Raspberry Pi 4 sem vinnutölva

Frá því að ég heyrði fyrst af Raspberry Pi örtölvunum hef ég verið heillaður af þeim. Ég setti upp leikjatölvuhermi, sjónvarpstölvur og allskonar. Allt hræódýrt.

Þegar ég var að setja upp vinnuaðstöðu hérna í Kistunni hugsaði ég með sjálfum mér að ég myndi ekki nenna að ferja fartölvuna endalaust á milli. Stundum er ég bara að vinna í handritum eða einhverju öðru sem þarf eiginlega engan kraft til að keyra. Þannig að ég ákvað að kaupa eitt stykki Raspberry Pi 4 með 4gb vinnsluminni fyrir slíkt. Það virkaði bara vel.

Ég orðaði það einhvern tímann þannig að Pæið hafi verið álíka öflug og vinnutölvan sem ég hafði á skólabókasafninu í Húsaskóla. Sú þurfti auðvitað að keyra Windows sem er þungt stýrikerfi á meðan Raspbian/Raspberry Pi OS er alveg rosalega létt. En síðan er það bara þannig að vinnutölvan mín var ekki öflug.

En fyrir ekki svo löngu síðan kom út ný útgáfa af Pi 4, nú með 8gb vinnsluminni. Ég ákvað að kaupa hana ekki strax. En auðvitað náði ég að réttlæta fyrir mér að kaupa nýju útgáfuna (sú gamla er komin í þrívíddarprentarann).

Ég ákvað að gera smá tilraunir með nýju tölvuna og í stað þess að setja upp staðlaða stýrikerfið þá ákvað að ég að prufa önnur stýrikerfi.

Ubuntu Mate

Ég valdi Ubuntu Mate af því að það er líkt Linux Mint sem ég nota daglega. Það virkaði ákaflega vel. En síðan ákvað ég að tengja annan skjá við pæið. Þá hætti tölvan allt í einu að spila myndbönd. Það virkaði fínt þegar ég var bara með einn skjá. Ef ég hefði bara viljað hafa einn skjá þá var Ubuntu Mate best.

Manjaro

Ég hef aldrei verið heillaður af Manjaro. Það er samt mjög vinsælt stýrikerfi. En ég ákvað að prufa það. En þá virkaði ekki hljóðúrtakið. Þannig að ég get spilað myndbönd en ég er ekki mikið í þöglu myndunum. Síðan var ég bara ekki að fíla kerfið sjálft. Bara einfaldir hlutir eins og að fletta í valmyndinni virka ekki eins og ég myndi vilja.

Raspberry Pi Os

Ég hef notað Raspberry Pi Os reglulega. Það virkar mjög fínt. Vandinn er að það er hannað fyrir allar útgáfur Pæ. Þannig að það er ekki að nýta vinnsluminnið í nýju tölvunum til að flýta fyrir manni, til dæmis í valmyndinni. Á meðan Linux Mint umhverfið, Cinnamon og jafnvel líka Mate, virkar vel fyrir fólk sem elskaði Windows XP notendaumhverfið þá er Raspberry Pi Os svolítið eins og Windows 95. Ég þarf að athuga hvort ég geti ekki bara fengið annað gluggaumhverfi.

En það virkar auðvitað að spila myndbönd og hljóð kemur auðveldlega. Það sem vantar kannski helst í hin stýrikerfin er raspi-config tólið sem getur reddað öllu sem maður vill stilla í Pæ. Í hinum kerfunum er þetta innlimað í almennu stillingarnar og er ekki að virka nógu vel.

Niðurstaðan er síðan auðvitað að Raspberry Pi er orðin nógu öflug tölva fyrir þá sem er mest í léttri vinnslu. Það er reyndar hægt að gera tölvuvert meira en ég hugsa svolítið um allt þetta fólk sem er á rándýrum tölvum til að hanga á Facebook og vinna í ritvinnslu. Það er þá ágætt að kaupa bara tölvu sem kostar bara 75 dollara.

