Óaðlaðandi hatur

Ég tók ekki þátt í nýlegum „leik“ á Facebook þar sem fólk var að tala um hluti sem það þoldi ekki að leiddist. Ég skrifaði snöggt um það færslu sem mér fannst, eftir á, líta út fyrir að ég væri að setja mig á háan hest. Það var ekki ætlunin.

Um það leyti sem ég varð fertugur ákvað ég að hætta að tala um hluti sem fara í taugarnar á mér eða mér leiðist. Lesendur þessa blogg eru án efa hissa og spyrja hvers vegna ég sé þá t.d. að tala um Facebook eða AirBnB. Það sem ég er að segja á aðallega við um menningar- og afþreyingarefni. Sömuleiðis er ég að hugsa um frægt fólk s.s. áhrifavalda og annað sem ég fatta ekki. Hins vegar er það þannig að fyrirtæki, stofnanir og kerfi á, og þarf, að gagnrýna.

Nú væri kannski eðlilegt að skilja mig þannig að ég sé bara að líta stórt á mig, að ég sé betri en aðrir. Það er ekki ætlunin. Ekki beint. Ég áttaði mig bara á að ég fékk kjánahroll þegar ég sá fólk á mínum aldri, og eldra, kommenta við fréttir um eitthvað sem unga fólkinu finnst hipp og kúl. Komment eins og: „Er þetta eitthvað merkilegt? Ég hef aldrei heyrt um x.“

Ég er ekki að segja að ég sé betri en þetta fólk. Þvert á móti er ég þetta fólk. Ég hef aldrei heyrt um „x“! Ég er bara að reyna að fela hve hallærislegur ég er. Það að fatta ekki eitthvað þegar maður er fertugur er ekki merki um að maður sé að standa gegn straumnum. Maður er þvert á móti í hringiðunni með öllum hinum sem fylgjast ekki með.

Ef ég vildi gæti ég notað „afaklausuna“ til að tala um hluti sem mér hefur lengi þótt asnalegir. Og ég geri það stundum. En ég reyni að forðast það. Það er minna tengt því að vera fertugur og meira um að átta mig á sannleikanum í línu sem Steve Martin segir í í L.A. Story:

Ég held að þú áttir þig ekki á því hve óaðlandi hatur er.

(I don’t think you understand how unattractive hate is.)

Þannig að ég er ekki að reyna að setja mig á háan hest. Ég er bara að reyna að vera minna hallærislegur og óaðlaðandi. Ókei, kannski er ég líka að vonast til þess að verða betri manneskja með tímanum.

Það má alltaf vona.

Verðskuldandi fólk (um borgaralaun og fleira)

Ég hef mjög blendnar skoðanir á borgaralaunum. Mér vissulega þægilegt að fá svoleiðis. Þá gæti ég einblínt á að koma í verk öllu því sem mig langar að gera en er ekki gróðavænlegt. Ég gæti farið á fullt t.d. í Rafbókavefnum. Ég gæti klárað heimildamyndina mína. Allskonar sniðugt. Ég gæti líka tekið mér tíma til að byggja upp spilaútgáfuna mína og haft grunn til að græða alvöru peninga.

Mér finnst það líka góð hugmynd að losa fólk undan þeim kvöðum sem felst í því að skrá sig atvinnulaust eða berjast við að fá örorku viðurkennda – hvað þá að fá einhvern styrk í gegnum t.d. sveitarfélögin. Þú værir með einhvern ákveðinn punkt sem tryggir grunnframfærslu.

En við vitum að það er nógu erfitt að ákvarða hvað t.d. atvinnulausir og öryrkjar eiga að fá til að lifa af. Um leið kemur spurningin hvað fólk „verðskuldar“. Verðskulda allir atvinnuleysisbætur? Svarið sem kerfið gefur er nei. Ef þú hefur t.d. ekki unnið nógu marga mánuði á ákveðnu tímabili þá færðu ekkert eða skertar greiðslur.

Það sama gildir um öryrkja. Kerfið setur fólk í reiknilíkan og segir þeim að það verðskuldi ákveðið hlutfall af hæstu upphæð. En ef einhver er metinn 50% öryrki þá þýðir það ekki þú getir gengið inn í hálft starf sem hentar þér á móti. Hvorki markaðurinn né hið opinbera tryggir slíkt. Ferðu þá á atvinnuleysisbætur á móti? En þegar þær renna út? Færðu þá styrk frá sveitarfélaginu? Fólk rúllar á milli í kerfinu sem reynir að meta hvort það verðskuldi eitthvað.

Sú hugmynd að það sé hægt að meta hvort fólk verðskuldi eitthvað, hvort sem það sé vegna atvinnuleysis, örorku eða bara fátæktar er gölluð. Vissulega getum við alltaf fundið fólk sem allir geta verið sammála um að séu verðskuldandi en við missum um leið í sprungurnar fólk sem vissulega þarf á hjálp að halda.

En hverjir verðskulda ekki hjálp? Þeir sem eiga pening? Þeir sem eiga bakland? Þeir sem þurfa ekki mikið? Glæpamenn? Þeir sem eru ungir? Þeir sem eru gamlir? Á sama hátt og við getum fundið þá sem verðskulda hjálp okkar þá getum við fundið þá sem verðskulda hana ekki.

