Óreglulegir Sherlock Holmes þættir

Þegar ég var svona 10-11 ára þá keypti ég Sherlock Holmes bækur á bókamarkaði. Las þær allar. Elskaði þær. Líklega hafði ég þá þegar horft á bæði Sherlock Holmes þættina með Jeremy Brett og kvikmyndina Young Sherlock Holmes. Þá var ég líklega búinn að sjá The Private Life of Sherlock Holmes þar sem Loch Ness skrýmslið kom við sögu.

Ég hef líka verið hrifinn af uppstokkun á Sherlock Holmes. Dæmi um slíkt er Without A Clue þar sem kemur í ljós að Watson er í raun sá klári. Síðan fannst mér Elementary frábær nútímavæðing á persónunum. Ég féll hins vegar aldrei fyrir Sherlock.

En af öllum þessum uppstokkunum á persónunni þá stendur smásagan A Study in Emerald eftir Neil Gaiman uppúr. Þar er blandað saman Sherlock Holmes og H.P. Lovecraft. Frábært alveg. Í sama dúr er skáldsagan The Angel of the Crows eftir Katherine Addison (Sarah Monette). Þar er einkaspæjarinn settur í fantasíuhrylling og útkoman æðisleg.

Þannig að þegar ég sá þættina The Irregulars á Netflix þá varð ég mjög spenntur. Titilinn gaf til kynna að hér væri verið að fjalla um götukrakkana sem Holmes notaði oft til að njósna fyrir sig. Um leið var ljóst að yfirnáttúru og hryllingur blandaðist inn í það.

En þættirnir eru bara “meh”. Ég hef séð þetta gert svo mikið betur. Það eru fullt af góðum hugmyndum en lausnirnar eru oftar ekki einfeldningslegar. Það að blanda fjölskyldu Viktoríu drottningar inn í söguna er ein af þessum góðu hugmyndum sem hefði mátt vinna betur úr.

Það sem stóð uppúr var hins vegar aðalleikkonan Thaddea Graham. Ég kannaðist við hana úr annarri “lala” Netflix seríu The Letter for the King. Það er engin tilviljun að allir dómar sem ég hef lesið um The Irregulars segja það sama, hún er það besta við þættina. Ef Thaddea Graham fær betri efnavið þá verður hún stjarna.

Í þessum þáttum er farin sama leið og t.d. í Bridgerton (sem ég hef reyndar ekki séð). Leikarnir eru af ýmsum uppruna en það er aldrei talað um húðlit. Ég skil alveg kostinn við þessa nálgun. Hingað til þá hefur verið nær alveg lokað á aðra en hvíta leikara í svona sögulegu efni sem er staðsett í Bretlandi. Svona fá þeir tækifæri. En það er samt næstum því eins og það séu allir að leika hvítar persónur.

Þegar þættirnir byrjuðu og ég sá að Thaddea Graham, sem er mjög greinilega af kínverskum uppruna, ætti systur í þáttunum sem leit út fyrir að vera mjög “bresk” þá fór ég að vona að hér yrði kafað ofan í reynsluheim slíkrar fjölskyldu á Viktoríutímabilinu. En það var augljósleg ekki gert.

Vandinn við sögulegt efni er svo oft að það hunsar þann fjölbreytileika sem var til staðar. Við höfum séð endalausar birtingarmyndir London þessa tíma þar sem allir eru hvítir. En það var ekki þannig. Meira að segja Arthur Conan-Doyle notaði persónur af öðrum uppruna í sögum sínum en því miður var hann frekar rasískur í því hvernig hann sýndi þær.

Þegar svartur maður fékk aðalhlutverkið í Les Mis á Broadway þá var fullt af reiðu fólki sem hafði engan skilning á því að það var svart fólk í Frakklandi á þeim tíma sem sagan gerðist. Frægastir þeirra eru auðvitað hershöfðinginn Dumas og rithöfundarnir sonur hans og sonarsonur.

Þannig að mér finnst svona “litblint” leikaraval ekki svara þeirri þörf að segja sögur sem hafa ekki verið sagðar.

Samsæriskenningarugl og rangfærslur í Mogganum

Það virðast einhverjir enn kaupa Moggann. Ég veit ekki hvers vegna. Núna gengur um Twitter grein sem var birt þar, væntanlega í dag. Greinin er eftir Önnu Karen Jónsdóttur (BS hagfræði) og fjallar um Black Lives Matter hreyfinguna. Þessi grein fór ekki á flakk af því að hún er vel skrifuð og ígrunduð. Það er næstum erfitt að gera upp á milli hvort er verra, málfarið eða efnið.

