Gormdýrið hefur snúið aftur eftir 46 ára hvíld. Ræsið prentvélarnar!
Áður en lengra er haldið, vil ég taka fram að ég er enginn aðdáandi gormdýrsins. Fígúran er að sönnu skemmtileg, en það hefur alltaf böggað mig að hafa furðuskepnu með ofurkrafta í myndasagnaheimi þar sem enginn annar býr yfir slíku. Gormurinn er deus ex machina.
En hann er sem sagt snúinn aftur í 55. Svals og Valsbókinni: Reiði Gormsins (d. Spirillens vrede, f. La colere de Marsupilami).
Franquin skapaði Gorm eins og raunar velflestar persónur Svals & Vals-heimsins aðrar en titilpersónurnar og íkornan Pésa. Vænst þótti honum um gormdýrið sem lék oftast nær stórt hlutverk í sögunum og ein bókin, Gormahreiðrið, fjallar nær einvörðungu um það.
Þegar Franquin hætti ritun S&V-bókanna vildi hann ekki sleppa þessu eftirlætissköpunarverki sínu og hóf ritun sjálfstæðra sagna um Gorm og fjölskyldu hans í frumskógum Palómbíu. Eftirmaður hans, Fournier, skældi það þó út að gormdýrið fengi að vera með í fyrstu S&V-bók sinni, Gullgerðarmanninum, til að venja lesendur við umskiptin. Franquin féllst á það, gegn því að fá sjálfur að teikna fígúruna. Síðan eru liðin 47 ár.
Fyrir nokkrum misserum eignaðist Dupuis-fyrirtækið, útgefandi myndasögublaðsins Svals, á ný útgáfuréttinn á sögunum um Gorm. Þar með opnaðist í fyrsta sinn í langan tíma möguleiki á endurkomu dýrsins í S&V-sagnaheiminn. Hún var boðuð í síðasta myndarammanum í næstsíðustu bók, Vikapilt á vígaslóð, sem útgáfan Froskur sendi frá sér á íslensku fyrir síðustu jól. Þar fengu Svalur og Valur í hendur ljósmynd sem sýndi þá sjálfa á ferðalagi í frumskóginum með hnuggið gormdýr lokað inni í búri…
Nýja bókin er sú fimmta frá Yoann & Vehlmann. Þeir eru ástríðufullir S&V-aðdáendur og þekkja söguna út og inn. Þeir hafa kynnt til sögunnar nýjar aukapersónur, en sækja þó mest í sagnaarfinn: Zorglúbb, Don Cortizone… og núna síðast fúlmennið Samma frænda.
Sammi frændi er með betri illmennum bókmenntasögunnar og stórkostlega vanmetinn í S&V-heiminum. Langt er síðan orðrómurinn fór af stað um að verið sé að vinna að bók sem fjallar um Samma og hvernig hann breyttist úr iðrandi syndara í lok Baráttunnar um arfinn í forherta fantinn í Niður með einræðisherrann! Það verður mögnuð saga.
Ekki er gert ráð fyrir að gormdýrið verði fastagestur í bókaflokknum og þeir Yoann & Vehlmann hafa ekki fengið grænt ljós á að nota það nema í þetta eina skipti, hvað sem síðar kann að verða. Sagan ber þess því nokkuð merki að þeir hafi ákveðið að nýta það til hins ítrasta.
Bókin byrjar gríðarlega vel. Höfundarnir koma með trúverðuga skýringu á því hvers vegna gormdýrið hvarf úr sögunni án þess að nokkur minntist á það aftur. Sú flétta inniheldur Samma frænda og Zor-geislana. Eftir fyrstu 12-13 síðurnar var ég kominn á þá skoðun að þetta yrði ein af bestu bókum sagnaflokksins. Svo birtist dýrið.
Eftir að gormdýrið kemur almennilega til skjalana breytist sagan verulega. Yoann & Vehlmann njóta þess að teikna skepnuna og gera svo sem vel, en plottið verður ekkert sérstaklega djúpt. Þetta eru höfundar sem kunna best við sig þegar slagsmál eða eltingaleikur eru í gangi og teygir sig yfir margar blaðsíður. Sammi frændi er góður. Mjög góður. Og með alskegg. – Hliðarflétta með að Valur sé vinnuþræll og hafi tapað ævintýragleðinni með því að hanga alltaf í tölvunni að senda pósta nær aldrei sérstöku flugi. Cliffhanger-inn í lokin er sömuleiðis slappur.
Heildareinkunn? Tjah, þetta er fín bók. Yoann & Vehlmann eru orðnir þaulvanir og ég gerir mér grein fyrir að andúð mín á gormdýrinu er mikil minnihlutaskoðun meðal Svals og Vals-unnenda. Þeir verða því ekki sviknir – og Froskur drífur hana vonandi út fyrir jólin.