Grunnvandamálið við hugmyndina um þá sem verðskulda hjálp og þá sem verðskulda ekkert er að við getum aldrei búið til kerfi sem reiknar slíkt út. Þú getur búið til dæmi, og fundið þau, en einstaklingar eru miklu flóknari en að við getum stillt einhverjar breytur og fundið réttu lausnina.

Við getum yfirfært sömu hugmynd á menntun og heilbrigðisþjónusta. Við getum ekki reiknað út hverjir séu „verðskuldandi“. Ættu lugnalæknar að spyrja fólk hvort það hafi reykt áður en þeir ákveða hvort meðferðin verði ókeypis? Mér finnst einfalt að segja nei við þessari spurningu en ég veit að það er til fólk sem myndi segja já.

Það er kannski ágætt að nota reykingar sem dæmi sem upplýsir allt hitt. Ef við viljum úrskurða að reykingafólk verðskuldi ekki meðferð við lungnasjúkdómum þá erum við í mörgum tilfellum að segja að heimskuleg ákvörðun ósjálfráða barns eigi að móta líf þess. Ef vinir þínir byrjuðu að reykja og þú hermdir eftir af því að þú vildir ekki vera útundan þá skaltu borga fyrir þau mistök það sem eftir er ævi þinnar – ekki bara með lélegum lungum heldur beinhörðum peningum.

Við erum auðvitað á hverjum degi að refsa fullt af fólki fyrir heimskulegar ákvarðanir sem það tók á barnsaldri. Ef þú ákveður 16 ára að sleppa framhaldsskóla og fara að vinna þá áttu skilið lægri laun það sem eftir er ævi þinnar. Það skiptir engu máli hvort þetta var ákvörðun eða nauðung. Ef þú hafðir tök á því að halda áfram menntun þinni þá færðu sama dóm og þeir sem vildu bara hafa efni á að hella sig fulla um hverja helgi.

Ég vil taka fram að ég tel líka ósanngjarnt að þeir sem ákváðu að drekka sig fulla um hverja helgi sextán ára þurfi að gjalda þess alla ævi. Við vitum að það geta verið allskyns ástæður á bak við slíkt. Kannski var áfengi eina þunglyndislyfið sem þú hafðir aðgang að. Ég hef líka verið í þeirri stöðu að hjálpa námsfólki sem hafði kannski tekið slæma ákvörðun varðandi menntun sína þegar það var sextán ára. Síðan ákvað menntamálaráðherra að ef þetta fólk væri orðið 25 ára verðskuldaði það ekki annað tækifæri til menntunar. Ég er ennþá reiður yfir því.

Borgaralaun eru sú hugmynd af við verðskuldum öll grunnframfærslu. Ég er hrifinn af þeirri hugmynd en ég á erfitt með að trúa að slíkt gangi í gegn. Ég held að reynslan sýni líka að þar sem þetta hefur verið reynt hefur hugmyndin verið svo útvötnuð að hún hefur orðið t.d. að verri útgáfu af örorkutryggingum. Margir halda að það sé fyrsta skrefið að almennum borgaralaunum en ég sé það ekki gerast með slíkum hænuskrefum. Ég held að þetta sé frekar tækifæri til að gera ómanneskjulegt kerfi verra.

Kvennastríðið

Ég var á tímabili mikill aðdáandi Cracked. Þegar vefritið var upp á sitt besta birti það ákaflega skemmtilega listafærslur. „Topp tíu…“, „Fimm dæmi um…“ og svo framvegis. Margt stórfyndið. Síðan var Cracked selt og fór í ruglið eftir að Facebook plataði þau, og marga fleiri vefi, í að leggja áherslu á myndbönd. Það endaði með að fólk var sagt upp og allir hlekkir sem Facebook-síðan þeirra dældi út hlekkjum á voru gamlar greinar með örlítið breyttum fyrirsögnum. Þannig gafst maður upp á þeim.

En áður en allt fór til fjandans kom Cracked verulega skemmtilega á óvart með því að birta alvöru fréttamennsku frá Írak um baráttunni við ISIS.

Svo liðu nokkur ár og ég var að hlusta á hlaðvarpið Harmontown, sem var mitt uppáhalds. Þá kom gestur að nafni Robert Evans. Ég þekkti ekki nafnið – nema sem kvikmyndaframleiðandann sem frægur er fyrir allskonar fleira en bara kvikmyndaframleiðslu. Þessi Robert Evans var að tala um ferð sína til Rojava (sjálfstjórnarsvæði, eða ríki, Kúrda í Sýrlandi). Þetta var stuttu eftir að fréttir bárust af því að félagi Haukur hefði fallið í bardaga á svæðinu þannig að ég sperrti upp eyrun. Síðan nefndi Evans að hann hefði unnið hjá Cracked og ég fattaði strax að þetta væri sá sem hafði skrifað þessar frábæru greinar á sínum tíma.

Þar sem hann hafði í spjallinu nefnt að hann væri að gera hlaðvörp sjálfur stökk ég til og fann þau. Ég hlustaði fyrst á hljóðbók/hlaðvarp hans um bandaríska fasista – þar sem „Íslandsvinurinn“ George Lincoln Rockwell var í aðalhlutverki. Þetta birtist sem hluti af hlaðvarpinu Behind The Bastards þar sem Robert fjallar um ýmsa illvirkja sögunnar með oft skemmtilegum vinkli. Með honum eru ýmsir félagar hans, margir fyrrverandi starfsmenn Cracked en nýlega poppaði hann Spencer Crittenden úr Harmontown líka upp. Robert les handrit og gestirnir spyrja hann út úr ef eitthvað er óskýrt. Síðan er upptökustjórinn Sophie skemmtileg í sínu aukahlutverki að ótaldri henni Anderson.

