. Mér finnst lyktin líka góð. Ég man sumarið sem ég vann hjá Gatnagerðinni á Akureyri og fannst yndislegt að sitja úti þegar Kaffibrennslan var á á fullu.

Ég hef einstaka sinnum prufað kalda kaffidrykki, m.a. kaldbruggað. Það hefur stundum verið gott. En ekki allt.

Um daginn las ég bók eftir Cory Doctorow. Í henni lýsir aðalpersónan því hvernig hann bruggar kalt kaffi og útskýrir hver er munurinn á að brugga með köldu vatni. Kaffið verður ljúfara, sætara. Beisku bragðefnin losna ekki. Þetta er víst japanskt að uppruna.

Þó við Eygló drekkum ekki kaffi þá eigum við bæði pressukönnu og Dolce Gusta vél. Ég ákvað að finna mér kaldbruggunarhylki í vélina og prufa. Fullt af ísmolum. Örlítið beiskt samt þannig að ég setti sykur í. Vandinn er samt að sykurinn leysist ekki upp í köldu.

Eftir nokkra daga af þessu ákvað ég að ég gæti ekki haldið áfram að nota hylki. Ef þetta væri eitthvað sem ég fengi mér einstaka sinnum þá væri það í lagi. En ekki á hverjum degi eða oft á dag.

Ég las mér til um bruggið og leyst best á að brugga með pressukönnunni. Verst var að uppskriftirnar voru meira og minna bandarískar. Sumsé, ekki metrakerfi. Það hefði verið í lagi almennt var verið að blanda saman einingum þannig að maður þurfti að umreikna únsur og bolla í stað þess að fá einföld hlutföll.

Allar uppskriftarnir hvetja til þess að nota grófmalað kaffi. Ég nota bara French Roast sem ætlað er fyrir pressukönnur.

Ég endaði á þessu af því að það passaði ágætlega í könnuna.

  • 1 dl kaffi (reyndar oft rúmlega full skeið)
  • 7 dl vatn

Kaffið fer fyrst í könnuna. Þegar vatnið er komið hræri ég rólega þar til kaffið er að mestu orðið blautt. Ég smelli þessu síðan inn í skáp og leyfi því að standa í um 12 klukkutíma.

Að þessum tíma loknum þrýsti ég síunni varlega niður. Næst helli í kaffinu í annað ílát, losa korginn úr pressukönnunni og skola hana. Ég sting þessu síðan inn í ísskáp þar sem þetta geymist vel (viku allavega).

Þegar ég fæ mér kaffi nota ég um það bil jafna skammta af “þykkninu” og vatni en fylli líka af ísmolum.

Þetta gerir fínt kaffi en það vantaði smá sykur til að gera þetta fullkomlega ljúft. En það er ekki gott að láta sykurinn beint út í eins og ég nefndi að ofan. Auðvitað er lausn á því. Ég sýð smá vatn og nota til að leysa upp púðursykur. Ég er ekki alveg búinn að ákvarða hlutföllin af sykri enda er það líka smekksatriði. Ég set síðan sýrópið út í kaffiþykknið.

Þannig varð ég kaffidrykkjumaður.

Gagnlegir þrívíddarprentaðir hlutir

Ég hef átt þrívíddarprentara í eitt og hálft ár eða svo. Mér finnst einna skemmtilegast að prenta einfalda gagnlega hluti. Þetta eru nokkur dæmi um það. Sumt kemur af Thingiverse, sumu hef ég breytt til að það passi og síðan er sumt ég hef teiknað upp frá grunni.

