Minningargrein um ömmu

Ég var að láta minningargreinina sem ég skrifaði um ömmu inn á netið. Í raun er þetta stytt útgáfa af henni sem við Eygló þurftum að klippa til á netkaffihúsi í Kaupmannahöfn vegna þess að upphaflega útgáfan fór yfir hámarkslengd. Ég myndi láta löngu útgáfuna inn en þá þyrfti ég fyrst að yfirfara hana og laga stafsetningarvillur í henni og satt best að segja þá hef ég bara ekki haft afl í það.

INGIBJÖRG ÓLADÓTTIR

Minningargrein um Ingibjörgu Óladóttur (2/7 1912 – 7/5 2004)
(Birtist í Morgunblaðinu 18/5 2004)

Mér hefur verið sagt að þegar amma var ung þá hafi hún verið sterk, dugleg og góð – sjálfur veit ég að þegar hún var orðin gömul kona þá var hún ennþá sterk, dugleg og góð.  Það eru ekki mörg ár síðan að amma hætti að moka stéttina hjá sér á veturna eða að setja niður kartöflur á vorin.

Það eru ófáar minningar sem tengjast því að sitja við matarborðið í Stekkjargerðinu.  Þegar ég var lítill þá fékk ég alltaf súkkulaðiköku hjá ömmu á laugardögum en líka kleinur og pönnukökur. Stórfjölskyldan bjó lengi til laufabrauð þarna á hverju ári.  Frá því að ég var unglingur og þar til ég flutti frá Akureyri þá var mér (okkur þegar á leið) boðið vikulega í mat.

Það er hægt að telja börnin hennar ömmu, barnabörnin hennar og barnabarnabörnin en það er aldrei hægt að telja þá fjöldamörgu sem hafa hugsað til hennar sem ömmu sinnar eða jafnvel sem mömmu sinnar.  Hún hleypti svo mörgum að, hún hugsaði um svo marga, sumir voru bara hluti af lífi hennar í stuttan tíma en aðrir urðu varanlega hluti af fjölskyldunni.

Eitt sinn sá ég að amma hafði laumast út með bolta og var að prufa sig áfram á körfuboltavellinum í Borgarnesi.  Ég var sá eini sem sá hana þarna og hún vissi ekki að ég væri að horfa.  Allt í einu hrasaði amma og datt. Ég fékk áfall og hélt að hún hefði slasað sig en amma stóð bara á fætur og dustaði af sér rykið.  Þegar hún tók eftir mér þá hristi hún bara höfuðið og brosti.  Ef amma gerði einhver mistök eða hafði rangt fyrir sér þá brást hún mjög oft við með því að hrista höfuðið og brosa að sjálfri sér.

Fyrir nokkrum árum horfði ég á áramótaskaupið með ömmu, þar var sýnt fram á að ákveðnar byggingar á höfuðborgarsvæðinu væru hálfdónalegar í laginu, amma hló mest yfir þessu atriði.  Amma var ákaflega glaðlynd, hló oft og brosti mikið.

Þegar ég hugsa um ömmu þá hugsa ég um brosið hennar.

Myndir af ömmu

Þetta er persónuleg færsla sem fólk sem þekkir mig ekki þarf ekkert að lesa.

Ég tók saman nokkrar myndir af henni Ingibjörgu ömmu minni og setti á netið. Þær eru nokkrar góðar þarna.

Amma dó í gær og ég get eiginlega ekkert meira skrifað um það í bili.

Snögg ferð til að hitta ömmu

Ég fór norður til að hitta ömmu mína sem er veik. Örugglega ekkert fyrir þá sem eru mér óskyldir eða þá sem hafa ekki hitt ömmu.

Þegar ég kom heim úr vinnunni í gærkvöldi þá sagði Eygló mér að Hafdís hefði hringt. Ég hringdi í Hafdísi og hún sagði mér að amma okkar væri búin að vera á spítala síðan á laugardag og það hefði komið í ljós að hún væri með krabbamein í ristli. Hafdís sagði mér að það ætti að skera hana upp á miðvikudag.

Ég talaði við Eygló og við skoðuðum hvenær væri flogið en þegar Eygló sagði mér að hún vildi helst koma með ákváðum við bara að hoppa upp bíl og keyra norður. Við komum til Akureyrar klukkan hálffjögur um nóttina, á leiðinni sáum við mögnuð sólarlög (fleirtalan er þörf hér) og einnig stórkostlegar sólarupprásir.

Við komum við í 10-11 sem er opin allan sólarhringinn á Akureyri og fær meiraðsegja að vera opin í friði á Hvítasunnudag.

Við vöknuðum snemma til að fá frí frá vinnu, það var ekkert mál. Við höfðum samband við sjúkrahúsið til að vita hvort við gætum fengið að koma utan heimsóknartíma og það var auðsótt. Þegar við komum var amma í baði þannig að við sátum út á svölum í sólinni þar til hún kom aftur.

Það var gott að sjá ömmu því hún var hress og jákvæð einsog hún er alltaf. Við spjölluðum í dáltinn tíma en fórum síðan í þann mund sem hún var að fara í myndatöku.

Næst fórum við niður í bæ, ég fékk mér anísstykki frá Kristjánsbakarí en Eygló fékk sér einhverja óspennandi samloku. Við fórum síðan heim til Hafdísar og ég fór að sofa.

Við fórum aftur á spítalann klukkan hálffjögur og þar voru fyrir Gylfi, Helga og Gummi, síðan komu Hafdís og Sóley og þar á eftir Ella nágranni úr Stekkjargerðinu. Starri og Haukur hringdu síðan báðir í heimsóknartímanum þannig að það amma var svo sannarlega ekki ein.
Eftir stoppið fórum við bara beint af stað suður, stoppuðum í bústaðnum hjá Gunnsteini, Ástu og Ástu Hönnu í mat, vorum komin heim rétt eftir klukkan níu. Undarleg tilhugsun að hafa verið innan við sólahring í burtu.

Á leiðinni suður heyrðum við líka að Anna systir er að koma frá Svíþjóð á föstudag og ætlar að stoppa í viku, hún á reyndar með pantað far í ágúst og þá kemur Haval loksins með henni. Haval hefur ekki komið síðan 1994 ef ég man rétt (sem er ekkert víst).

Á morgun fer amma í aðgerð og ég veit ekkert hvað gerist, hún hress miðað við að hún er níræð og það er erfitt að ímynda sér að nokkuð geti komið fyrir þessa jákvæðu og hressu manneskju. Hún er hjartveik fyrir og svona aðgerðir hljóta alltaf að vera hættulegar fyrir svona gamalt fólk. Ég veit ekkert.