Jæja, þá er komið að því“
Aldrei fór það svo að maður byrjaði ekki að blogga!
Ég hef fylgst með blogginu frá því að Björgvin Ingi kynnti fyrirbærið fyrstur manna hér á landi. Fyrstu bloggsíðurnar voru margar hverjar stórskemmtilegar og afar óvenjulegar miðað við annað efni sem finna mátti á íslenska hluta vefsins. Þar fór minna fyrir „Á gær leigði ég mér spólu og fékk mér popp“-færslum eins og tröllríða um þessar mundir, heldur voru ýmsir bloggarar að skrifa metnaðarfullar færslur um hugðarefni sín. – Vissulega má enn finna marga slíka penna, en því miður eru þau skrif orðin hlutfallslega minna áberandi þar sem magnið af drasli og smælki hefur vaxið geysilega.
Björgvin Ingi reyndi lengi að sannfæra mig um að byrja að blogga, en ég bar því alltaf við að ég hefði minn eigin vettvang. Ég ætti nóg með að skrifa á Múrinn (þar sem ég er ritstjórnarfulltrúi) eða þá á friðarvefinn (www.fridur.is) sem ég ritstýri. – Skrif á vefrit eru þó eðlisóskyld bloggi, auk þess sem það yrði bara til að æra óstöðugan ef ég myndi punda inn á þessi vefrit langhundum um mín fjölmörgu og sérstæðu áhugamál.
Byrjum þá að fara yfir nokkur praktísk atriði varðandi þessa síðu:
Hversu oft ætla ég að skrifa?
Tja, ætli það sé ekki best að byrja rólega – kannski svona tvisvar í viku. Það er betra að blogga sjaldan en almennilega í hvert sinn heldur en að skella inn einni til tveimur málsgreinum oft á dag.
Fyrir hverja er ég að skrifa?
Hmmm, góð spurning! Fyrst og fremst fyrir sjálfan mig og nokkra vini mína. Ég reikna t.d. ekki með því að reyna að pranga mér inn á tenglasíður hjá fólki út um allan bæ. – Hitt er annað mál, að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ótrúlegasta lið getur rambað inn á svona síður, þannig að auðvitað taka skrifin mið af því.
Hvaða hugmyndafræði liggur að baki?
Enn betri spurning! Ætli ég þurfi ekki að setja saman stefnuskrá við fyrsta tækifæri þar sem ég útskýri hana í smáatriðum.
Um hvað ætla ég að skrifa?
Allt milli himins og jarðar. Ég býst fastlega við að skrifa töluvert um bækur, s.s. Múmínálfabækurnar; tónlist; þjóðmál og hugmyndir mínar um lífið og tilveruna. Ég á aðeins eftir að melta það betur hversu persónulegar þessar pælingar mínar verða. Til dæmis myndi ég ekki skrifa mikið um fjölskyldu, vini eða kerlinguna mína ef ég héldi að slíkt gæti valdið einhverjum leiðindum.
Er þá eftir nokkru að bíða?
Nei, ætli það? Dembum okkur í bloggið!