Pennahaldari á teikniborðið mitt
Pennahaldari á teikniborðið mitt (upphaflega stykkið rifnaði af). Beint af Thingiverse.
Hnappar á vekjaraklukku
Hnapparnir á þessari gömlu vekjaraklukku voru brotnir þannig að ég mældi og teiknaði upp nýja hnappa (svarti hringurinn). Hræódýr klukka auðvitað en mér leiðist að henda hlutum.
Sturtusápuhaldari
Þessi sápuskammtari er of þungur fyrir aðrar hillur í sturtunni þannig að ég hannaði og prentaði haldara sem smellur á rörið.
Snjallsímahaldari á þrífót
Gunnsteinn hefur gaman af því að taka upp myndbönd og þarf stundum að gera það núna í staðinn fyrir að mæta á flautuæfingar. Ég þarf reyndar að finna góðan bolta sem er auðveldara að herða og losa.
Wii-U festing aftan á sjónvarpið
Til þess að spara pláss tók ég Wii-U festingar sem voru til á Thingiverse og breytti þeim þannig að þær myndu smella á sjónvarpsfestinguna.
Sama festing frá öðru sjónarhorni.
Sama festing frá öðru sjónarhorni.
Uppþvottavélamerking
Það er gott að geta séð og merkt hvort það sé hreint eða óhreint eða í uppþvottavélinni. Þetta er byggt á enskri hönnun á Thingiverse. Ég er reyndar ekki ánægður með þetta prent. Ég notaði “strauja” fídusinn og það var bara ekki að virka. Ég skipti um lit í miðju prenti til að hafa textann skýran.
Núna hreint!
Núna hreint!
Kassi utan um skjá og stýringu á þrívíddaraprentaranum.
Þrívíddarprentarinn kemur svolítið hrár og meðal þess sem ég gerði var að prenta þetta stykki af Thingiverse sem hýsir líka Raspberry Pi 4 tölvu sem stýrir prentaranum.
Skúffur á prentarann
Það er nauðsynlegt að geyma ýmislegt smádót og verkfæri fyrir þrívíddarprentarann. Þessi skúffa kemur beint af Thingiverse.
Kefli fyrir plastrúllur
Til að spara plast þá kaupi ég áfyllingar án rúllu. Þetta kefli passar nákvæmlega þannig að ég get fært nýjar rúllur beint á.
Snúrudóterí
Ég fann þetta á Thingiverse fyrir upptökuborðið í Kistunni.
Hirsla fyrir breytistykki
Ég vildi fela þetta breytistykki undir upptökuborðinu þannig að ég teiknaði upp þetta litla “hólf”. Stykkið fellur þarna inn og snúran kemur út um gat á endann og það haggast ekkert.
Fjöltengjahengi
Mjög einfalt Thingiverse stykki til að festa fjöltengi. Ég hef prentað þónokkur svona.
Valslöngva
Það er líklega ekkert gagn að þessari valslöngvu en hún er skemmtileg.

Raspberry Pi 4 sem vinnutölva

Frá því að ég heyrði fyrst af Raspberry Pi örtölvunum hef ég verið heillaður af þeim. Ég setti upp leikjatölvuhermi, sjónvarpstölvur og allskonar. Allt hræódýrt.

Þegar ég var að setja upp vinnuaðstöðu hérna í Kistunni hugsaði ég með sjálfum mér að ég myndi ekki nenna að ferja fartölvuna endalaust á milli. Stundum er ég bara að vinna í handritum eða einhverju öðru sem þarf eiginlega engan kraft til að keyra. Þannig að ég ákvað að kaupa eitt stykki Raspberry Pi 4 með 4gb vinnsluminni fyrir slíkt. Það virkaði bara vel.

Ég orðaði það einhvern tímann þannig að Pæið hafi verið álíka öflug og vinnutölvan sem ég hafði á skólabókasafninu í Húsaskóla. Sú þurfti auðvitað að keyra Windows sem er þungt stýrikerfi á meðan Raspbian/Raspberry Pi OS er alveg rosalega létt. En síðan er það bara þannig að vinnutölvan mín var ekki öflug.

En fyrir ekki svo löngu síðan kom út ný útgáfa af Pi 4, nú með 8gb vinnsluminni. Ég ákvað að kaupa hana ekki strax. En auðvitað náði ég að réttlæta fyrir mér að kaupa nýju útgáfuna (sú gamla er komin í þrívíddarprentarann).

