Ég blogga til að gleyma!
Stuna! Á morgun skutlaði ég Steinunni á spítala. Hún mun liggja inni í fjórar nætur og ég verð væntanlega eins og illa gerður hlutur á meðan. Ég er ekki í neinu stuði til að blogga neitt sniðugt, þar sem það myndi eflaust allt leysast upp í sjálfsvorkunn og barlóm.
Ætli þessi vika fari ekki í að drekkja sér í vinnu, horfa á fótbolta og drekka bjór? – Svo bætir ekki úr skák að stelpan liggur á Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði, þannig að það er maraþonakstur í hverja einustu heimsókn!
Annars fékk ég þær gleðifregnir á áðan að bíllinn minn sé kominn úr viðgerð hjá Edda K, bifvélavirkjanum mínum. Eddi K er einn mesti töffari sem ég hef kynnst. Einhverju sinni lenti ég í að standa yfir honum laga bremsukerfið í Mözdunni minni í hálfan dag þar sem við töluðum stöðugt um bíla og akstursíþróttir. – Ég veit ekkert um þessi efni, en reyndi að taka fullan þátt í samræðunum. Gott ef hárunum á bringunni fjölgaði ekki allverulega meðan á umræðunum stóð.
Annars er ég farinn að verja skuggalega miklum tíma hjá Edda K. Gæti verið að það myndi borga sig að skipta út bílnum fyrir nýrri týpu?