Þöggun hinna valdamiklu

Haukur Örn Birgisson skrifaði andlausa bakþanka í Fréttablaðið í gær. Ekki frétt. En ég ætla að gagnrýna skrifin af því að það er ekkert auðveldara. Ég veit ekki hvort ég er að rýna til gagns en allavega er þetta gaman.

Við skulum byrja á fullyrðingu Hauks.

Kannanir í bandarískum háskólum sýna að tveir þriðju nemenda tjá ekki skoðun sína í kennslustund af ótta við að móðga samnemendur sína.

Mér fannst þessi tala frekar vafasöm. Verst er auðvitað að Haukur vísar ekki á neitt – bara óljós á “kannanir”. Ég leitaði og fann eina könnun sem hann gæti verið að tala um.

More than two-thirds (68 percent) of college students say their campus climate precludes students from expressing their true opinions because their classmates might find them offensive.

Ef Haukur er að vísa í þessa könnun þá er hann auðvitað að mistúlka hana. Það sem þessir stúdentar segja er ekki að þeir séu hræddir við að tjá skoðanir sínar heldur að sumir séu það. Þetta virðist því aðallega segja manni að stúdentar trúi áróðurslínu hægri sinnaðaðra fjölmiðla í Bandaríkjunum. Ég tók reyndar eftir að svarhlutfall í könnunni var um 44%. Það er ekki neinn grunnur til að fullyrða um heildina.

Hvað liggur að baki þeirri trú að málfrelsi sé í hættu í bandarískum háskólum? Almennt er það bara að einstök mál eru blásin upp. Ein birtingarmynd þess er þegar “ögrandi” fyrirlesarar mæta mótmælum þegar þeim eru boðið að tala á háskólasvæðum. En hvaðan koma þessir “ögrandi” fyrirlesarar og hver er að bjóða þeim?

Ef við skoðum samtök á borð við Turning Point USA sem borga þessum fyrirlesurum sjáum við að þau eru verkefni bandarískra milljarðamæringa sem eru að reyna að troða áróðri inn í háskóla. Þá er stundum mótmælt og þau mótmæli eru kölluð árás á málfrelsi. Í raun er verið mótmæla áróðri.

En er ekkert raunverulegt vandamál? Eru vinstri sinnaðir stúdentar ekki alltaf að “aflýsa” grey hægri sinnuðum prófessorum sem þora að nýta málfrelsi sitt? Nei. Þvert á móti. Það eru vinstri sinnaðir prófessorar sem lenda í því að vera reknir fyrir skoðanir sínar. Það er vandamál. Samtök eins og Turning Point USA mála sig sem málsvara málfrelsis en vilja síðan sjálf reka þá sem eru þeim ósammála.

Kannski að það væri hægt að rökræða við Hauk ef hann nefndi einhver raunverulega dæmi. En hann talar í hálfkveðnum vísum.

Markmiðið er jafnvel að þagga niður í þeim sem hafa „ranga“ skoðun. Útiloka þá frá umræðunni. Margt bendir til þess að íslensk umræðuhefð sé á slíkri vegferð.

Það er mikilvægt að geta tjáð skoðun sína um menn og málefni án þess að ummælin séu kölluð hatursfull af þeim sem eru manni ósammála.

Málið er að sumar skoðanir eru hatursfullar. Sumar skoðanir eru líka rangar – í þeim skilningi að þær eru ekki sannar. Síðan eru til rangar skoðanir sem eru ígildi þess að öskra “eldur” í troðnum bíósal. Ef þeim er svarað með því að benda á að 1) það sé enginn eldur og 2) það sé hættulegt að segja að hræða fólk í þessum aðstæðum þá er ekki verið að ráðast á málfrelsi neins.

Þegar við skoðum hryðjuverkamenn sem ráðast á moskur eða svart fólk sjáum við að þeir eru undir áhrifum fólks sem öskrar “eldur! eldur!”. Þegar fólk vogar sér að svara haturspostulunum þá er það ásakað um árás á málfrelsið sjálft. Það má ekki heldur gagnrýna stórfyrirtæki fyrir að græða á hatri eða auglýsa það.

Hinir ríku og valdamiklu hafa sína málsvara. Þeir geta fjármagnað fjölmiðla til að koma “réttum” skoðunum á framfæri. Síðan eru frasar eins og aflýsingarmenning notaðir til að brjóta á málfrelsi hinna valdalitlu – í nafni málfrelsis. Öllu er blandað saman í eina hrúgu til að rugla umræðuna. Ýkt dæmi um bjánalega gagnrýni eru notuð til að hunsa alla.

Þessu tengt:

Fórnarlambamenning Sigmundar Davíðs

Samsæri nýju menningarbyltingarinnar

Fórnarlambamenning Sigmundar Davíðs

Sigmundur Davíð birti nú um helgina langa og heimskulega grein um menningarbyltingu. Það væri hægt að taka hana fyrir lið fyrir lið og benda á rangfærslur og útúrsnúninga (og arfaslakar hugtakaþýðingar). Kannski að einhver nenni því. Það sem mér finnst mikilvægara er að velta fyrir mér hvers vegna Sigmundur er að skrifa þessa grein.

Þó Sigmundur eyði töluverðu púðri í að fordæma svokallaða fórnarlambamenningu þeirra sem berjast fyrir réttindum minnihlutahópa þá snýst grein hans að miklu leyti í að mála valdamikla aðila sem sem fórnarlömb.