Ég ákvað að gera smá tilraunir með nýju tölvuna og í stað þess að setja upp staðlaða stýrikerfið þá ákvað að ég að prufa önnur stýrikerfi.

Ubuntu Mate

Ég valdi Ubuntu Mate af því að það er líkt Linux Mint sem ég nota daglega. Það virkaði ákaflega vel. En síðan ákvað ég að tengja annan skjá við pæið. Þá hætti tölvan allt í einu að spila myndbönd. Það virkaði fínt þegar ég var bara með einn skjá. Ef ég hefði bara viljað hafa einn skjá þá var Ubuntu Mate best.

Manjaro

Ég hef aldrei verið heillaður af Manjaro. Það er samt mjög vinsælt stýrikerfi. En ég ákvað að prufa það. En þá virkaði ekki hljóðúrtakið. Þannig að ég get spilað myndbönd en ég er ekki mikið í þöglu myndunum. Síðan var ég bara ekki að fíla kerfið sjálft. Bara einfaldir hlutir eins og að fletta í valmyndinni virka ekki eins og ég myndi vilja.

Raspberry Pi Os

Ég hef notað Raspberry Pi Os reglulega. Það virkar mjög fínt. Vandinn er að það er hannað fyrir allar útgáfur Pæ. Þannig að það er ekki að nýta vinnsluminnið í nýju tölvunum til að flýta fyrir manni, til dæmis í valmyndinni. Á meðan Linux Mint umhverfið, Cinnamon og jafnvel líka Mate, virkar vel fyrir fólk sem elskaði Windows XP notendaumhverfið þá er Raspberry Pi Os svolítið eins og Windows 95. Ég þarf að athuga hvort ég geti ekki bara fengið annað gluggaumhverfi.

En það virkar auðvitað að spila myndbönd og hljóð kemur auðveldlega. Það sem vantar kannski helst í hin stýrikerfin er raspi-config tólið sem getur reddað öllu sem maður vill stilla í Pæ. Í hinum kerfunum er þetta innlimað í almennu stillingarnar og er ekki að virka nógu vel.

Niðurstaðan er síðan auðvitað að Raspberry Pi er orðin nógu öflug tölva fyrir þá sem er mest í léttri vinnslu. Það er reyndar hægt að gera tölvuvert meira en ég hugsa svolítið um allt þetta fólk sem er á rándýrum tölvum til að hanga á Facebook og vinna í ritvinnslu. Það er þá ágætt að kaupa bara tölvu sem kostar bara 75 dollara.

Fátæk börn verðskulda ekki neitt

Ég fann mjög persónulega fyrir valdatöku frjálshyggjunnar á Íslandi þegar ég var 12-14 ára. Ég þurfti að fara í tannréttingar. En ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins var að ráðast á kerfið. Þegar ég mætti í fyrsta tímann var ekki ljóst hvernig greiðsluþátttaka foreldra yrði. Tannréttingarfræðingurinn var ábyrgur og sagði að hann vildi ekki byrja meðferð meðan ekki væri á hreinu hve mikið það kostaði.

Síðan varð ljóst hvernig þetta yrði. Kostnaði var velt yfir á fjölskyldurnar.

Þetta var ekki góður tími í atvinnumálum sem hafði mikil áhrif á mitt heimili. Ég fann mjög sterkt fyrir þessum þrýstingi á þessum árum. Það voru ekki til miklir peningar. Ég vissi líka að tannréttingar kostuðu mikið. Þannig að í hvert skipti sem ég mætti í tíma þá fann ég fyrir blöndu af skömm og samviskubiti.

