Linux – fjöldi bragðtegunda

Það eru til margar útgáfur af Linux sem á ensku eru oft kallaðar bragðtegundir (það er til flókin skýring á hvað aðgreinir tegundir og bragðtegundir en ég nenni ekki slíku). Ég ætla ekki að tala um Linux útgáfur sem eru aðallega notaðar á bak við tjöldin heldur þær sem venjulegt fólk notar.

Þetta er hvorki gæða né vinsældarröð.

1. Ubuntu

Ubuntu er líklega útbreiddasta tegundin og kemur í nokkrum afbrigðum. Ubuntu var leiðandi í að gera Linux notendavænt. Kerfið hrapaði reyndar í vinsældum fyrir nokkrum árum vegna umdeildra breytinga (Unity) en núna er þetta vonandi á betri leið.

Ubuntu er, eins og flest af þeim sem ég er að fjalla um hérna, ekki byggt á hreinni hugsjón frjáls hugbúnaðar. Þú færð á mjög einfaldan hátt aðgang að allskonar tólum sem eru ekki „frjáls“ í grunninn en eru eiginlega nauðsynleg í daglegri notkun.

Útgáfur merktar „LTS“ eru með langtímastuðningi þannig að maður getur sett þær inn og treyst á að geta notað í mörg ár án þess að þurfa að setja inn nýja útgáfu.

2. Linux Mint

Linux Mint byggir að miklu leyti á Ubuntu. Það varð nokkuð vinsælt fyrir nokkrum árum. Skýringin er líklega sú að fólk sem þoldi ekki Unity ákvað að skipta og um leið þá passaði kerfið ágætlega fyrir þá sem höfðu vanist Windows XP og vildu ekki skipta í 7, 8 eða 10.

Linux Mint byggir á stöðugleika. Það er ekki mest spennandi. Það bara virkar. Ég hef notað það síðan frá því ég skipti endanlega yfir úr Windows. Augljóslega er Mint uppáhaldið mitt þó hver þurfi að velja fyrir sig.

Ég byrjaði í Mate útgáfunni og færði mig síðan í Cinnamon. LMDE er ekki jafn fínpússuð og er meira fyrir lengra komna.

3. Elementary OS

Elementary er ákaflega vinsælt í dag. Það mætti kalla það nútímalegt. Það minnir eiginlega frekar á Apple en Windows. Það fylgja ekki mörg forrit með í upphafi en það er auðvitað hægt að bjarga því fljótt og örugglega. Ég hef bara prufað Elementary í sýndarvél en þetta er kerfi sem harðkjarna Linux fólk er farið að setja á tölvur foreldra sinna til þess að þurfa ekki að vera ekki í endalausum reddingum.

4. MX Linux

Þetta er frekar nýleg Linux-útgáfa en er ákaflega létt og lipur. Ég væri miklu líklegri að færa mig í hana heldur en t.d. Elementary.

5. Lubuntu

Lubuntu er létt útgáfa af Ubuntu sem ég hef notað á gamlar og aflitlar tölvur. Það þarf ákaflega lítið til að keyra Lubuntu.

6. Ubuntu Studio

Þessi Ubuntuútgáfa er sérhönnuð með allskonar tól fyrir fyrir allskonar sköpun. Ég myndi vilja setja þetta kerfi inn í tölvur í öllum skólum. Þarna eru forrit til að klippa myndbönd, taka upp, myndvinnsla, teikning, búa til tónlist og allt annað. Þetta eru reyndar flest forrit sem maður getur sett inn hjá sér sjálfur, mörg sem ég nota sjálfur, en þarna eru þau öll samankomin í þægilegan pakka.

Windows XP er dautt – Linux Mint er málið

Á heimilinu voru fyrir stuttu tvær tölvur með Windows XP stýrikerfinu. Mér hefur alltaf líkað við það og því var lítil hvöt fyrir mig að skipta. En nú er Microsoft að slátra XP. Þar sem þessar tölvur eru ekkert rosalega öflugar, önnur frá 2007 og hin EEE Box (sem þurfti raunar strípaði útgáfu af XP), þá þótti mér ekkert góð hugmynd að fara í nýrra Windows. Það hefði líka kostað peninga. Þá er auðvitað augljósa svarið Linux.

