Bakþankar og rakettur Úpps! Ekki

Bakþankar og rakettur

Úpps! Ekki byrjar það vel. Ég er ekki búinn að blogga nema eina færslu og strax er ég kominn með bakþanka vegna þess sem ég skrifaði. – Ef til vill voru það mistök að tilkynna formlega að nú væri maður byrjaður að blogga? Hefði ekki verið betra að henda lesendunum strax út í­ djúpu laugina án nokkurrar kynningar eða inngangs?

Þegar ég bjó í­ Skotlandi sí­ðasta vetur þá ákvað ég að reyna að fylgjast með einni sjónvarpssápu – þáttunum um Austurbæingana eða „East Enders“ (ég verð að fjalla betur um þá við tækifæri). Fyrst reyndi ég að setja mig inn í­ þættina undir leiðsögn, þar sem útskýrt var hver væri hver, hverjir hefðu sofið hjá hverjum o.s.frv. Þessi aðferð var bara ekki að virka og það var fyrst eftir að ég tók þá ákvörðun að setjast niður fyrir framan tækið nokkur kvöld og góna, að ég komst inn í­ plottið.
Grunnhugmyndin á bak við blogg, veruleikasjónvarp og sápuóperur er svipuð. Þess vegna er það misráðið að fara út í­ að „útskýra sögusviðið“, með því­ að verja fyrstu bloggfærslunum mí­num í­ að rekja bakgrunn minn. Slí­kar upplýsingar má hafa á undirsí­ðum, en ég nenni ekki að búa þær til.
Á anda þessarar stefnu, ætla ég að demba mér beint í­ að segja frá afrekum helgarinnar:

Vetrarhátí­ð Reykjaví­kur „Ljós í­ myrkri“ kláraðist á sunnudagskvöldið. Lokahnykkurinn fór fram í­ Elliðaárdalnum, meðal annars á safninu mí­nu. Þetta var vægast sagt algjör kleppur! – Það er ómögulegt að segja hversu margt fólk var samankomið þarna. Einhver giskaði á 7.000 manns. Það er svo sem ekkert vitlausari ágiskun en hver önnur.

Ég vildi að ég gæti talið sjálfum mér trú um að allar þessar þúsundir hafi mætt inn eftir með það fyrir augum að heyra mig ræða um sögu rafvæðingar í­ Reykjaví­k og skoða öll sniðugu rafmagnsfræðiverkefnin sem við á safninu höfum útbúið fyrir grunnskólakrakka. – Raunveruleikinn er því­ miður sá að sennilega hafa tveir þriðju hlutar hópsins bara komið vegna þess að Orkuveitan efndi til flugeldasýningar í­ lokin.

Ekki skil ég hvers vegna fólk er svona ginnkeypt fyrir flugeldasýningum. Ef maður hefur séð eina flugeldasýningu, þá hefur maður í­ raun séð þær allar. Svo detta flestir þessir rakettukarlar í­ þá gryfju að hafa sýningarnar of yfirþyrmandi. Einn stakur flugeldur sem skyndilega lýsir upp myrkrið í­ nokkrar sekúndur er flottur. Stanslaus djöfulgangur svo mí­nútum skiptir verður bara langdreginn.

Það eru örugglega tí­u ár sí­ðan ég hætti að hafa sérstaklega gaman af rakettum á gamlárskvöld. Á seinn tí­ð sting ég í­ mesta lagi út nefinu í­ fimm til tí­u mí­nútur rétt í­ kringum miðnættið. Stjörnuljós eru miklu skemmtilegri. Ég passa mig alltaf á að eiga stjörnuljósapakka til um áramótin.