Ég talaði auðvitað ekki um þetta við neinn. Það var ekki vel séð að vera fátækur. Þegar ég mætti í skólann í skóm sem voru keyptir í Rúmfatalagernum fékk ég að heyra það. Öll föt sem ég átti voru gagnrýnd á svipaðan hátt. “Er þetta úr Hagkaup?” var lína sem ég heyrði mjög oft.

Samspil tilfinninga hjá mér á þessum aldri var flókið. Mig langaði í hitt og þetta en skammaðist mín þegar ég fékk eitthvað. Fannst það peningasóun. Sérstaklega ef það var eitthvað dýrt. Þegar ég eignaðist Nike skó var ég ánægður, ekki út af merkinu heldur af því að skórnir entust. En það var líka skömm. Þetta var sóun. Ég var auðvitað líka hræddur um að einhver myndi taka að sér að skemma þá. Mér leið eiginlega betur þegar ég fékk falsaðar Levi’s gallabuxur þó það væri hæðst að mér.

Lukkulega var ég ekki mjög lengi með spangir. Þá var ég bara með góm og víra á bak við framtennur. Ég endaði fór sjaldnar og sjaldnar í tíma til að athuga hvernig gekk. Annar vírinn losnaði og ég endaði með að fjarlægja hann alveg sjálfur. Að lokum brotnaði gómurinn ég fékk ekki af mér að mæta til að láta laga hann eða fá nýjan. Tennurnar hafa sem betur fer haldist að mestu á réttum stað.

Það sem er ótrúlegast er líklega að skömmin er ennþá til staðar. Ég reyni að gagnrýna frjálshyggju með almennum rökum en staðreyndin er sú að ég hef fundið sjálfur fyrir afleiðingum þessarar mannfyrirlitningarstefnu sem refsar ekki bara fátækum heldur börnum þeirra líka. Það að láta okkur finna fyrir að peningaskortur þýði að við verðskuldum ekki neitt.

Það að ég sé langt til vinstri á pólitíska skalanum er auðvitað nátengt því að ég upplifði að heimili mitt var selt á nauðungaruppboði. Ég vil ekki að önnur börn upplifi það sama og ég. Þessi skömm eitrar mann fyrir lífstíð. Það verður aldrei auðvelt að fátækari stéttum en við ættum að stefna að kerfi sem er mannúðlegt.

Ég get ekki fyrirgefið stjórnmálamönnum sem leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda. Ekki þá og ekki núna. Efnahagsstefna flokksins er gjaldþrota. Keisarinn er berrassaður. Það ætti öllum að vera ljóst að flokkurinn hefur ekkert fram að færa annað en græðgi og þjónkun við hina ríku.

(Trans)fólk og fegurð

Það var manneskja sem ég sá oft þegar ég var táningur. Mig minnir að hún (manneskjan) hafi verið á miðjum aldri. Hún leyfði sér uppreisn gegn viðteknum venjum varðandi útlit og klæðaburð. Ekki áberandi. Ekki mikið. Ég vissi ekkert hvað þetta þýddi og ég ætla ekki að giska núna þó ég hafi vissulega greinilegri hugmyndir um hvað var á seyði. En ég get ímyndað mér að litlar uppreisnir hafi kostað mikið hugrekki, sérstaklega á þessum tíma á Akureyri.

Þegar ég var aðeins eldri var önnur manneskja sem kom alveg út úr skápnum með að vera trans á Akureyri. Hún var ótrúlega hugrökk. En maður heyrði fólk í kringum sig tala um hana á mjög niðrandi hátt. “Hvað á maður að kalla hann eða hana eða þetta?” Ég held að samkennd mín með samkyhneigðum hafi yfirfærst á transfólk þannig að ég tók aldrei undir svona tal. En ég sagði aldrei neitt. Ég var kannski réttum megin í skoðunum en ég var ekki hugrakkur.

Ég velti oft fyrir mér öllum þessum hann/hún/þetta bröndurum þegar ég heyri fólk kvarta yfir þeim persónufornöfnum sem transfólk kýs sér. Ætli þessir kvartarar hafi ekki sagt svipaða brandara á sínum tíma?