Samkvæmt Önnu Karen þá er málflutningur BLM byggður á misskilningi eða rangfærslum. Hún segir:

Árið 2019 voru 10 svartir óvopnaðir skotnir til dauða samkvæmt gagnagrunni Washington Post.

Það er margt athugavert við þessa fullyrðingu. Í fyrsta lagi er hún röng. Það voru 14 óvopnaðar svartar manneskjur skotnar til bana af lögreglu árið 2019 skv. umræddu gagnasafni. Í öðru lagi þá er skilgreiningin á að vera “vopnaður” mjög óljós. Lögreglan skaut allavega fjóra sem voru “vopnaðir” með leikföngum. Í þriðja lagi er hérna einungis verið að tala um þá sem eru skotnir. Þið munið að t.d. George Floyd var kraminn til bana. Í fjórða lagi er hérna gert ráð fyrir að það sé alltaf réttlætanlegt að drepa fólk ef það er “vopnað”. Hérna erum við að tala um land þar sem stjórnarskráin ver réttindi fólks til að bera vopn.

Tölfræðin er mjög einföld. Svart fólk er mun líklegra til að vera drepið af lögreglu en aðrir hópar og þá sérstaklega þegar það er óvopnað.

Til samanburðar voru 48 lögreglumenn myrtir. Hver sá sem lýsir yfir stuðningi við lögregluna á þessum morðum á hins vegar á hættu að vera rekinn úr vinnu eða skóla.

Ég myndi vilja gagnrýna þetta en ég skil ekki einu sinni hvert Anna Karen er að fara hérna. “Hver sá sem lýsir yfir stuðningi við lögregluna á þessum morðum” er bara óskiljanleg rugl. Satt best að segja væri rökréttast að skilja þetta þannig að hún sé að tala um þá sem styðja að lögreglufólk sé myrt en ég held að hún meini það örugglega ekki. Ég veit ekki hvort hún er að tala stuðning við lögreglu þegar lögreglumenn eru drepnir eða stuðning við morð lögreglu á óvopnuðu svörtu fólki. Ef hún meinar það fyrrnefnda þá er það án efa rugl. Allavega væri ég til í að fá lista yfir fólk sem hefur verið rekið fyrir að sýna samúð þegar lögreglumenn eru drepnir.

Notkun Önnu Karenar á hagtölum bendir til þess að það sé einhver brotalöm í hagfræðimenntun hennar, eins og sést hér:

Þrátt fyrir að vera bara 13,4% þjóðinnar þá eru svartir í langflestum tilfellum yfirgnæfandi meirihluti afbrotamanna. Sem dæmi voru samkvæmt ársskýrslu New York Police Department árið 2019 afbrotahlutföllin þessi:

Hérna tekur Anna Karen fjölda svarts fólks í Bandaríkjunum og yfirfærir á New York borg til að sýna glæphneigð þeirra. En vandamálið er að í New York þá er hlutfall svartra mun hærra en víða annars staðar. Þannig að tölurnar hennar eru mjög villandi. En auðvitað er það aukaatriði því staðreyndin er sú að það er ekki svart fólk sem er líklegra til að vera handtekið fyrir glæpi heldur fátækt fólk.

Þar sem efnahagskerfi Bandaríkjanna hefur verið hannað til þess að gera svart fólk fátækt (leitið að t.d. “red lining” á netinu) þá er það líklegra til þess að fremja glæpi. Af því að það er fátækt. Af því að því skortir tækifæri.

En Anna Karen telur að rasismi geti ekki verið vandamálið:

Ástæður fátæktar geta verið margar og flóknar. Rasismi er hins vegar langsótt skýring árið 2020. Ef hvíti maðurinn stjórnar efnahagnum milli kynþátta og heldur þannig efnahagsstöðu svartra niðri, ætti þá sá hvíti ekki að hafa sett sig í fyrsta launaflokk á undan Asíubúanum? Slíkt er ekki raunin en Asíubúar eru í flestum mælingum með betri afkomu en hvítir.