System76 og rétturinn til að gera við

Ég náði í nóvember að skemma hljóðtengið á fartölvunni minni þegar ég var að fara að taka upp þátt af podcastinu mínu. Heyrnartólin mín voru í sambandi og ég rykkti í eitthvað vitlaust þannig að ég náði að bæði að skemma inntakið í tölvunni og brjóta tengið á fínu heyrnartólunum mínum.

Ég opnaði strax tölvuna og fann út hvaða stykki ég þyrfti að panta. Þar sem ég var á fullu í spilasölu og lokafrágangi eftir framkvæmdi ákvað ég reyndar að fresta því fram yfir jól og síðan hummaði ég það fram af mér. Núna kom það loksins í hús og ég setti það strax. Ekkert mál, bara að losa skrúfurnar allar, einn borða og síðan festa borðann á nýja tengið og festa allar skrúfurnar aftur. Mesta vandamálið var að ég missti eina skrúfuna á gólfið og fann hana ekki fyrr en eftir mikla leit. Ég held að hver sem er hefði getað framkvæmt þessa viðgerð.

En málið er auðvitað að ég hef réttinn til að gera við tölvuna mína og framleiðandi tölvunnar er ekkert að gera það erfiðara fyrir mig. Ég bara pantaði stykkið af AliExpress. Ef ég væri með Apple tölvu þá væri þetta auðvitað vesen. Apple gæti í fyrsta lagi bara ákveðið að banna mér að gera sjálfur við hlutina og það væri örugglega dýrt að láta gera við eitthvað sem fellur undir ábyrgðina. Þá gæti Apple bara ákveðið að selja engum varahluti nema á okurprís og banna öðrum að framleiða parta fyrir sín tæki.

Ég ákvað að panta mína tölvu frá System76. Ég fann ekkert fyrirtæki á Íslandi sem seldi stýrikerfalausar tölvur (eða með Linux) og ég vildi ekki borga fyrir Windows af því að ég er hættur að nota Windows. Ég gat líka sérhannað tölvuna fyrir mínar þarfir, sumsé fyrir þarfir rekstursins míns. Það var ekkert mál að fá tölvuna senda til Íslands og verðið mjög sanngjarnt. Þetta virðist bara vera yndislegt fólk.

Það er rétt að taka fram að System76 framleiðir ekki allar tölvurnar sem þeir selja en þeir fínpússa þær fyrir Linux. Það varð umtalað þegar þeir fundu leið til að taka Intel Management Engine, sem er eiginlega laumustýrikerfi í örgjörvanum, úr sambandi fyrir kaupendur sína. Þetta var áður en öryggisgallar kerfisins (gúgglið Meltdown og Spector) komu fram í dagsljósið. System76 gerir sitt besta til að koma í veg fyrir að njósnað sé um tölvurnar sem þeir selja.

Ég er eiginlega viss um að ég kaupi næstu tölvu af þeim. Ef reksturinn minn hefur efni á því ætla ég að fá mér litla tölvu sem þolir mikla vinnslu, Meerkat. Það er í raun Intel NUC í grunninn en System76 er með mjög samkeppnishæft verð á þeim og allt fínpússað fyrir Linux. Þeir hafa sitt eigið stýrikerfi, Pop!OS, en ég féll ekki alveg fyrir því og nota enn Linux Mint.

Gagnleg og góð forrit í Linux

Ef þú ætlar að nota tölvuna þína í fleira en að vafra um veraldarvefinn þá er nauðsynlegt að þekkja forrit sem eru í boði á Linux. Það gæti verið að sum forrit nái ekki að leysa öll verk sem þú vinnur núna í einu forriti. En það getur alveg eins verið á hinn veginn.

Það eru til Windows útgáfur af mörgum þessara forrita þannig að það er hægt að prufa þau áður en skipt er alveg yfir í Linux.