Þegar ég fór hlusta/horfa á hlaðvarpið Harmontown “kynntist” ég manneskju sem kom hægt og rólega út úr skápnum sem trans. Sérfræðingur í gleri (sbr. glösum og slíku) sem heitir Jane. Á nokkrum árum kom hún reglulega í heimsókn útskýrði fyrir fólki hvernig hún sæi sjálfa sig. Mjög áhugavert. Áhrif hennar á áheyrendur komu síðan í ljós þegar einhver uppistandaragaur sem gestur og fór að segja frekar milda transfóbíska brandara. Áhorfendur voru bara alls ekki í stuði að heyra svona kjaftæði.

Ég er allavega kominn yfir það að hunsa transfóbíska brandara. Ég hef slökkt á nokkrum uppistöndum sem ég hef verið að horfa á af því að ég nennti ekki að hlusta á svona rugl. Ég tek fram að ég er ekki að segja að þessir uppistandarar séu vondar manneskjur. Það er eiginlega frekar að mér finnist þeir vandræðalega hallærislegir. Íhald dulbúið sem uppreisn gegn valdi er bara kjánalegt. Það má hiklaust gera grín að Caitlyn Jenner en transfóbísku brandarar Ricky Gervais eru ekki bara árás á hana heldur á transfólk almennt.

Jane náði að kenna mér, og líklega mörgum öðrum, að hugsa um kyn og transfólk. Til dæmis að pakka þeirri hugmynd að allir sem eru trans þurfi að ganga í gegnum allar skurðaðgerðir sem eru í boði.

Kannski er það Jane að þakka að ég endaði einhvern veginn með fullt af fólk úr transsamfélaginu á Twitter. Það var ekkert með vilja gert. Ég bara fattaði allt í einu að það var fullt af transfólki þarna.

Ég sé reglulega pósta frá transfólki sem er óöruggt með útlit sitt. Þá langar mig að vera týpan sem getur einlæglega tjáð því að það sé fallegt. En málið er að ég er eiginlega aldrei að tjá mig um útlit fólks. Mér finnst það ekki mitt hlutverk. Mér finnst að álit mitt ætti yfirhöfuð ekki skipta neinn máli. Nema kannski mína nánustu.

En þeir sem vilja að aðrar manneskjur upplifi sig ljótar eru týpurnar sem tjá sig mest. Vilja að orðin þeirra særi og minnki sjálfstraust.

Þannig að í staðinn fyrir að kommenta við myndirnar ykkar þá skrifaði ég þessa bloggfærslu, aðallega til að segja: Ég sé fegurð ykkar.

Samsæriskenningarugl og rangfærslur í Mogganum

Það virðast einhverjir enn kaupa Moggann. Ég veit ekki hvers vegna. Núna gengur um Twitter grein sem var birt þar, væntanlega í dag. Greinin er eftir Önnu Karen Jónsdóttur (BS hagfræði) og fjallar um Black Lives Matter hreyfinguna. Þessi grein fór ekki á flakk af því að hún er vel skrifuð og ígrunduð. Það er næstum erfitt að gera upp á milli hvort er verra, málfarið eða efnið.

Samkvæmt Önnu Karen þá er málflutningur BLM byggður á misskilningi eða rangfærslum. Hún segir:

Árið 2019 voru 10 svartir óvopnaðir skotnir til dauða samkvæmt gagnagrunni Washington Post.

Það er margt athugavert við þessa fullyrðingu. Í fyrsta lagi er hún röng. Það voru 14 óvopnaðar svartar manneskjur skotnar til bana af lögreglu árið 2019 skv. umræddu gagnasafni. Í öðru lagi þá er skilgreiningin á að vera “vopnaður” mjög óljós. Lögreglan skaut allavega fjóra sem voru “vopnaðir” með leikföngum. Í þriðja lagi er hérna einungis verið að tala um þá sem eru skotnir. Þið munið að t.d. George Floyd var kraminn til bana. Í fjórða lagi er hérna gert ráð fyrir að það sé alltaf réttlætanlegt að drepa fólk ef það er “vopnað”. Hérna erum við að tala um land þar sem stjórnarskráin ver réttindi fólks til að bera vopn.