Ég hef lengi haft eina tá í Linux. Litla EEE netbook tölvan (talvan) sem ég notaði síðustu árin í Háskólanum er með Lubuntu sem er strípuð útgáfa af Ubuntu. Síðan erum við flest komin með eitthvað Linux (Android? Kindle?) á heimilið.

En nær samdóma álit er að Linux Mint sé besta kerfið til að setja upp á tölvur sem eru með deyjandi Windows XP. Ég valdi útgáfu af Linux Mint sem heitir Mate. Hún svínvirkaði á tölvurnar tvær. Reyndar var ég svo ánægður að ég er búinn að setja þetta líka á nýjustu tölvu heimilisins því mig langaði að prufa þau mörgu frábæru forrit sem maður getur fengið ókeypis. Mér líður svo rosalega vel með þetta. Mér hefur þótt Windows 7 svo þungt og fráhrindandi. En Linux Mint er bara eins og einfaldur og stabíll draumur.

Það er algjörlega augljóst að þeir sem eru með gamlar vélar sem keyra á XP ættu að prufa Linux og þá helst Linux Mint. Það fylgir ókeypis „Office“ pakki (Libre Office) sem er ákaflega þægilegur í notkun þó hann sé aðeins öðruvísi en Microsoft týpan. Það eiginlega aldrei vandamál að opna Microsoft skjöl þarna og ég notaði Libre Writer um árið þegar gamla Microsoft Office mitt gat ekki opnað skjal úr nýja Word. Það fylgir Firefox með og auðvitað hægt að setja fleiri vafra inn. Einnig fylgir með GIMP myndvinnsluforritið sem ég hef undanfarin ár notað líka í Windows því það er bara rosalega gott (og ókeypis!).

Þetta er sumsé rosalega einfalt fyrir fólk sem er bara að gera einfalda hluti með tölvurnar sínar. Þeir sem gera eitthvað flóknara ættu að eiga nokkuð auðvelt með að læra að gera þá flóknu hluti í Linux.

Þeir sem vilja prufa Linux Mint geta gert það án þess að setja það upp. Það er nefnilega hægt að brenna stýrikerfið á dvd disk (nokkuð einfalt) eða af USB lykli (aðeins meira maus) og sjá hvernig það virkar. Það er auðvitað mun hægvirkara þannig en þegar það er raunverulega búið að setja það upp en svona getið þið séð hvernig samleið Linux Mint á með tölvunni ykkar. Þið tapið engu á að prufa (nema einum DVD disk en þið getið huggað ykkur við að þið hafið stutt höfundarétthafasamtök á Íslandi sem fá einhverjar krónur af hverjum seldum disk).

Ubuntu – EEEbuntu

Ég hef í cirka tíu ár verið að pæla í Linux. Ég hef reglulega skoðað hvað er að ske og leikið mér aðeins að því að prufa. Síðast gerði ég það í hittifyrra þegar ég setti Ubuntu upp í smá tíma. Ég var nokkuð hrifinn af því þá en ýmislegt var ekki að virka almennilega.

Eftir að ég keypti mér EEE tölvuna setti ég upp Windows XP af því að ég vildi geta fiktað í ritgerðinni minni sem var í Office. Þegar ég var búinn að klára ritgerðina var planið alltaf að setja upp eitthvað Linux kerfi aftur. Ég skoðaði ýmislegt og endaði á EEEbuntu sem er breytt útgáfa af nýjasta Ubuntu.