Hér kemur til algjör vanþekking hennar á innflytjendastefnu Bandaríkjanna. Það voru lengi miklar takmarkanir á fjölda innflytjenda frá Asíu (sérstaklega reyndar Kína sbr. The Chinese Exclusion Act). Þegar var farið að hleypa inn fleirum frá þessum heimshluta þá var lögð áhersla á að hleypa inn menntuðum einstaklingum. Vel menntað fólk er líklegra til að fá hærri laun og að eignast börn sem menntar sig vel. Þannig að góð efnahagsleg staða fólks sem rekur uppruna síns til Asíu er komin til vegna (rasískrar) innflytjendastefnu. Það er mjög fróðleg umræða um þetta í hlaðvarpinu “Whiting Wongs”.

Hún Anna Karen reynir líka að flytja inn ákveðna tegund af bandarískri íhaldspólitík:

Það eru margir þættir sem hafa áhrif á fátækt. Það má velta því fyrir sér hvort það sé út af menningu eða vegna þess að 70% af lituðum börnum í dag fæðast utan hjónabands.

Við Íslendingar sem erum vön því að börn fæðist utan hjónabands erum frekar hissa á svona málflutningi. Af hverju er hjónabandsstaða eitthvað lykilatriði? Báðir synir mínir er fæddir utan hjónabands. En er ekki líklegra að efnahagslegt umhverfi hafi áhrif á hjónabandsstöðu heldur en öfugt?

Í seinni hluta greinarinnar fer Anna Karen í samsæriskenningastuð. Hún nefnir til Bill Gates og George Soros. Hún bendir líka að Kína hafi lýst yfir stuðningi við Black Lives Matter eins og það sýni hve vafasöm samtökin eru. Það að keppinautar á alþjóðasviðinu noti mannréttindamál til að koma höggi á andstæðinga sína er ekki nýtt og það ógildir ekki mannréttindabaráttuna.

Í dramatísku útspili spyr Anna Karen:

Höfum við gleymt Tiannanmen Square 1989?

Ég játa að ég man mjög vel eftir atburðunum árið 1989 en ég man líka að á Íslandi var það kallað Torg hins himneska friðar. Það er fátt hallærislegra en að nota ensk heiti á svæði utan hins enskumælandi heims.

Þá dregur Anna Karen fram vafasamar fullyrðingar um róttæka fortíð konu sem tengist BLM.

Meðhöndlun fjármagnsins sem þessir fjársterku aðilar leggja hreyfingunni til fer í gegnum Susan Rosenberg og situr hún í fjáröflunarnefnd samtakanna BLM.

Susan þessi er dæmdur hryðjuverkamaður og ævilangur aktívisti, sem hefur leitt til dauða þó nokkurra manna.

Ég ætla ekki að reyna að tæta í sundur fyrri setninguna því að þó hún sé bókstaflega röng þá er það aðallega vegna þess að Anna Karen kann ekki að tjá sig í rituðu máli. Það hvort við ættum að kalla Susan Rosenberg hryðjuverkamann er álitamál (sjá Snopes). En það að hún hafi “til dauða þó nokkurra manna” byggir ekki á staðreyndum. Hún var ekki dæmd fyrir neitt slíkt, ekki einu sinni ákærð, en hún hefur vissulega verið sökuð um það. Ferill hennar frá því að hún var leyst úr fangelsi fyrir nær tuttugu árum er hins vegar óneitanlega laus við tengsl við ofbeldi eða ógnanir.

Anna Karen vill helst kalla BLM hryðjuverkasamtök og notar þá stórar yfirlýsingar án sannana.

Hreyfingin snýst ekki um rasisma heldur pólitísk völd. Ef þú brennir fyrirtæki, lemur, drepur eða nauðgar öðru fólki og gjörsamlega rústar heilu borgunum, ertu þá ekki hryðjaverkamaður?

Nær ekkert af þessu lýsir BLM en þetta er ágæt lýsing á því hvernig komið hefur verið fram við svart fólk í Bandaríkjunum í gegnum tíðina.

Ég verð að lokum að benda á þessa setningu sem er svo undarleg að ég hálfdáist að henni:

Fólkið sem gagnrýnir nasista Hitlers er á sama tíma búið að lýsa yfir stuðningi við samtökin á samfélagsmiðlum.

Bravó.

Þetta á ekki að vera endanleg yfirferð á greininni. Hvorki málfars- eða efnislega. Bara nokkur atriði sem var einfalt að benda á. Hlutir sem Anna Karen hefði væntanlega getað flett upp sjálf.