Kasína – reglur

Eftir að hafa hlustað á hlaðvarpsþátt um sögu mannspila – hins hefðbundna spilastokks (The History of the English LanguageHouse of Cards) fór ég að rifja upp hvernig maður spilar kasínu. Við barnabörnin spiluðum það oft við afa og ömmu. Ég hafði hins vegar aldrei spilað það við strákana sem er synd og skömm.

Ég leitaði og fann allskonar reglur. Flestar voru gjörólíkar því sem við spiluðum í Stekkjargerðinu. Þetta ætti ekki að koma á óvart þar sem kasína hefur verið spiluð á Íslandi frá hið minnsta 19du öld. Það sést í öðru bindi af bók Jóns Árnasonar Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur sem gefin var út árið 1887. Spilið hefur síðan gengið manna á millum og breyst.

Ég spjallaði líka við fjölskylduna, bæði Hafdís systir og Eyþór Gylfa hjálpuðu. Að lokum fann ég góðar reglur, kunnuglegar að mestu. Það að þær komu frá Dalvíkurskóla kom ekki á óvart. Ekki var heldur neitt óvænt við niðurstöðurnar þegar ég rakti konuna sem er skráð fyrir þeim, Dóróþeu Reimarsdóttur, saman við mig í Íslendingabók og sá að hún á djúpar svarfdælskar rætur.

Það sem var ólíkt var helst tvennt. Annars vegar að hún talar um að 20 stig þurfi til að sigra en í Stekkjargerðinu voru þau 21. Hins vegar segir hún að spilarar fái fimm spil á hönd en ég er vanur fjórum spilum. Það tel ég reyndar vera mikilvægari reglu af því að fjórir ganga upp í 52. Ef þú ert hins vegar með fjögur spil í borði og hvor spilari fær alltaf fimm spil þá gengur það ekki upp (52) sem þýðir að lokagjöfin verður bara fjögur spil á mann. Þannig að ég held fjögur spil á hendi sé hiklaust réttara þó flest annað geti verið álitamál.

Reglurnar hérna eru byggðar á grunni Dóróþeu.

Gildi spilanna

Spilin hafa öll tölugildi sem notuð eru til að reikna hvernig má taka slagi. Tvistur er 2, þristur er 3 og svo framvegis. Kóngurinn er 13, drottningin 12 og gosinn 11. Ásinn gildir bæði 1 og 14.

Að taka slagi

Þú getur tekið sexu með sexu, ás með ási. Þú getur líka tekið ás með því að leggja tölugildi hans og við tölugildi annars spils. Þannig að þú getur tekið ás (1) og drottningu (12) með kóngi (13). Ef það eru tvistur, þristur og fimma í borði þá gætirðu tekið hvoru tveggja (2+3 & 5) með einni fimmu.

Gangur spilsins

Stokkið spilin. Gjafari gefur hinum fyrst 2 spil, sjálfum sér 2 spil, leggur 2 upp í loft á borðið, hinum 2 spil, sjálfum sér 2 spil og leggur aftur 2 upp í loft á borðið. Þá er hvor með 4 spil og 4 spil snúa upp í loft á borðinu. Afgangurinn af spilunum er geymdur og gefið aftur þegar báðir eru búnir með spilin sem þeir fengu á hendina.

Sá sem ekki gaf á að gera fyrstur og svo er skipst á að gera. Hann má taka eins mörg spil úr borðinu og hægt er með einu spili sem hann hefur á hendi. Ef hann getur ekki tekið slag þarf hann að leggja niður spil.

Þegar öll spilin eru búin af hendi er gefið aftur eins og áður nema að engum spilum er bætt við í borðið (jafnvel þó engin spil séu eftir þar).

Þegar síðasta umferðin er búin (þegar spilin úr stokknum hafa öll verið gefin) og sá sem fékk síðasta slaginn hefur hirt síðustu spilin af borðinu, er farið í stigatalningu. Ef enginn hefur náð 21 þá eru spilin stokkuð upp á nýtt og sá sem ekki gaf síðast skal vera gjafari núna.

Stigatalning

Spaða tvisturinn kallast litla kasína og tígul tían kallast stóra kasína.