Öll þessi forrit eru ókeypis en það er alltaf gaman að gefa forriturunum smá peninga ef maður getur og sérstaklega þegar maður er að nota svona forrit í rekstri líkt og ég geri. Halda áfram að lesa: Gagnleg og góð forrit í Linux

Linux og Windows saman – nokkrar lausnir

Það eru margir sem vilja prufa Linux en vilja ekki hætta með Windows af því að það eru einhver forrit þar sem virðast ómissandi. Fyrir marga þá er þetta svona öryggislína sem að lokum verður alveg óþörf og var kannski alltaf óþörf.

1. Ein tölva – tvö stýrikerfi

Með Linux er oftast auðvelt að setja tvö stýrikerfi á sömu tölvu. Þú bara velur þann valmöguleika í uppsetningunni. Þá býr Linux til pláss fyrir sig inni á harða drifinu og skilur eftir pláss fyrir Windows og það sem því fylgir. Linux getur þá lesið allar skrár sem eru á Windows-hlutanum en Windows getur ekki séð það sem er á Linux-partinum.

Þegar þú kveikir á tölvunni þá getur þú síðan valið um hvort þú opnar Linux eða Windows og þá er annar möguleikinn almennt sjálfgefinn ef þú breytir ekki valinu innan ákveðinna tímamarka.

2. WineHQ

Wine er Windows “hermir” í Linux sem getur keyrt mörg Windows forrit. Þannig að ef þú vilt ekki missa einhver forrit þá geturðu séð hvort Wine ráði við að keyra þau. Það er ekki alltaf hægt en oft og Linux notendur eru duglegir að deila upplýsingum um hvaða forrit virka, og virka ekki, í Wine.

3. Virtual Box

Virtual Box er kannski fyrir lengra komna en það er skemmtilegt tól fyrir fiktara. Þetta er forrit sem getur búið til sýndarvélar með öðrum stýrikerfum. Þannig að ef þú ert með uppsetningardisk með Windows, hvort sem það er Windows 10 eða Windows 3.11, þá geturðu bara sett það upp í þessu forriti og þá geturðu notað það eins og um aðra tölvu sé að ræða.

Þú ræður hve mikið af vinnslukrafti tölvunnar þinnar fer til þessara sýndarvéla. Ég lenti reyndar einhvern tímann í þeirri fáránlegu stöðu að Windows virkaði betur sem sýndarvél í tölvu heldur en sem stýrikerfi á sömu tölvu.

Virtualbox er líka frábær lausn ef þú ert með gömul forrit sem ekki lengur ganga á nýjustu Windows útgáfunum. Ef þú átt gömlu Windows diskana, eða getur reddað þeim, þá geturðu sett það upp á sýndarvél og keyrt forritin eins og ekkert sé. Það sama á við um t.d. gömul Dos forrit.

Ég hef líka notað Virtualbox til að prufa aðrar Linux útgáfur. Topp-forrit sem fagmenn nota og fiktarar geta fiktað í.

Linux – fjöldi bragðtegunda

Það eru til margar útgáfur af Linux sem á ensku eru oft kallaðar bragðtegundir (það er til flókin skýring á hvað aðgreinir tegundir og bragðtegundir en ég nenni ekki slíku). Ég ætla ekki að tala um Linux útgáfur sem eru aðallega notaðar á bak við tjöldin heldur þær sem venjulegt fólk notar.

Þetta er hvorki gæða né vinsældarröð.

1. Ubuntu

Ubuntu er líklega útbreiddasta tegundin og kemur í nokkrum afbrigðum. Ubuntu var leiðandi í að gera Linux notendavænt. Kerfið hrapaði reyndar í vinsældum fyrir nokkrum árum vegna umdeildra breytinga (Unity) en núna er þetta vonandi á betri leið.

Ubuntu er, eins og flest af þeim sem ég er að fjalla um hérna, ekki byggt á hreinni hugsjón frjáls hugbúnaðar. Þú færð á mjög einfaldan hátt aðgang að allskonar tólum sem eru ekki “frjáls” í grunninn en eru eiginlega nauðsynleg í daglegri notkun.