Fyrir utan BtB er Robert með hlaðvarpið Worst Year Ever með Katy Stoll og Cody Johnston (sem eru líka reglulegir gestir fyrrnefnda varpsins). Þegar þau gáfu þáttunum nafnið var það vísun í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en augljóslega kom í ljós að þetta var best heppnaða hlaðvarpsnafn allra tíma.

Ég mæli með öllu þessu sem ég hef nefnt hér að ofan en ég vil sérstaklega nefna The Women’s War sem er nýlega byrjað. Hlaðvarpið byggir á ferð Robert Evans til Rojava. Það er auðvitað gjörólíkt hinum sem byggja að mestu á húmor sem hefði alveg getað birst á Cracked.

Í The Women’s War er Robert að sem vinstri maður, jafnvel anarkisti ef maður vill flokka hann nánar, að reyna að nálgast tilraunina í Rojave á gagnrýnin hátt. Hans efasemdir minna mig verulega á hvernig ég sjálfur hef hugsað um svæðið. Það er að mörgu leyti eins og draumsýn vinstri manna um möguleikann á minnkaðs vægi kapítalista og jafnréttis, sérstaklega kynjajafnréttis en líka milli Araba og Kúrda.

Ég ætla ekki að greina sérstaklega mínar skoðanir á Rojava – geri það kannski þegar þáttaröðin hefur lokið göngu sinni – en ég ætla að mæla sterklega með þeim. Þetta er áhugaverðasta hlaðvarp sem ég veit af í dag.

Átak í teiknimyndasögulestri

Ég tek reglulega köst í teiknimyndasögulestri. Ástæðan í þetta skiptið var að ég var að fjalla um sjónvarpsþætti byggða á teiknimyndasögum í Botninum. Ég fann ekki spjaldtölvuna mína, Nook HD plus, enda nota ég hana almennt ekkert. Í staðinn ákvað ég að nota rafbókalesarann minn, Boyue T80 Likebook Mars ( sem er með stærri skjá en flestir lesarar), sem ég hef annars bara notað í að lesa svarthvítar sögur (Bone, Scud o. fl.).

Þó lesarinn sýni bara svart hvíta skalann þá var merkilega þægilegt að lesa teiknimyndasögur í lit með honum. Það var svo fínt að þegar ég fann spjaldtölvuna og prufaði þá gafst ég bara upp. Ástæðan er auðvitað að lesarinn er ætlaður til lestur. Þó ég hafi haft kveikt á baklýsingunni þá er ljósið svo miklu betra fyrir augun en spjaldtölvubirtan.

Á maður að tala um tæknina eða listina? Ég er auðvitað gjarn á að blanda þessu tvennu saman.

Locke and Key kom á Netflix fyrr á árinu þannig að ég tók það á lesaranum. Þetta fellur undir hrollvekjuflokkinn. Margt mjög gott þar.

Ég las smá í The Boys og V-Wars fyrir þætti af Botninum og var ekki að falla fyrir því.

Ég hef ekki enn gert þátt um Daybreak sem var á Netflix í fyrra þó ég hafi verið hrifinn (það voru kannski ekki nógu margir hrifnir því þættirnir halda ekki áfram). Sagan var allt öðruvísi. Mjög einfaldur stíll en mjög áhugaverð nálgun.

Deadly Class voru þættir sem ég féll líka fyrir ólíkt lýðnum (það kemur ekki meira) og lengst af var teiknimyndasagan alveg jafn góð – ef ekki betri – en þættirnir. Mér fannst þetta samt vera farið að dala í síðustu sögunum sem ég las. En það kemur meira af þeim. Ádeilan á Reagan-tímann var mjög góð.

Ég hef aldrei séð Hellboy myndirnar sem tengdafaðir minn (eða tvífari hans) leikur í en ég var áhugasamur um sögurnar. Þær voru margar mjög góðar. Kannski ekki alveg jafn góðar og sumir segja en samt.

Brat Pack er oft nefnd á sama tíma og Watchmen sem ádeila á teiknimyndahetjusögurnar. Hér eru hliðarspörkin tekin fyrir. Það var margt gott þarna en mér fannst þetta ekki eldast jafn vel og Watchmen. En það er auðvitað vonlaust að ætla að standast þann samanburð.

Umbrella Academy er annar sjónvarpsþáttur. Ég verð að segja að mér fannst þættirnir meira heillandi – allavega sem komið er – en sagan var líka mjög góð. Þegar ég horfði á þættina hafði ég ekki hugmynd um að höfundurinn væri söngvarinn í My Chemical Romance. Skondið.

Það er öfugt með Rick and Morty. Þarna hafa verið gerðar teiknimyndasögur í sama heimi og þættirnir. Þær eru mistækar. Ég var næstum hættur þegar ég áttaði mig á að Patrick Rothfuss hefði skrifað Dungeons and Dragons Rick vs. Morty sögur. Ég hef reyndar ekki lesið frægu bækur hans af því að ég er að bíða eftir þeirri síðustu. Mig langar ekki að bíða ef ég fell fyrir þeim. Allavega var Rothfuss sagan best af þeim sem ég las.

