Ferðahugur
Enn einu sinni fellur maður í þá gryfju að halda að sumarið sé komið, bara vegna þess að guli bletturinn er búinn að láta sjá sig í einn dag. Þessir örfáu sólargeislar eru hins vegar búnir að koma mér í sannkallað sumarskap þannig að í hádeginu fór ég að spá í sumarfríinu.
Það er allt útlit fyrir að að Orkuveitan ætli að senda mig í heljarlangt sumarfrí, en til þessa hefur mér aldrei tekist að nýta alla þessar sumarfrísdaga. Svo dæmi sé tekið, þá liðu bara sex vinnudagar allt sumarið 2000 þar sem ég mætti ekkert til vinnu. Flesta frídaganna skrapp ég í vinnuna og vann kauplaust í nokkra klukkutíma eða nördaðist á netinu og las tölvupóst. En núna er sem sagt markmiðið að reyna að ná almennilegu sumarfríi og helst afreka eitthvað á meðan á því stendur.
Það sem liggur fyrir varðandi sumarið er eftirfarandi:
1) Horfa á HM í fótbolta í júní.
2) Skreppa til Norðfjarðar á heimaslóðir Steinunnar, þar sem trillukarlinn pabbi hennar er búinn að hóta því að fara með mig í veiðitúr. (Góði guð – láttu vera brælu!)
Þessu til viðbótar er ég kominn með eitursnjallt plan. Væri ekki rakið að nota skreppið á Norðfjörð til að taka Norrænu til Færeyja og stoppa þar í svona fimm daga? – Mig hefur í mörg ár langað til Færeyja og er sannfærður um að það sé rosalega gaman þar.
Spurningin er hins vegar, hvort ætli það sé betra að taka bíl með eða vera bíllaus? Væri bíll ekki bara óþarfa vesen? Allar ábendingar vel þegnar…