  • Litla-kasína gefur 2 stig
  • Stóra-kasína gefur 5 stig
  • Að hreinsa borðið á meðan spilað er („svippur„) gefur 1 stig
  • Sá sem átti síðasta slaginn hirðir restina af spilunum úr borðinu og fær þar að auki 1 stig.
  • Fleiri spaðar í loks pils gefa 1 stig (spaðarnir)
  • Fleiri ásar í lok spils gefa 1 stig (ásarnir)
  • Fleiri spil í bunkanum í lok spils gefa 1 stig (bunkinn)

Það er best að reyna að ná sem flestum spilum, spöðum og ásum í bunkann. Ef bunkarnir eru jafnstórir fær hvorugur stig. Sama gildir ef hvor spilari er með tvo ása.

Sigurvegari

Sá vinnur sem fyrr fær 21 stig. Áður en vinningstölunni er náð eru allar líkur á að spilastokkurinn klárist einu sinni eða oftar.

Minningargrein um ömmu

Ég var að láta minningargreinina sem ég skrifaði um ömmu inn á netið. Í raun er þetta stytt útgáfa af henni sem við Eygló þurftum að klippa til á netkaffihúsi í Kaupmannahöfn vegna þess að upphaflega útgáfan fór yfir hámarkslengd. Ég myndi láta löngu útgáfuna inn en þá þyrfti ég fyrst að yfirfara hana og laga stafsetningarvillur í henni og satt best að segja þá hef ég bara ekki haft afl í það.

INGIBJÖRG ÓLADÓTTIR

Minningargrein um Ingibjörgu Óladóttur (2/7 1912 – 7/5 2004)
(Birtist í Morgunblaðinu 18/5 2004)

Mér hefur verið sagt að þegar amma var ung þá hafi hún verið sterk, dugleg og góð – sjálfur veit ég að þegar hún var orðin gömul kona þá var hún ennþá sterk, dugleg og góð.  Það eru ekki mörg ár síðan að amma hætti að moka stéttina hjá sér á veturna eða að setja niður kartöflur á vorin.

Það eru ófáar minningar sem tengjast því að sitja við matarborðið í Stekkjargerðinu.  Þegar ég var lítill þá fékk ég alltaf súkkulaðiköku hjá ömmu á laugardögum en líka kleinur og pönnukökur. Stórfjölskyldan bjó lengi til laufabrauð þarna á hverju ári.  Frá því að ég var unglingur og þar til ég flutti frá Akureyri þá var mér (okkur þegar á leið) boðið vikulega í mat.

Það er hægt að telja börnin hennar ömmu, barnabörnin hennar og barnabarnabörnin en það er aldrei hægt að telja þá fjöldamörgu sem hafa hugsað til hennar sem ömmu sinnar eða jafnvel sem mömmu sinnar.  Hún hleypti svo mörgum að, hún hugsaði um svo marga, sumir voru bara hluti af lífi hennar í stuttan tíma en aðrir urðu varanlega hluti af fjölskyldunni.

Eitt sinn sá ég að amma hafði laumast út með bolta og var að prufa sig áfram á körfuboltavellinum í Borgarnesi.  Ég var sá eini sem sá hana þarna og hún vissi ekki að ég væri að horfa.  Allt í einu hrasaði amma og datt. Ég fékk áfall og hélt að hún hefði slasað sig en amma stóð bara á fætur og dustaði af sér rykið.  Þegar hún tók eftir mér þá hristi hún bara höfuðið og brosti.  Ef amma gerði einhver mistök eða hafði rangt fyrir sér þá brást hún mjög oft við með því að hrista höfuðið og brosa að sjálfri sér.

Fyrir nokkrum árum horfði ég á áramótaskaupið með ömmu, þar var sýnt fram á að ákveðnar byggingar á höfuðborgarsvæðinu væru hálfdónalegar í laginu, amma hló mest yfir þessu atriði.  Amma var ákaflega glaðlynd, hló oft og brosti mikið.

Þegar ég hugsa um ömmu þá hugsa ég um brosið hennar.

Myndir af ömmu

Þetta er persónuleg færsla sem fólk sem þekkir mig ekki þarf ekkert að lesa.

Ég tók saman nokkrar myndir af henni Ingibjörgu ömmu minni og setti á netið. Þær eru nokkrar góðar þarna.

Amma dó í gær og ég get eiginlega ekkert meira skrifað um það í bili.