Tölfræðin er mjög einföld. Svart fólk er mun líklegra til að vera drepið af lögreglu en aðrir hópar og þá sérstaklega þegar það er óvopnað.

Til samanburðar voru 48 lögreglumenn myrtir. Hver sá sem lýsir yfir stuðningi við lögregluna á þessum morðum á hins vegar á hættu að vera rekinn úr vinnu eða skóla.

Ég myndi vilja gagnrýna þetta en ég skil ekki einu sinni hvert Anna Karen er að fara hérna. “Hver sá sem lýsir yfir stuðningi við lögregluna á þessum morðum” er bara óskiljanleg rugl. Satt best að segja væri rökréttast að skilja þetta þannig að hún sé að tala um þá sem styðja að lögreglufólk sé myrt en ég held að hún meini það örugglega ekki. Ég veit ekki hvort hún er að tala stuðning við lögreglu þegar lögreglumenn eru drepnir eða stuðning við morð lögreglu á óvopnuðu svörtu fólki. Ef hún meinar það fyrrnefnda þá er það án efa rugl. Allavega væri ég til í að fá lista yfir fólk sem hefur verið rekið fyrir að sýna samúð þegar lögreglumenn eru drepnir.

Notkun Önnu Karenar á hagtölum bendir til þess að það sé einhver brotalöm í hagfræðimenntun hennar, eins og sést hér:

Þrátt fyrir að vera bara 13,4% þjóðinnar þá eru svartir í langflestum tilfellum yfirgnæfandi meirihluti afbrotamanna. Sem dæmi voru samkvæmt ársskýrslu New York Police Department árið 2019 afbrotahlutföllin þessi:

Hérna tekur Anna Karen fjölda svarts fólks í Bandaríkjunum og yfirfærir á New York borg til að sýna glæphneigð þeirra. En vandamálið er að í New York þá er hlutfall svartra mun hærra en víða annars staðar. Þannig að tölurnar hennar eru mjög villandi. En auðvitað er það aukaatriði því staðreyndin er sú að það er ekki svart fólk sem er líklegra til að vera handtekið fyrir glæpi heldur fátækt fólk.

Þar sem efnahagskerfi Bandaríkjanna hefur verið hannað til þess að gera svart fólk fátækt (leitið að t.d. “red lining” á netinu) þá er það líklegra til þess að fremja glæpi. Af því að það er fátækt. Af því að því skortir tækifæri.

En Anna Karen telur að rasismi geti ekki verið vandamálið:

Ástæður fátæktar geta verið margar og flóknar. Rasismi er hins vegar langsótt skýring árið 2020. Ef hvíti maðurinn stjórnar efnahagnum milli kynþátta og heldur þannig efnahagsstöðu svartra niðri, ætti þá sá hvíti ekki að hafa sett sig í fyrsta launaflokk á undan Asíubúanum? Slíkt er ekki raunin en Asíubúar eru í flestum mælingum með betri afkomu en hvítir.

Hér kemur til algjör vanþekking hennar á innflytjendastefnu Bandaríkjanna. Það voru lengi miklar takmarkanir á fjölda innflytjenda frá Asíu (sérstaklega reyndar Kína sbr. The Chinese Exclusion Act). Þegar var farið að hleypa inn fleirum frá þessum heimshluta þá var lögð áhersla á að hleypa inn menntuðum einstaklingum. Vel menntað fólk er líklegra til að fá hærri laun og að eignast börn sem menntar sig vel. Þannig að góð efnahagsleg staða fólks sem rekur uppruna síns til Asíu er komin til vegna (rasískrar) innflytjendastefnu. Það er mjög fróðleg umræða um þetta í hlaðvarpinu “Whiting Wongs”.