Þó Lucifer komi úr sagnaheimi The Sandman hafði ekki lesið þær áður en ég horfði á þættina. Það áhorf ýtti mér af stað í að lesa sögurnar og auðvitað er þetta allt annað. Þættirnir eru að mestu leyti grín en sögurnar í hrollvekjudeildinni. Ég var hrifinn af sögunum að mörgu leyti en ég féll ekki fyrir öllu. Það er t.d. augljós að þegar fjallað er um norræna goðafræði þá hefur Mike Carey ekki sama dýpt þekkingar og Neil Gaiman.

Ég las auðvitað líka Gaiman. Ég fann meira að segja söfn af sögum hans úr DC-heiminum sem ég hafði ekki lesið áður. Fínt en ekkert í samanburði við Sandman. Ég dembi mér líka út í endurlestur á The Sandman. Yndisleg tilfinning þegar ég byrjaði aftur. Æði. Best.

Ég hafði lesið mér til um góðar svarthvítar teiknimyndasögur – sem hentuðu skjánum mínum – og þá hitti Berlin beint í mark. Hún er ólík flestu sem ég hef verið að lesa að því að leyti að þarna er farið mjög strangt eftir þessum hefðbundu römmum á síðunni. Það er því voðalega þægilegt að keyra í gegnum þetta. Bara fletta og fletta, ekkert að rýna í lítinn texta eða stækka og minnka til að sjá betur. Áhrifamikil saga þó mér hafi þótt hún örlítið endasleppt.

Chilling Adventures of Sabrina, sami grunnur og í nýju Netflix þáttunum. Ég byrjaði á því en var ekki að falla fyrir því.

Ég las líka fallega hluti um Batman Noir: The Black Mirror. Spes fyrir fólk eins og mig sem hefur lítið lesið annað en Dark Knight Returns og Killing Joke af því að þarna er Batman ekki Bruce Wayne heldur fyrrverandi hliðarsparkið hans Dick Grayson. Ég féll ekki neitt rosalega fyrir þessu.

Ég gerði tilraun til að lesa fleiri sögur en ég náði því varla. Það voru sumsé annars vegar nokkrar nýlegar ofurhetjusögur og hins vegar Crisis on Infinite Earths. Þær héldu bara ekki áhuga mínum. Mér finnst eins og ég sé of mikill snobbari þegar ég les aðallega sögurnar sem hafa fengið frábæra dóma en þekki ekkert til stærsta hluta menningarkimans.

Hvað er næst? Ég er rétt að byrja á Giant Days. Það er allt öðruvísi en allt annað í þessari upptalningu. Söguhetjurnar eru þrjár ungar konur sem eru nýbyrjaðar í háskóla. Ég kláraði fyrsta bindið í gærkvöldi og ætla að halda áfram.

Ef þið þekkið ekki til haldið þið kannski að þetta séu örfá blöð en þetta eru nokkrir tugir safnbinda af sögum. Samkvæmt GoodReads hef ég lesið 67 bækur og rúmlega 14 þúsund blaðsíður það sem komið er af árinu. Auðvitað eru þarna einhverjar textamiðaðar bækur en flestar eru teiknimyndsögur – enda les maður þær hraðar.

Ég vil ekki gleyma að nefna að Jútúbarinn Comic Tropes hefur verið góður í að „hvetja“ mig áfram í þessu. Myndböndin hans eru ákaflega skemmtileg með góðum hallærislegum húmor. Ég ákvað að styrkja hann á Patreon. Það hjálpar mikið að hann er greinilega andfasískur sem virðist ekki sjálfgefið á þessum tímum. Mæli með honum.

Hatur mitt á AirBnB

Ég held að við ættum einfaldlega að banna AirBnB. Þetta er, eins og svo margt annað sem hefur komið út úr hinu svokallaða deilihagkerfi, eitraður kapítalismi.

Áhrifin á Íslandi eru ljós. Við vitum að þetta eru að miklu leyti íbúðir sem voru áður á almenna leigumarkaðinum. Það koma engar íbúðir sjálfkrafa í staðinn. Leiguverð hækkar. Fólk lendir í hrakningum. Börn þurfa að skipta um skóla. Jafnvel oft. Fólk þarf jafnvel að flytja út á land, sem er ekkert slæmt í sjálfu sér ef fólk vill flytja. En þegar fólk neyðist til að flytja langar leiðir missir það ekki bara húsnæðið heldur líka félagslega netið í kringum sig.

Auðvitað eru áhrifin líka gríðarleg á hverfin sem verða á barðinu fyrir þessu. Þjónustan sem íbúðahverfi þarf á að halda hlýtur að minnka – enda eftirspurnin minni. Fólkið sem eftir situr þarf að búa við mikið ónæði. Ef við lítum til samgöngumála þá er verið að þrýsta fólki út af því svæði þar sem auðveldast er að lifa bíllausum lífstíl. Í staðinn byggjast upp hverfi lengst í burtu frá þessum atvinnusvæðum.