Útgáfur merktar “LTS” eru með langtímastuðningi þannig að maður getur sett þær inn og treyst á að geta notað í mörg ár án þess að þurfa að setja inn nýja útgáfu.

2. Linux Mint

Linux Mint byggir að miklu leyti á Ubuntu. Það varð nokkuð vinsælt fyrir nokkrum árum. Skýringin er líklega sú að fólk sem þoldi ekki Unity ákvað að skipta og um leið þá passaði kerfið ágætlega fyrir þá sem höfðu vanist Windows XP og vildu ekki skipta í 7, 8 eða 10.

Linux Mint byggir á stöðugleika. Það er ekki mest spennandi. Það bara virkar. Ég hef notað það síðan frá því ég skipti endanlega yfir úr Windows. Augljóslega er Mint uppáhaldið mitt þó hver þurfi að velja fyrir sig.

Ég byrjaði í Mate útgáfunni og færði mig síðan í Cinnamon. LMDE er ekki jafn fínpússuð og er meira fyrir lengra komna.

3. Elementary OS

Elementary er ákaflega vinsælt í dag. Það mætti kalla það nútímalegt. Það minnir eiginlega frekar á Apple en Windows. Það fylgja ekki mörg forrit með í upphafi en það er auðvitað hægt að bjarga því fljótt og örugglega. Ég hef bara prufað Elementary í sýndarvél en þetta er kerfi sem harðkjarna Linux fólk er farið að setja á tölvur foreldra sinna til þess að þurfa ekki að vera ekki í endalausum reddingum.

4. MX Linux

Þetta er frekar nýleg Linux-útgáfa en er ákaflega létt og lipur. Ég væri miklu líklegri að færa mig í hana heldur en t.d. Elementary.

5. Lubuntu

Lubuntu er létt útgáfa af Ubuntu sem ég hef notað á gamlar og aflitlar tölvur. Það þarf ákaflega lítið til að keyra Lubuntu.

6. Ubuntu Studio

Þessi Ubuntuútgáfa er sérhönnuð með allskonar tól fyrir fyrir allskonar sköpun. Ég myndi vilja setja þetta kerfi inn í tölvur í öllum skólum. Þarna eru forrit til að klippa myndbönd, taka upp, myndvinnsla, teikning, búa til tónlist og allt annað. Þetta eru reyndar flest forrit sem maður getur sett inn hjá sér sjálfur, mörg sem ég nota sjálfur, en þarna eru þau öll samankomin í þægilegan pakka.

Linux fyrir alla

Ertu kominn með leið á endalausum nauðungaruppfærslum í Windows? Er tölvan þín orðin of gömul fyrir allt draslið sem Windows er að keyra? Ertu búinn að fá leið á niðurnjörvuðu valmöguleikum Apple? Linux er fyrir þig, og alla hina líka.

1. Er Linux ekki bara fyrir sérfræðinga?

Nei. Í dag þá eru margar útgáfur Linux í raun einfaldari fyrir venjulegt fólk heldur en allavega Windows. Fyrir rúmum áratug, þegar ég byrjaði að fikta í Linux, þá þurfti ennþá að fikta í allskonar stillingum. Í dag þarftu ekki að vita hvað “sudo” þýðir nema að þig langi að fikta.

2. Er ekki flókið að setja upp nýtt stýrikerfi?

Í dag er uppsetning á Linux oftast alveg fáránlega einföld og fljótleg. Þar að auki er hægt að prufa margar Linux tegundir á einfaldan hátt. Stýrikerfið er sett á USB-lykil (t.d. með Windows forritinu Rufus) og þá er hægt að opna kerfið í tölvunni og sjá hvernig það lítur út áður en þú setur það upp. Það þarf þó að hafa í hug að stýrikerfið gæti verið hægvirkara ef það er keyrt af USB-lykli heldur en innbyggðum disk.