Hún Anna Karen reynir líka að flytja inn ákveðna tegund af bandarískri íhaldspólitík:

Það eru margir þættir sem hafa áhrif á fátækt. Það má velta því fyrir sér hvort það sé út af menningu eða vegna þess að 70% af lituðum börnum í dag fæðast utan hjónabands.

Við Íslendingar sem erum vön því að börn fæðist utan hjónabands erum frekar hissa á svona málflutningi. Af hverju er hjónabandsstaða eitthvað lykilatriði? Báðir synir mínir er fæddir utan hjónabands. En er ekki líklegra að efnahagslegt umhverfi hafi áhrif á hjónabandsstöðu heldur en öfugt?

Í seinni hluta greinarinnar fer Anna Karen í samsæriskenningastuð. Hún nefnir til Bill Gates og George Soros. Hún bendir líka að Kína hafi lýst yfir stuðningi við Black Lives Matter eins og það sýni hve vafasöm samtökin eru. Það að keppinautar á alþjóðasviðinu noti mannréttindamál til að koma höggi á andstæðinga sína er ekki nýtt og það ógildir ekki mannréttindabaráttuna.

Í dramatísku útspili spyr Anna Karen:

Höfum við gleymt Tiannanmen Square 1989?

Ég játa að ég man mjög vel eftir atburðunum árið 1989 en ég man líka að á Íslandi var það kallað Torg hins himneska friðar. Það er fátt hallærislegra en að nota ensk heiti á svæði utan hins enskumælandi heims.

Þá dregur Anna Karen fram vafasamar fullyrðingar um róttæka fortíð konu sem tengist BLM.

Meðhöndlun fjármagnsins sem þessir fjársterku aðilar leggja hreyfingunni til fer í gegnum Susan Rosenberg og situr hún í fjáröflunarnefnd samtakanna BLM.

Susan þessi er dæmdur hryðjuverkamaður og ævilangur aktívisti, sem hefur leitt til dauða þó nokkurra manna.

Ég ætla ekki að reyna að tæta í sundur fyrri setninguna því að þó hún sé bókstaflega röng þá er það aðallega vegna þess að Anna Karen kann ekki að tjá sig í rituðu máli. Það hvort við ættum að kalla Susan Rosenberg hryðjuverkamann er álitamál (sjá Snopes). En það að hún hafi “til dauða þó nokkurra manna” byggir ekki á staðreyndum. Hún var ekki dæmd fyrir neitt slíkt, ekki einu sinni ákærð, en hún hefur vissulega verið sökuð um það. Ferill hennar frá því að hún var leyst úr fangelsi fyrir nær tuttugu árum er hins vegar óneitanlega laus við tengsl við ofbeldi eða ógnanir.

Anna Karen vill helst kalla BLM hryðjuverkasamtök og notar þá stórar yfirlýsingar án sannana.

Hreyfingin snýst ekki um rasisma heldur pólitísk völd. Ef þú brennir fyrirtæki, lemur, drepur eða nauðgar öðru fólki og gjörsamlega rústar heilu borgunum, ertu þá ekki hryðjaverkamaður?

Nær ekkert af þessu lýsir BLM en þetta er ágæt lýsing á því hvernig komið hefur verið fram við svart fólk í Bandaríkjunum í gegnum tíðina.

Ég verð að lokum að benda á þessa setningu sem er svo undarleg að ég hálfdáist að henni:

Fólkið sem gagnrýnir nasista Hitlers er á sama tíma búið að lýsa yfir stuðningi við samtökin á samfélagsmiðlum.

Bravó.

Þetta á ekki að vera endanleg yfirferð á greininni. Hvorki málfars- eða efnislega. Bara nokkur atriði sem var einfalt að benda á. Hlutir sem Anna Karen hefði væntanlega getað flett upp sjálf.