Skíthæll með vákort

Þegar ég var nýbyrjaður í búðinni í fyrra þá lenti ég í ömurlegum viðskiptavini, hann var svo góður með sig, svo dónalegur og talaði svo niður til mín að það var hrikalegt. Þessi spjátrungur vildi að við myndum sleppa því að strauja kortið sitt og slá upplýsingarnar inn handvirkt seinna vegna þess að hann var ekki viss um að hann gæti notað straumbreytinn sem hann var að kaupa. Þetta var samþykkt af yfirmönnum mínum enda leit durgurinn virðulega út, klæddur í úrvals uppaföt.

Svona viku seinna voru upplýsingarnar slegnar inn í posann en þá kom upp „Vákort, gerið upptækt“ (líklega ekki nákvæmt orðalag). Nú höfðum við undirskrift mannsins á gamaldags straujaðri nótu sem við höfðum gert en hún var ógreinileg og nótan hafði straujast illa þannig að nafnið var ógreinilegt. Kortið var einnig erlent þannig að það er ekki víst það hefði dugað að hringja í banka hérlendis.

Nú vildi hins vegar svo heppilega til að ég mundi að mér fannst ég kannast við dólginn. Ég fór á netið og fann allar upplýsingar um hann enda hefur hann tekið nokkuð mikinn þátt í ungliðastarfi eins stjórnmálaflokksins, fann mynd sem staðfesti gruninn. Baldur sem var þá að vinna í búðinni hringdi síðan í kauða, gerði hann alveg dauðhræddan með hótunum og fékk síðan gilt kortanúmer. Aulinn sagði að þetta hefði verið alveg óvart.

Boðskapur þessarar sögu er að ég hefði ekki munað jafnvel eftir fíflinu ef hann hefði ekki verið með yfirgang og dónaskap, það varð honum að falli.

Snorri rugludallur

Hann pirrar mig hann Snorri grínframbjóðandi. Ég hef ekkert á móti grínframboðum, sjálfur hef ég farið í slíkt framboð. Mín skoðun er nú samt að grínframboð eigi að vera fyndin, Snorri er ekki fyndinn. Snorri mætir í bjánalegum fötum og það er hápunktur kímnigáfu hans.

Fyndið grínframboð er til að mynda Daninn sem lofaði meðvindi þegar maður hjólar og svoleiðis, ekki sköllóttur ræfill sem finnst nógu fyndið að auli einsog hann skuli fara í framboð.

Takandi í rss

„Það eru nokkrir vefbókhaldarar hérlendir sem ég les til viðbótar, en þeir eiga velflestir sameiginlegt að vera teknir í rss af Gneistanum, sem ég óska til lukku með nýja heimilið á tölvuöld.“ sagði Hjörvar í gær. Mér fannst þetta vel orðað, teknir í rss, ég þurfti að lesa þetta tvisvar til að skilja að það var ekkert dónalegt á ferðinni (og olli það vonbrigðum).

Lofthaus og her

Mér þykir að vissu leyti afar ánægjulegt að Sigurður Kári skuli hafa komist að sem Alþingismaður, maðurinn á hægt rólega eftir að niðurlægja flokkinn sinn með framgöngu sinni, er í raun þegar byrjaður á því. Þessa daganna er hann sendur í fjölmiðla að tala um varnarsamninginn og stendur sig í samræmi við andlega burði.

Að vísu sé ég ekki hvernig hægt er að verja það hvernig ríkisstjórnir Davíðs hafa staðið sig í þessu máli, í stað þess að bregðast við því að herinn sé á leiðinni burt hafa þeir hunsað málið og vonað að þeir geti betlað aðeins meiri tíma.

Það sem er stórundarlegt er að fjölmiðlar skuli í alvörunni fjalla um hugmyndir Björns Bjarnasonar um íslenskan her í stað þess að spyrja spurningarinnar: „Hvernig komst maður með svona geggjaðar hugmyndir í ráðherrastól?“

Live at Wembley

Út er kominn (kominn út úti en ekki kominn inn í þetta land held ég) er Live at Wembley dvd diskur. Þetta voru ekki síðustu tónleikar Queen, einir 10 tónleikar sem þeir spiluðu á eftir þessa í Magic-túrnum. Þetta eru hins vegar síðustu tónleikarnir í borginni sem Queen var stofnuð í. Tveir tónleikar í röð, seldist upp á báða um leið, 150.000 miðar fóru einsog skot. Að vissu leyti má segja að það sé erfitt að velja milli þessara tónleika og tónleikanna í Búdapest sama ár. Ég á Búdapest á video þannig að ég er sáttur við valið.