3. Er ekki erfitt að finna og setja upp forrit í Linux?

Nei. Flestar nútímaútgáfur af Linux eru með frekar notendavænar forritamiðstöðvar þar sem hægt er að setja inn forrit með einum smelli, svipað og í forritabúðum snjallsíma. Þú þarft líka ekkert að endurræsa.

Stundum þarf fólk að venjast því að nota fleira en eitt forrit í verkefni í Linux. Windowsforrit eiga það til að bólgna upp af allskonar fídusum en Linux forrit hafa oft það markmið að gera eitthvað eitt vel. Þannig myndirðu kannski nota GIMP, Krita og Inkscape í myndvinnslu frekar en bara Photoshop. Það gæti samt líka verið að þú hafir aldrei verið að nota nema svo lítinn part af Photoshop þannig að Krita eða Gimp myndu duga þér.

4. Það eru engir leikir fyrir Linux

Eitt orð: Steam.

5. Fáir nota Linux

Þú notar Linux oft á dag. Vefurinn keyrir meira og minna á Linux, þetta blogg keyrir á Linux og Facebook keyrir á Linux. Android símar keyra á Linux. Flest stór kerfi þurfa þann stöðugleika sem Linux bíður upp á og í dag þá er hægt að fá þennan stöðugleika á notendavænu formi fyrir einstaklinga.

Setti upp leikjatölvuhermi á Raspberry Pi dvergtölvu

Það eru hátt í tvö ár síðan ég keypti mér Raspberry Pi tölvu fyrst. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þetta pínulitlar tölvur sem við fyrstu sín virðast frekar gagnslausar. Það sem gerðist þegar þær fóru á markað var að tölvunördar heimsins fengu kast og byrjuðu að hanna og aðlaga stýrikerfinu og forrit að kostum tölvunnar. Ég sett fyrst upp sjónvarpstölvu með XBMC stýrikerfinu (eða öllu heldur aðlögun sem heitir RASPBMC) og hef notað síðan. Á þeim tíma var reyndar smá maus að setja þetta upp en núna getur maður bara keypt minniskort sem maður setur í tölvuna og velur hvaða stýrikerfi maður vill setja upp. Maður þarf svo sem að hafa vit á tölvum til að klára uppsetninguna en ekkert sérstakt vit á Linux (flestar Pi tölvur keyra á Linux). Pi getur m.a. tengst sjónvarpi með HDMI snúru.

Snemmsumars kom út ný útgáfa af Raspberry Pi sem kallast Model B+. Hún er með fleiri USB raufum, keyrir á minna rafmagni og notar micro SD kort í stað stærri gerðarinnar. Ég beið í smá tíma með að stökkva til en ekki mjög lengi (ég pantaði frá Adafruit en þetta fæst líka í Miðbæjarradíó). Ég setti upp XBMC á nýju tölvuna og ákvað að nota þá gömlu í smá skemmtitæki.

Eitt það fyrsta sem forritarar gerðu með Raspberry Pi var að búa til leikjatölvuherma. Svona hermar eru ekkert nýtt. Ég man eftir að hafa notað Amstrad hermi seint á síðustu öld. En einfaldleikinn sem Pi tölvurnar bjóða upp á gerir þetta skemmtilegra. Flottasta kerfið sem er í boði heitir RetroPie og í því eru ótal leikjatölvuhermar sem maður getur valið úr í einföldu stýrikerfi.

Ég fór eftir leiðbeiningum hjá Life Hacker við uppsetninguna. Það eina sem gæti talist flókið er að skrifa “mynd” með stýrikerfinu á minniskort (eyðir öllu af minniskortinu) en það er einfalt forrit sem maður notar við það.

Til þess að setja upp leiki á tölvunni þarf hún að vera nettengd á meðan. Tölvan birtist á heimanetinu og þegar maður opnar hana þar þá sér maður möppur sem hver um sig táknar ákveðna leikjatölvu. Þar setur maður leikina inn. Einnig er hægt að nota FTP til þess að setja inn leiki og þannig getur maður líka breytt flóknari stillingum.