Kröfulisti starfsmanna Stanford háskólans til stjórnenda sem átti að kosta 25 milljónir dollara “slær þó líklega flest met” að mati Sigmundar. Verst er auðvitað að “Stanford-háskóli er sem stendur í miklum fjárhagsþrengingum” að sögn Sigmundar. Samkvæmt tölum háskólans sjálfs þá átti hann um 28 milljarða dollara í fyrra. Það gerir Stanford fjórða ríkasta háskóla Bandaríkjanna.

Sú hugmynd að eyða einum tíunda úr einu prósenti auðæfa skólans til þess að bæta fyrir og koma í veg fyrir kerfisbundna mismunun er að mati Sigmundar hið raunverulega hneyksli.

Hvers vegna er Sigmundi svona í mun að mála hina ríku og valdamiklu sem fórnarlömb? Er það kannski fyrst og fremst stéttarvitund hans sjálfs? Er það vegna þess að jafnrétti er ógn við forréttindi hans sjálfs? Auðvitað, en ekki bara það.

Greinin er hluti af almennu menningarstríði hægri manna. Það snýst um að blása upp ákveðin mál, snúa út úr þeim og reyna að koma í veg fyrir samstöðu almennings.

Sigmundur er alveg miður sín yfir því að svört líf skipti máli. Öll líf skipta máli. Ég geri fastlega ráð fyrir að þegar minning sjómanna er heiðruð þá mæti Sigmundur með mótmælaskilti til að benda á að það séu ekki bara sjómenn sem drukkna.

Kynþáttahyggja hefur í gegnum tíðina verið eitt helsta tól valdastéttarinnar til að koma í veg fyrir samstöðu almennings og það sést einna best í Bandaríkjunum. Þetta er gert með því að hræða hina hvítu með því að svartir eða “Mexíkanar” (af hinum ýmsustu þjóðernum) séu að koma til að stela frá þeim vinnunni eða nota velferðarþjónustu ætlaða þeim. Í stað þess að mynda samfylkingu hinna lægra settu þá fara þessir hópar er að berjast – á meðan “arðræninginn situr og hlær”.

Við þurfum að skilja að réttindabarátta minnihlutahópa er barátta okkar allra. Samstaðan er eina leiðin til að tryggja okkur öllum betra líf þannig að við þurfum að gefa skít í fórnarlambamenningu hinna ríku og valdamiklu.

Samsæri nýju menningarbyltingarinnar

Höfundaréttshafi 	Gage Skidmore from Peoria, AZ, United States of America
Höfundaréttshafi Gage Skidmore from Peoria, AZ, United States of America

Ég held að Mike Cernovich sé nafn sem allir ættu að þekkja. Því miður.

Bakgrunnur hans er kjánalegur. Fyrrverandi kona hans er lögfræðingur sem auðgaðist mjög í Kísildal. Þegar þau skildu fékk hann einhverjar milljónir í Bandaríkjadölum. Hann taldi að femínismi hefði eyðilagt hjónabandið þannig að hann eyddi kröftum sínum (og peningum sinnar fyrrverandi) í andfeminískan áróður. Þar má t.d. nefna Gamergate.

En hann er frægari fyrir að dreifa Pizzagate áróðri. Það er heimskuleg samsæriskenning um barnaníðshring Demókrataflokksins sem náði hápunkti sínum þegar vopnaður maður réðst inn á pizzastað í Washington DC.

Það sem ég vildi beina sjónum lesenda að eru árásir Cernovich á fræga menn, aðallega þó sem hafa gagnrýnt öfgahægrið sem er að rísa í Bandaríkjunum.

Það sem hann gerir (að eigin sögn) er að borga einhverjum fyrir að leita að einhverju vafasömu í fortíð þessara manna. Það eru til dæmis gömul tíst. Frægasta dæmið er James Gunn, leikstjóri Guardians of the Galaxy myndanna. Cernovich gróf upp eitthvað vafasamt tíst úr fortíð Gunn og notaði það í herferð til þess að láta Disney reka leikstjórann. Hann var rekinn og ráðinn aftur.

Cernovich gerði það sama við þáttastjórnandann Sam Seder. Hann fann gamalt tíst þar sem Seder var að ráðast með hæðni á stuðningsfólk Roman Polanski. Seder var líka rekinn og ráðinn aftur.

Dan Harmon (höfundur Community og Rick and Morty) lenti líka í Cernovich. Hann fann gamalt grínmyndband sem Harmon hafði gert áður en hann varð frægur. Það var snúið út úr því og reynt að láta reka hann frá Rick and Morty. Það tókst ekki að reka hann en Harmon þurfti að þola allskonar ömurlegheit á meðan þessu stóð.

Fyrir almenning hefði verið auðvelt að skilja öll þessi mál sem eitthvað “political correctness gone mad”. En í raun var það bara öfgahægrimaðurinn Cernovich með hjálp stuðningsmanna sinna (og botta) að búa til deilumál.

Mér verður því hugsað til Cernovich þegar maður heyrir til dæmis fréttir af því að þáttur af Golden Girls hafi verið tekinn af streymisveitum vegna meintrar andlitssvertu. Ég myndi allavega vilja vita hver það var sem kvartaði yfir þessu. Mér finnst mun líklegra að Cernovich eða einhver álíka sé að reyna að búa til deilur frekar en að einhver hafi í raun verið hneykslaður á Klassapíunum.