Þessi dvd diskur er líka fyrsta tækifærið sem maður hefur til að sjá óklippta Queentónleika, yfir tveir tímar að lengd. Aukaefnið er líka áhugavert og vel þess virði, heimildarmynd, viðtöl og hápunktar hinna tónleikanna á Wembley.

Merkilegt hvað þetta lítur vel út enda hafa þeir sem sjá um þessi mál fyrir Queen staðið sig einsog algerir hálfvitar í dvd útgáfu (og flestu öðru reyndar). Minningartónleikarnir um Freddie slepptu öllum hljómsveitunum sem spiluðu einar (án þess að Queenmeðlimir spiluðu með), G’n’R var sleppt, Metallica líka og síðast en ekki síst var Extreme sleppt. Extreme eru einir um að keppa við George Michael um atriði kvöldsins, þeir voru alveg frábærir.

Greatest Video Hits diskurinn var svosem ágætur, ægilega aumt „easter egg“ á honum (örlítið öðruvísi útgáfa af Bo Rhap myndbandinu) og í raun færri myndbönd en voru til dæmis í Greatest Flix boxinu. GVH diskurinn var hins vegar með frábært aukaatriði þar sem Brian May sýnir hvernig lagskiptingin í Bo Rhap er samansett, ef maður efaðist um að Freddie væri snillingur áður en maður sá það þá hvarf allur vafi eftir á.

Ég veit hins vegar að þessir menn geta gert hlutina rétt og vel. Freddie „boxið“ er merki um það. Ég efast um að glæsilegr minjagripur um nokkurn tónlistarmann hafi komið út. Tíu geisladiskar með nær öllu efni sem hægt var að komast yfir, viðtölum, ólíkar útgáfur laga eftir því hvernig þau þróuðust, heil bók um Freddie með glæsilegum myndum og síðast en ekki síst tveir dvd diskar með myndböndum og heimildarmynd. Það var allra mörgu krónanna virði.

Ég bind vonir við betri tíð, ég veit að það er verið að vinna í Queen „boxum“ sem verða svipuð því sem kom út um Freddie, mikið efni er til óútgefið eða sjaldgæft (hef heyrt mikið af því og það er vel þess virði að gefa út).

Leið til paranoju

Ég er búinn að fatta hvernig maður getur valdið paranoju hjá bloggurum sem þú veist að eru með teljara. Þú byrjar á að skrifa færslu með tilvísun í bloggarann, þú smellir á hlekkinn (á aðalsíðunni en ekki sérsíðu færslunnar ef henni er fyrir að fara) og ferð síðan og eyðir strax færslunni. Bloggarinn skoðar teljarann og fer síðan að reyna sjá hvað var sagt um hann en finnur ekkert. Þú gætir líka birt færsluna alltaf aftur og aftur í skamman tíma og eytt henni síðan, jafnvel fengið vini þína til að fara gera þetta líka svo fleiri IP-addressur sjáist.

Notið þessa vitneskju vel.

Könnun VR

Könnun VR á viðhorfi starfsfólks til fyrirtækisins sem það vinnur hjá er nokkuð heillandi. Fyrirtækið mitt er nokkuð fyrir ofan meðallag á þessum lista. Það kom mér svoltið á óvart að það kemur ekki há einkunn fyrir starfsanda miðað við að flestir hafa tekið mér vel. Einnig finnst mér það til marks um góðan starfsanda að í kaffitímum og mat þá sest fólk við nær hvaða borð sem er í stað þess að vera eltast við ákveðna klíku. Útlendingarnir halda sig að vísu svoltið saman (þó er það enginn regla, oft eru þeir bara með okkur hinum) en þeir eru líka þarna sameinaðir í tungumálum sínum, eldra fólk og hið yngra er einnig yfirleitt í sitt hvoru lagi. Stolt af fyrirtækinu er ekki mikið og sveigjanleiki vinnutíma er greinilega ekki mikill.

Aco Tæknival hefur ekki stolt starfsfólk og maður er hissa að starfsmenn gangi ekki með skíðagrímur, einkunn fyrir stolt er 1 af 100. Ekki sækja um vinnu hjá Fossberg (en farðu þangað að kaupa skrúfur) eða Útfaraþjónustu kirkjugarðanna sem fá aðeins 7% í starfsanda.