Ég er búinn að vera með það uppi í viku og allt gengur vel. Tölvan talar auðveldlega við Windows tölvur sem skiptir miklu máli á meðan skipt er um kerfi. Ég er búinn að leika mér heilmikið með þetta. Niðurstaðan er einfaldlega sú að ég myndi mæla með Ubuntu fyrir venjulega. Þetta er einfaldlega notendavænna en Windows. Fyrst þegar ég fiktaði í Linux þurfti ég að læra heilmikið af einhverjum skipunum. Í nýjasta Ubuntu/EEEbuntu er ekkert um svoleiðis nema að maður vilji það.

Líklega tilheyri ég þeim hluta tölvunotenda sem er erfiðast að gera til geðs. Ég er vanur að geta fiktað, bætt og breytt öllu í Windows. Ég kann það allt. Núna get ég eiginlega ekki notað neitt af þekkingunnni. Það eru reyndar ýkjur. Forritin eru svo svipuð. Ég var þegar farinn að nota Pidgin í Windows í staðinn fyrir Messenger (og innlima þannig Facebook spjallið í sama kerfi) og ég held því áfram. Það er bara það sem viðkemur stýrikerfinu og öllu því sem er breytt. Það er líka frábært að hafa engan Internet Explorer í tölvunni.

Á þessum tímapunkti get ég ekki séð annað en að það sé réttast að reyna að setja inn Ubuntu eða svipuð kerfi í sem flestar tölvur í skólum. Hvað ætli ríki og sveitafélög eyði miklu í þessi dýru kerfi? Um leið væri örugglega ekkert mál að setja í gang þýðingarverkefni fyrir þá sem vilja stýrikerfið á íslensku. Það er áhugavert að fyrir nokkru komu upp tölvur í Háskóla Íslands sem voru bæði með Macintosh og Windows stýrikerfum. Af hverju var ekki líka, eða bara, sett upp Ubuntu? Vissulega eru til einhver forrit sem eru bara til í Windows en það eru engin slík forrit sem allir þurfa að nota.

Kannski verður Ubuntu ekki til í áratugi en Linux útgáfurnar eru bara svo margar að komast á þetta sama stig að það þarf ekkert að vera neitt vandamál að skipta yfir ef þess þarf. Slík breyting þarf ekki að vera erfiðara, og væri líklega auðveldari, en að uppfæra Windows. Fyrir utan að það er ekki fokdýrt.

Linux er sumsé ekki lengur bara fyrir nörda heldur er það notendavænt kerfi hér og nú. Nýtum okkur það.

Nú þarf ég bara að sannfæra Eygló.

Hrun harða disksins

Harði diskurinn í fartölvunni minni er eitthvað að gefa sig. Ég gat ekki komist inn í XP í gærkvöldi. Matti reddaði mér hins vegar tólum til að laga aðeins til á harða disknum þannig að ég gat eitthvað gert við hann. Núna er ég með Ubuntu (Linux) í gangi í tölvunni og nota það til að bjarga gögnum. Það er þægilegt að hafa stýrikerfi á geisladisk. Mp3 spilarinn minn er notaður til að ferja gögnin á milli.

Ég náði meðal annars að bjarga því sem ég var kominn með af viðtalinu sem ég var að skrifa upp. Ég er nefnilega nokkuð viss um að ég gleymdi að fleygja því inn í minnislykilinn.

Ég hef btw ekkert sofið í nótt.

Ubuntu tilraun

Ég er að gera tilraun með Ubuntu. Ég er samt ekki í Ubuntu akkúrat núna heldur bara í gamla góða Windows XP.  Það er langt í að ég skipti algjörlega um gír.  Ég var núna áðan að stilla bootskjá Ubuntu þannig að XP kæmi fyrst.

Ég hef reyndar lent í töluverðu veseni með uppsetninguna.  Það væri augljóslega auðveldara ef ég ekki með tvö stýrikerfi.  Þetta þurfti um þrjár tilraunir til að gera þetta almennilega en núna virðist allt virka vel. Ég hef líka lært heilmikið í leiðinni.

Vandamálið við Ubuntu er að ég er of vanur að nota mín Windows forrit. Ég þarf að skoða hvaða forrit ég get notað í staðinn. Ég veit ekki hvernig ég ætla allavega að prufa mig áfram.