Næsti bar á þriðjudagskvöldi…
Æiii – hvers vegna þurfti ég að glopra því út úr mér við Óla Njál í gærkvöld að ég væri byrjaður að blogga? Eins og búast mátti við hljóp hann strax heim til sín og tilkynnti þetta á síðunni sinni. Þar runnu út í sandinn áætlanir mínar um að láta þessa síðu spyrjast út smátt og smátt. Jæja, Óli Njáll er vænsta skinn. Kommi, spurningakeppnisnörd og krikketáhugamaður – alveg eins og ég.
Leiðin lá sem sagt á Næsta bar í gærkvöld, að afloknum félagsfundi dauðans hjá Reykjavíkurdeild Vinstri grænna. Fundurinn var ekki búinn fyrr en upp úr miðnætti og lauk þá með nákvæmlega sömu niðurstöðu og gera hafði mátt ráð fyrir frá upphafi. Eftir svona maraþonfundi væri það hreinlega ómannúðlegt að neita sér um bjór, enda var VG-fólk fjölmennt á Næsta bar í gær.
Þarna var öll ritstjórn Múrsins samankomin (nema náttúrlega Steinþór sem er í Kanada þetta árið). Raunar erum við Múrspaðar æ sjaldnar farnir að þora að mæta saman á Næsta bar, því ef Haraldur Blöndal er á svæðinu tekur hann undantekningarlítið strikið á hópinn og vill fá að ræða um stjórnmál og menningu, en þó einkum aðdáun sína á Jóhannesi úr Kötlum og hatur á Kristmanni Guðmundssyni. Sem betur fór var hæstaréttarlögmaðurinn hvergi sjáanlegur í gær og við gátum því um frjálst höfuð strokið.
Hverjir aðrir voru aftur á NB? – Jú, Óli Njáll eins og fyrr sagði; Trúbadorinn knái Sigvarður Ari, ásamt Guðnýju Hildi (einum af fulltrúum VG á R-listanum); Þór Steinarsson sem vinnur á skrifstofu flokksins og Helga kona hans voru þarna líka með einhverjum félaga sínum sem ég kann ekki að nefna. Þór virðist hafa klúðrað því að skrá Steinunni Þóru í VG, sem þýddi það að hún þurfti að sitja félagsfundinn án þess að hafa atkvæðisrétt. Ég hefði orðið foxillur yfir svona mistökum, en Steinunn tók þessu bara vel og eyddi kvöldinu í að ræða við félaga Stefán Jónsson.
Félagi Stefán er höfuðsnillingur, sem loksins er kominn með vinnu eftir að hafa mælt göturnar í nokkra mánuði. Hann er farinn að vinna á Vísindavefnum, þannig að núna verð ég að byrja að lesa þann vef reglulega.
Voru einhverjir aðrir mættir? – Ekki svo ég muni.
Ég kann nú alltaf best við Næsta bar af öllum knæpunum í miðbænum. Að sumu leyti er hann eins og rólegri útgáfa af gamla Grand rokk, áður en Grand rokk sló í gegn og fylltist af drykkfelldum blaðamönnum. Drykkfelldir blaðamenn eru eins og allir vita einhver hvimleiðasti þjóðfélagshópur sem til er.
NB er samt ekki gallalaus. Á fyrsta lagi getur hann troðfyllst um helgar þannig að ómögulegt er að fá sæti. Á öðru lagi eru þar ýmsir fastagestir sem best er að umgangast í hófi eða alls ekki. Á þriðja lagi er Beamish-inn alls ekki nógu vel framreiddur á Næsta bar. Miklu betra er að fara á Celtic Cross til að drekka góðan bjór. Þar má líka oft heyra í stórpopphljómsveitinni Tveimur dónalegum haustum. Hún er þekkt fyrir skemmtilegt lagaval, þótt oft sé þar spilað fremur af kappi en forsjá.
Jamm.