The Edge

Ekki gítarleikari U2 heldur nýjasta lag Týs (sem hægt er að nálgast á www.tyr.net). Í stuttu máli má segja að það rokkar, ef ég væri maður til að segja að það rokkaði feitt þá myndi ég gera það en þar sem ég nota ekki orðið feitur í þessari merkingu mun ég ekki gera það. Textinn virðist vera mjög góður og heillandi saga á bak við hann. Best að gera líma hér inn óþýddri lýsingu af heimasíðu Týs:
„The Edge“ tells the tale of Floksmennirnir or the Gangmen – four men who in medival times tried to conquer all eighteen Islands of the Faroes.

Sjúrður við Gellingará was forced to be part of this quest. When Floksmennirnir failed their quest and were captured, all except Sjúrður had been sentenced to death by the Thing. They were to be thrown of the cliffs Valaknúkar.

Because of guilt, Sjúrður chose to follow Floksmennirnir, over The Edge“
Heri er mjög fínn söngvari, betri en Allan var (ég heyrði bara tvö lög með honum) en ekki eins góður og Pól (hann er líka alveg eðal) þó ég muni líklega endurskoða það mat mitt þegar ég heyri meira af nýju plötunni. Það er allavega alveg ljóst að brotthvarf Pól verður ekki til þess að hljómsveitin deyr einsog ég hef heyrt suma spá.

Ég hlakka mjög til að heyra restina af plötunni Eric the Red.

Almennilegur sjálfstæðismaður

Ég var að ná í Eygló á bókasafnið þar sem hún vinnur (furðuleg þessi árátta að vanhelga bókasöfn með að byggja kirkjur oná þau). Þar rakst ég á bók sem ég kíkti strax í, hún heitir Þeir máluðu bæinn rauðann og fjallar um vinstri hreyfinguna á Norðfirði. Ég gluggaði í nafnaskránna og fann Reyni Zoëga sem er afi Eyglóar.

Reynir er ekki í bókinni af því hann deilir stjórnmálaskoðunum okkar Eyglóar heldur af því að hann var í bæjarstjórn á Norðfirði í mörg ár fyrir Sjálfsstæðisflokkinn. Þar sem minnst er á hann er sagt að hann hafi verið einstaklega samkvæmur sjálfum sér að því leyti að hann studdi mál meirihlutans ef honum þótti málið gott. Hann var víst ekki vinsæll fyrir þetta meðal flokksfélaga sinna og jafnvel kallaður sjötti maður Alþýðubandalagsins í bæjarstjórn. Þetta er afskaplega skemmtilegt og mjög ólíkt stjórnarandstöðustílnum sem Davíð Oddsson þróaði með sér í borgarstjórn og Guðlaugur Þór (Sori) hefur notað mikið, það er vera á móti öllu sem kemur frá meirihlutanum.

Annars má geta þess að Reynir sá einu sinni mynd af mér í Chebolnum mínum og lét þess getið að honum finndist Che enginn hetja og frekar væri við hæfi að ganga í bol með mynd af Ólafi Thors. Það er einmitt á stefnunni hjá okkur Eygló að gefa Reyni bol með mynd af Ólafi.

Rankin fyrir svefninn

Svaf ágætlega í nótt enda píndi ég sjálfan mig til að sofna ekki almennilega fyrr um kvöldið (svaf reyndar í hálftíma en það hefur enginn áhrif), ég hefði samt viljað sofa lengur.

Fyrir svefninn var ég að lesa bókina The Fandom of the Operator eftir Robert Rankin, hún er ein af betri bókum hans að því leyti að maður skilur hana eftirá. Manni leiðist aldrei að lesa Rankin en stundum getur verið að bækurnar séu þannig að maður lokar þeim og spyrji þá sjálfan sig:“Hvað var ég að lesa?“ Það á hins vegar við um allar Rankin bækur að þegar maður opnar bókina þá er ekki von til þess að maður viti hvert hann sé að fara og það er gott.

Í Fandom þá er Rankin líka eins grófur og hann getur verið, ósmekklegheitin leka af henni, nóg til að hneyksla flesta held ég. Ég er bara svona forhertur að ég get lesið þessa bók tvisvar. Í henni kemur líka greining á hagkerfi nútímans og nauðsyn þess að ákveðinn hluti almennings verði að vinna algerlega tilgangslaus störf (þó hugsanlega fæst séu jafn tilgangslaus og starf aðalpersónunnar lítur út fyrir). Athugasemdir hans um hvað einkenndi lífið á hverjum áratugi seinna hluta tuttugustu aldarinnar eru líka snilld.

Rankin er alltaf þess virði, þó snilld hans sé geðveiki stundum.