AirBnB er einfaldlega eitrað fyrirtæki. Þetta er í raun leið til þess að reka gistiþjónustu án þess að bera sömu ábyrgð og til dæmis hótel eða gistihús. Við sjáum líka þessi eitruðu áhrif í þeim rasisma sem þrífst innan þessa kerfis. Fólk sem er ekki hvítt á hörund á miklu erfiðara með að fá gistingu innan AirBnB. Það er þessi persónulega nálgun sem gefur rasismanum útrás. Ég myndi ekki gista hjá hótelkeðju sem væri uppvís að slíkum starfsháttum – af hverju ættu aðrar reglur að gilda um AirBnB.

Talandi um rasisma þá hefur AirBnB leigt út íbúðir á stolnu landi á Vesturbakkanum. Eftir að það var gagnrýnt lofað fyrirtækið að hætta þessu en bökkuðu síðan og voru með óljós loforð um að gefa hagnað sinn til góðgerðarsamtaka. Þeir sem voru að leigja út þessi gistirými geta ennþá grætt á þýfinu með milligöngu AirBnB.

Þá eru líka ótal sögur um glæpi, svindl og annan viðbjóð sem fær að grassera vegna eftirlitsleysisins sem þrífst innan deilihagkerfisins – sem og sögur af öllum gestgjöfunum sem hafa fengið bakstungur frá AirBnB þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Núna er rétti tíminn til aðgerða. Þessar íbúðir eru meira og minna tómar og ólíklegt að það komi straumur ferðamanna á næstunni til að fylla þær. Það væri mikið betra fyrir samfélagið ef þær færu aftur í almenna útleigu. En þá þyrftu leigjendur líka að geta treyst því að ef ferðamannabólan færi aftur að blása út þá væri þeim ekki vísað strax aftur út.

Facebook óvinátta mín

Hatursamband mitt við Facebook virðist stundum var algengasta umræðuefni mitt hér. Mér fannst Facebook sniðugt fyrirbæri á sínum tíma. Það var sumarið 2007. Ég var í sumarskóla í Árósum og á leið í skiptinám í Cork. Facebook virtist frábær leið til að halda sambandi við samnemendur mína. Síðan var ég bara að samþykkja og bæta við fullt af fólki. Ég man að ég var á tímabili sá sem átti hvað flesta Facebook vini.

Ég veit ekki hvað breyttist. Ég eignaðist börn og vildi ekki endilega deila sögum af þeim með fólki sem ég þekkti lítið – eða þekkti ekki lengur. Ég tók tarnir við að henda út fólki af vinalistanum mínum. Þær voru misgáfulegar. Ég sé eftir sumum en hef gleymt öðrum. Í dag bæti ég varla neinum við og samþykki ekki nærri alla sem óska eftir tengslum.

Facebook náði líka að mestu leyti að drepa bloggið. Ókei, ekki eitt sín liðs. Þegar bloggið komst í tísku hoppuðu allskyns aðilar inn. Annars vegar voru þeir sem buðu öllu fólki að setja á einfaldan hátt upp bloggsíður og bjuggu um leið til bloggsamfélög sem voru að mörgu leyti lokuð fyrir utanaðkomandi. Hins vegar tóku ýmsir miðlar sig til og soguðu upp vinsæla bloggara. Þeir fengu loforð um græna skóga – og örfáir fengu gull – en síðan dóu þessir miðlar, sameinuðust eða voru keyptir af vafasömum aðilum. Um leið og þessi „rjómi“ af bloggurum hvarf þá vorum við hin eftir og urðum svolítið útundan. Gleymdumst þegar við höfðum ekki lengur virkt samfélag í kringum okkur.

Við héldum að Facebook gæti komið í staðinn fyrir gáttirnar og veiturnar. Við skráðum okkur og deildum efninu okkar þar. Það gekk vel til að byrja með. Facebook sýndi öllum „vinum“ okkar bloggfærslurnar okkar. Það var hvati til að fjölga vinum. Ef við leyfðum hverjum sem er að tengjast okkur gátum við tryggt okkur dreifingu til þeirra. Það sama gilti t.d. um vefrit.

En Facebook þurfti auðvitað að græða peninga. Það voru „læk“ síðurnar sem fengu fyrstar að finna fyrir þessu. Allt í einu hætti fólk að koma af Facebook í sama mæli og áður. Við veltum þessu fyrir okkur og áttuðum okkur fljótt á skýringunni. Facebook var hætt að sýna öllum „lækurunum“ efnið okkar. Þá fórum við að deila efninu kerfisbundið á persónulegu síðum okkar, til vina. En Facebook sá fljótt við því. Einhver algóryþmi á bak við tjöldin reiknaði út að ákveðnir tenglar, ákveðnir vefir, væru verðmætir í huga okkar og hætti að sýna vinum okkar þessar deilingar nema í mjög takmörkuðu lagi.

Við héldum að við værum að nota Facebook en auðvitað var Facebook bara að nota okkur.

Ónáttúruleg náttúra Guðmundar Franklín

Fyrirsjáanlegasti forsetaframbjóðandinn er kominn fram. Það er Guðmundur Franklín. Hann er lengi búinn að vera auglýsa hálfsamhengislausar færslur sínar á Facebook. Hann hefur líka gert margar mislukkaðar tilraunir til að koma sér á framfæri í stjórnmálum.