Vondu fréttirnar eru að það virka ekki allir hermarnir jafn vel. Það á sérstaklega við herma sem þurfa að keyra stærri leiki. Margir Playstation (1) leikir virka í herminum en þá er líka gott að verða sér úti um BIOS skrá sem hjálpar til. Aftur á móti hefur mér ekki enn tekist að láta Nintendo 64 herminn virka að neinu viti. Það er talað um að það sé gott að yfirklukka tölvuna til að leikirnir virki en það eru auðvitað ekki allir sem geta eða vilja standa í slíku. En ef maður er bara í einfaldari leikjum, segjum fram að Super Nintendo eða Sega Genesis (svokölluð fjórða kynslóð leikjatölva) þá er maður í nokkuð góðum málum. Verst er að það er vesen með Amiga herminn eins og er (en það er í vinnslu).

Það að redda sér leikjum kemur auðvitað inn á svið höfundalaga og sýnir hvað þau geta verið úr takti við raunveruleikann. Það er einfaldlega lítill markaður fyrir 20-30 ára gamla tölvuleiki og því hálfvonlaust fyrir menn að græða á því. Um leið er gríðarlegur fjöldi tölvuleikjatitla sem er “munaðarlaus” af því að fyrirtækin sem áttu höfundaréttinn eru löngu farin á hausinn.

Ef þið eruð eins og ég og viljið helst spila leiki sem þið áttuð hér áður fyrr þá er auðvitað ekkert athugavert við að leita að þeim leikjum á netinu. Þið skrifið einfaldlega inn titil leiksins, heiti leikjatölvunnar og orðið “rom”. Það eru til ótal vefir með slíkjum leikjaskrám og þeir virðast fá að hanga uppi af því að höfundarétthöfum virðist meira og minna vera sama (og sumir reyndar styðja það að fólk hafi aðgang að leikjunum þeirra). Auðvitað þarf maður að passa sig á svona síðum. Ef maður fer að hala inn skrá og það stendur að hún sé “exe” (sumsé Windows forrit) þá er best að forða sér. Annars eru skráarendingar á þessum leikjum margskonar t.d. dsk og adf.

Auðvitað virka ekki allir leikir í herminum. Það er líka af því að þessar skrár eru gerðar af áhugafólki en ekki fagfólki. Einnig eru leikjahermarnir misgóðir. Ég get mælt með að velja leikjaskrár sem eru hrópmerktar (!) því þær eiga vera prófaðar og síðan er gott að muna að (E) þýðir evrópsk útgáfa, (U) þýðir bandarísk útgáfa og (J) þýðir japönsk útgáfa.

Fyrst spilaði ég bara með lyklaborði og það er vel hægt. Stundum er það jafnvel betra. En ég vildi prufa líka þannig að ég keypti mér svona Super Nintendo “joypad” (stýrisspjald? fjarstýring?) eftirhermu sem tengist með USB. Ég pantaði akkúrat sömu gerð og er nefnd í Life Hacker greininni (en það er hægt að nota ýmsar aðrar gerðir og þá eru X-Box fjarstýringar oft nefndar). Þær eru mjög ódýrar en vandinn er að þær eru ekki seldar beint til Íslands. Ég þurfti því að senda þetta til MyUS (svipað en ódýrara en ShopUSA miðað við allt sem ég hef séð) og þeir sendu þetta áfram til Íslands. Ef maður ætlar bara að kaupa eina þá borgar þetta sig varla.

Til að stilla inn fjarstýringar þarf maður að fara úr aðalstýrikerfinu og keyra smá forrit eins og lýst er neðarlega í Life Hacker greininni (ég var lengi að fatta það af því stýringarnar komu dáltið eftir að ég hafði sett þetta upp og hafði ekki greinina við höndina þegar ég var að stilla þær).