Ég hef auðvitað engar áhyggjur af því að Guðmundur Franklín nái kjöri. Getur hann náð nægilega mörgum undirskriftum? Hver veit? Sprellararnir skrifa væntanlega frekar undir hjá falskaflaggsmanninum. Trump hefur þó sýnt að peningar geta fleytt manni langt í stjórnmálum en ekki tókst Bloomberg að kaupa sér fylgi í forkosningunum núna. Það má nefnilega ekki gleymast að Trump var sjónvarpsstjarna. Guðmundur Franklín er það ekki.

Ef ég leyfi mér að fara í hlutverk „álitsgjafa“ eða hvað maður getur kallað svoleiðis þá verða möguleg áhrif Guðmundar helst þau að aðrir sem hafa gælt við forsetadrauminn sjá sér færi á að koma í kjölfarið. Það er nefnilega auðveldara að kúka stökkva í laugina þegar einhver er á undan manni.

Spurningin er þá hvort einhver getur raunverulega haggað Guðna. Ég held ekki. Ekki núna. Ef Guðmundur nær undirskriftunum og verður einn í framboði gegn Guðna þá nær hann í mesta falli óánægjuatkvæðunum og þau eru ekki nægilega mörg.

Í mér blunda tvær skoðanir. Annars vegar tel ég lýðræðið ákaflega mikilvægt. Hins vegar langar mig bara ekkert að fara í forsetakosningavesen í þessum aðstæðum bara til þess að Guðmundur Franklín geti barist við vindmyllurnar sínar. Hann segir m.a. „að ESB verði aldrei samþykkt án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Ég veit ekki til þess að nokkur vilji að við göngum í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Allt þetta er þá fyrst og fremst afsökun fyrir því að tala um myndina sem Guðmundur Franklín hefur sett á hausinn á Facebook-síðunni sinni. Hún er mikið afrek. Tæknilega séð er hún auðvitað illa unnin. Ég hélt að Guðmundur ætti næga peninga til að fá einhverja í myndvinnslu fyrir sig. Kannski er hann bara nískur. Allavega er þetta í ætt við það sem Ástþór gerði á sínum tíma en myndvinnslu hefur fleygt fram í millitíðinni.

Grunnmyndin er í raun flott. Fallegt fall, fallegir litir. En þegar ég sá hana hlaðast inn líktist hún helvíti. Fyrsta vandamálið er að litir bakgrunnsins passa alls ekki við myndina af Guðmundi. Hann passar ekki þarna. Þetta verður ýktara þegar myndin er skoðuð betur. Hún er illa klippt. Útlína Guðmundar er alveg rosalega pixluð. Það er bókstaflega eins og að gamli bakgrunnur myndarinnar sé þarna ennþá. Það er ótrúlega létt að gera þetta betur, meira að segja ég get það. En Guðmundur er líka bara kjánalegur á myndinni. Þetta á væntanlega að tákna að hann sé að horfa til framtíðar. Það er ekki það sem ég sé. Ég sé mann sem er utangátta. Hann veit ekkert hvað er að gerast. Kannski er hann að horfa á vörubílinn nálgast en hann áttar sig ekkert á því að hann ætti að fara af veginum. Hann er í raun voðalega Ástþórslegur.

Ef ég væri betur að mér í letri þá myndi ég væntanlega geta komið með einhverja útskýringu á því af hverju mér líkar ekki við hvernig textanum hefur verið komið þarna fyrir. Staðsetningin er auðvitað ekki frábær en það er ýmislegt meira að.

Blogg- og vefritaveita

Ég hef ekki leynt þeirri skoðun minni að Facebook sé ömurlegt fyrirbæri sem eyðileggur allt. Ég sakna gömlu tímanna þegar það voru blogg og vefrit út um allt. Ein ástæðan fyrir því að það gekk allt saman var að við höfðum veitur sem söfnuðu og deildu hlekkjum á öll þessi skrif.

Ég man fyrst eftir rss.molar.is sem var veita sem Bjarni R. Einarsson hélt utan um. Síðan var Mikki Vefur. Að lokum var Blogggáttin. Þegar síðastnefnda veitan hætti störfum var ekkert eftir.

Ég var að vona að eitthvað annað myndi spretta upp en það gerðist ekki. Ég ákvað því að keyra af stað sjálfur BloggKistuna. Þetta er örlítið öðruvísi en forverarnir. Ekki svona yfirlit í töflu heldur er útlitið meira eins og fréttasíða eða vefrit (útlitið mun þó líklega breytast eitthvað þegar á líður). Yfirlitið vísar síðan beint á upprunalegu færslurnar – hvar sem þær eru.

Ég ætla að vona að þetta hvetji fólk til að halda virkni í bloggum og vefritum. Ég vona líka að fólkið sem er hrifið af hugmyndinni verði duglegt að benda á þessa veitu.

Ef þið viljið benda mér á vefrit eða blogg sem ætti heima þarna þá má endilega setja komment hér eða senda línu á blogg@kistan.is.

Hvaða áhrif hefur faraldurinn á mig?

Þetta eru undarlegir tímar. Ég dró mig aðeins fyrr í hlé en aðrir af því að ég hafði áhyggjur af því að astminn minn gerði mig viðkvæmari fyrir veirunni. Lukkulega virðast þær áhyggjur ekki á rökum reistar (þó erfitt sé að vita nokkuð fyrir víst) en ég var byrjaður að fresta því að hitta fólk áður en staðfest smit komu fram á Íslandi.

Það er orðið töluvert langt síðan ég tók upp þátt af hlaðvarpinu mínu Botninn. Önnur plön í Kistunni eru líka í biðstöðu. Það er enginn spenntur að borga fyrir aðgang að upptökuveri í þessu ástandi.

Ég hef hins vegar afrekað að taka upp tvo þætti af Stories of Iceland hlaðvarpinu mínu. Það er alltaf mikið niðurhal á þeim þáttum og það er alveg smá peningur að koma inn í gegnum Patreon.

Ég var líka rétt byrjaður að stofna einkahlutafélag um reksturinn minn – Gneistinn – menningarmiðlun ehf. – og þó kennitalan sé komin þá er ég ekki einu sinni búinn að stofna bankareikning. Ekki bara til að forðast fólk heldur vantaði mig tóner í prentarann og það var merkilega erfitt að redda því.

Ég er að vinna í 2-3 spilahugmyndum sem ég ætti að geta klárað fyrir sumarið þannig að þau komi út fyrir jól en ég er svolítið frosinn eins og er. Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að maður veit ekki hvort það sé góð hugmynd að keyra hugmyndir áfram.

Ég hélt að ég gæti fljótlega farið að borga sjálfum mér reglubundinn laun – frekar en reiknað endurgjald – en maður veit ekkert hvaða áhrif ástandið hefur. Það lítur út fyrir að þetta hafi ekki verið góður tími til að hætta í öruggu starfi og byrja að byggja upp rekstur.

Mér fannst vanta uppbyggilega afþreyingu fyrir fólk á þessum tímum þannig að ég gerði alvöru úr því að endurvekja prófarkalestur Rafbókavefsins. Eftir á fór ég að pæla að á sama tíma voru ótal fyrirtæki að setja upp vefverslanir. Það er verkefni sem reynir á sömu kunnáttu og að setja upp vefþjón fyrir Rafbókavefinn fyrir utan að vefverslanir eru kerfi sem sett eru upp á hverjum degi um allan heim þannig að það eru til miklar og góðar leiðbeiningar fyrir svoleiðis á meðan ég var líklega sá fyrsti sem setti upp þessa útgáfu af DP-kerfinu. Ég er ekki endilega góður að græða peninga á hugmyndum mínum og hæfileikum.

Fyrir svona viku ákvað ég að klippa mig og snyrta skeggið. Eitthvað var einbeitingin léleg þannig að ég náði að raka of mikið af. Það endaði með skeggi sem var styttra en það hefur verið í ótalmörg ár. Lukkulega þarf enginn að sjá þetta nema fjölskyldan. Strákunum fannst þetta ekki gott lúkk. Þar sem ég hafði verið að grínast í Gunnsteini, sem missti tönn, með því að syngja „Hann er tannlaus greyið“ fór Gunnsteinn að syngja fyrir mig „Hann er skegglaus greyið“. Ég bætti við eitthvað á þessa leið „skeggið hann missti rakstursslysi í“.

Stóra spurningin sem við höfum spurt okkur á heimilinu er hvort við höfum kannski fengið vírusinn. Allavega gekk yfir alda hóstandi fjölskyldumeðlima. Var það vírusinn? Enginn fékk nema nokkrar kommur í hita en aftur á móti hafa margir sem Eygló umgekkst í vinnunni fengið staðfestar greiningar. Ef það verður mögulegt að prófa hvort maður hafi myndað mótefni gegn vírusnum þá langar mig í það próf.

Þar sem við vorum hóstandi héldum við strákunum meira og minna heima fyrir páskafrí. Hvað við gerum eftir páska kemur í ljós. Páskaplönin mín eru annars öll horfin. Eygló ætlaði að fara með strákana austur á meðan ég væri heima að klára ýmislegt í framkvæmdum hérna heima við. Þar sem margir þeirra sem Eygló og strákarnir ætluðu að hitta fyrir austan eru mögulega viðkvæmir fyrir vírusnum þá var auðvitað hætt við þá ferð. Mér finnst líka ekkert frábær hugmynd að vera í háværum framkvæmdum meðan nágrannarnir eru allir heima.

Í staðinn hef ég verið að baka ýmislegt. Hef núna plön um að steikja kleinur við tækifæri. Heimatilbúin páskaegg eru líka á dagskránni á fimmtudag/föstudag. Ég hef gert svoleiðis nokkrum sinnum áður. Ekkert flókið, bara bræða súkkulaði í form. Líklega verður síðan settur einhver þrívíddarprentaður karakter á toppinn.

Ég hef verið að leika mér í tölvuleik sem heitir Epiphany. Sá er eftirherma af langsamlega uppáhaldstölvuleik mínum: Boulder Dash. Epiphany er opinn hugbúnaður og einhver hefur tekið að sér að búa til tól þar sem maður getur sjálfur búið sér til ný borð til að spila. Ég skemmti mér töluvert í gær að búa til snöggt borð og síðan spila það. Það var erfiðara en maður hefði haldið. Ég fann auðvitað galla í hönnun minni sem ég þurfti að laga en síðan þurfti maður smá lagni til að klára borðið.

Mér er farið að leiðast tilbreytingaleysið og að hanga inni. Tilhugsunin um að loftmengun í borginni sé í sögulegu lágmarki vekur hjá mér langanir til að fara út að hjóla en það væri ekkert rosalega góð hugmynd. Ég þyrfti líka að setja nagladekkinn undir og svona.