Ég endurnýjaði kynni mín af Mortal Kombat 4 og það virkaði mun betur að nota fjarstýringuna heldur en lyklaborðið. Sensible Soccer hins vegar mun þægilegri með lyklaborði.

Í stuttu máli þá er þetta ódýrt og bráðskemmtilegt. Ef þið farið í þetta munið að kaupa Model B+ frekar en hinar gerðirnar og passið að straumbreytirinn sé sem öflugastur (helst allavega 1 amper). Ég þarf sjálfur að nota USB höbb tengdan við rafmagn til að hafa fjarstýringarnar og lyklaborðið í sambandi en ég er líka með gömlu Model B. Það væri gaman að vita hvort fjarstýringarnar virki beintengdar í Model B+ sem er með svona margar USB raufar og betri rafmagnsnýtingu. Annars getur maður stjórnað flestu í stýrikerfinu með fjarstýringunni en gott er að hafa lyklaborð líka þegar maður þarf að fara í stillingar. Það er voða gott að læra aðeins að tengjast tölvunni með ssh (sem er líka hægt úr Windows og Mac tölvum) en það er engin nauðsyn.

Linux sérfræðingar bjarga XP tölvum

Í gær potaði ég aðeins á póstlista Félags um stafrænt frelsi á Íslandi og menn tóku við sér. Á laugardaginn eftir viku frá 15-21 verða Linux sérfræðingar á Múltíkúltí að hjálpa fólki að skipta um stýrikerfi.

500,- fyrir uppsetningu á Linux Mint stýrikerfi fyrir tölvuna þína, í stað Windows. Linux Mint inniheldur frjálsan hugbúnað sem hvaða forritari sem er getur lagfært og endurbirt á netinu. Þannig getur þú keypt uppfærslur af hugbúnaðarfyrirtæki að eigin vali, nú eða hlaðið þeim ókeypis niður af netinu.

Endilega takið öryggisafrit af mikilvægustu skjölum! Allur vari er góður. Við tökum einnig afrit af vinnuskjölum á staðnum gegn vægu gjaldi.

Það er vel þess virði að kíkja með gömlu Windows XP tölvuna þína og fá aðstoð frá fólki sem er klárara en ég í þessum málum. Ég geri ráð fyrir að þeir verði með diska þannig að hægt verði að prufa að keyra upp stýrikerfið fyrst án þess að breyta neinu varanlega í tölvunni þinni.

Ég ítreka það sem stendur í textanum að best er að hafa tekið afrit af öllum mikilvægum gögnum á tölvunni áður en farið er í að skipta um stýrikerfi.

Ekki henda XP tölvunni þinni

Morgunblaðið birtir gagnrýnislaust áróður Microsoft sölumanns og kallar frétt.

En hvað geta Windows XP notendur gert? Snæbjörn segir að best sé að uppfæra tölvuna í nýrra stýrikerfi, Windows 7 eða Windows 8.1. Ekki er víst að allar eldri gerðir tölva ráði við Windows 8.1 en þær gætu ráðið við Windows 7. „Ef tölvan er orðin mjög gömul er líklegt að tími sé kominn til að endurnýja hana,“ segir Snæbjörn.

Þetta er þvaður. Ef þú ert með tölvu sem keyrir á Windows XP þá áttu helst að líta til Linux. Flestir sem hafa vit á þeim málum mæla með Linux Mint. Það er ókeypis. Þú færð líka ókeypis myndvinnsluforrit. Einnig “Office” hugbúnað. Og þetta verður áfram ókeypis. Margar tegundir af Linux eiga ákaflega auðvelt með að keyra á gömlum tölvum. Það er ákaflega auðvelt núorðið að skipta yfir í Linux. Það besta er að þú getur prufað margar útgáfur af Linux án þess að setja stýrikerfið upp, þú bara skrifar það á disk eða minnislykil og keyrir það þannig upp. Þá geturðu séð hvernig það virkar (þó það sé alltaf hægvirkara þegar það er ekki almennilega uppsett á hörðum disk).