Í heild hef ég það ágætt en hef auðvitað áhyggjur af framtíðinni eins og þið hin. Maður getur vonað að komandi kreppa verði til umbóta í samfélaginu en auðvitað er alltaf hætta á hinum gagnstæða. Maður verður allavega að gera sitt best til að bæta heiminn.

Kasína – reglur

Eftir að hafa hlustað á hlaðvarpsþátt um sögu mannspila – hins hefðbundna spilastokks (The History of the English LanguageHouse of Cards) fór ég að rifja upp hvernig maður spilar kasínu. Við barnabörnin spiluðum það oft við afa og ömmu. Ég hafði hins vegar aldrei spilað það við strákana sem er synd og skömm.

Ég leitaði og fann allskonar reglur. Flestar voru gjörólíkar því sem við spiluðum í Stekkjargerðinu. Þetta ætti ekki að koma á óvart þar sem kasína hefur verið spiluð á Íslandi frá hið minnsta 19du öld. Það sést í öðru bindi af bók Jóns Árnasonar Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur sem gefin var út árið 1887. Spilið hefur síðan gengið manna á millum og breyst.

Ég spjallaði líka við fjölskylduna, bæði Hafdís systir og Eyþór Gylfa hjálpuðu. Að lokum fann ég góðar reglur, kunnuglegar að mestu. Það að þær komu frá Dalvíkurskóla kom ekki á óvart. Ekki var heldur neitt óvænt við niðurstöðurnar þegar ég rakti konuna sem er skráð fyrir þeim, Dóróþeu Reimarsdóttur, saman við mig í Íslendingabók og sá að hún á djúpar svarfdælskar rætur.

Það sem var ólíkt var helst tvennt. Annars vegar að hún talar um að 20 stig þurfi til að sigra en í Stekkjargerðinu voru þau 21. Hins vegar segir hún að spilarar fái fimm spil á hönd en ég er vanur fjórum spilum. Það tel ég reyndar vera mikilvægari reglu af því að fjórir ganga upp í 52. Ef þú ert hins vegar með fjögur spil í borði og hvor spilari fær alltaf fimm spil þá gengur það ekki upp (52) sem þýðir að lokagjöfin verður bara fjögur spil á mann. Þannig að ég held fjögur spil á hendi sé hiklaust réttara þó flest annað geti verið álitamál.

Reglurnar hérna eru byggðar á grunni Dóróþeu.

Gildi spilanna

Spilin hafa öll tölugildi sem notuð eru til að reikna hvernig má taka slagi. Tvistur er 2, þristur er 3 og svo framvegis. Kóngurinn er 13, drottningin 12 og gosinn 11. Ásinn gildir bæði 1 og 14.

Að taka slagi

Þú getur tekið sexu með sexu, ás með ási. Þú getur líka tekið ás með því að leggja tölugildi hans og við tölugildi annars spils. Þannig að þú getur tekið ás (1) og drottningu (12) með kóngi (13). Ef það eru tvistur, þristur og fimma í borði þá gætirðu tekið hvoru tveggja (2+3 & 5) með einni fimmu.

Gangur spilsins

Stokkið spilin. Gjafari gefur hinum fyrst 2 spil, sjálfum sér 2 spil, leggur 2 upp í loft á borðið, hinum 2 spil, sjálfum sér 2 spil og leggur aftur 2 upp í loft á borðið. Þá er hvor með 4 spil og 4 spil snúa upp í loft á borðinu. Afgangurinn af spilunum er geymdur og gefið aftur þegar báðir eru búnir með spilin sem þeir fengu á hendina.

Sá sem ekki gaf á að gera fyrstur og svo er skipst á að gera. Hann má taka eins mörg spil úr borðinu og hægt er með einu spili sem hann hefur á hendi. Ef hann getur ekki tekið slag þarf hann að leggja niður spil.

Þegar öll spilin eru búin af hendi er gefið aftur eins og áður nema að engum spilum er bætt við í borðið (jafnvel þó engin spil séu eftir þar).

Þegar síðasta umferðin er búin (þegar spilin úr stokknum hafa öll verið gefin) og sá sem fékk síðasta slaginn hefur hirt síðustu spilin af borðinu, er farið í stigatalningu. Ef enginn hefur náð 21 þá eru spilin stokkuð upp á nýtt og sá sem ekki gaf síðast skal vera gjafari núna.

Stigatalning

Spaða tvisturinn kallast litla kasína og tígul tían kallast stóra kasína.

  • Litla-kasína gefur 2 stig
  • Stóra-kasína gefur 5 stig
  • Að hreinsa borðið á meðan spilað er („svippur„) gefur 1 stig
  • Sá sem átti síðasta slaginn hirðir restina af spilunum úr borðinu og fær þar að auki 1 stig.
  • Fleiri spaðar í loks pils gefa 1 stig (spaðarnir)
  • Fleiri ásar í lok spils gefa 1 stig (ásarnir)
  • Fleiri spil í bunkanum í lok spils gefa 1 stig (bunkinn)

Það er best að reyna að ná sem flestum spilum, spöðum og ásum í bunkann. Ef bunkarnir eru jafnstórir fær hvorugur stig. Sama gildir ef hvor spilari er með tvo ása.

Sigurvegari

Sá vinnur sem fyrr fær 21 stig. Áður en vinningstölunni er náð eru allar líkur á að spilastokkurinn klárist einu sinni eða oftar.