Súr aprílgöbb
Er það merki um að ellin sé að færast yfir mann – eða er aprílgöbbunum stöðugt að fara aftur?
Ég held að Ríkisútvarpið og/eða Bylgjan sé búin að nota Keikó sem aprílgabb a.m.k. þrisvar frá því að kvikindið kom til Íslands. Það að reyna að telja fólki trú um að hvalurinn hafi sloppið og sé á leiðinni inn í Reykjavíkurhöfn eða eitthvað álíka fer að komast í hóp með fyrirsjáanlegustu göbbunum ásamt hinum endalausu tilbrigðum við gabbið „ódýrar og/eða ókeypis utanlandsferðir/bensín/áfengi“.
Hvað með að reyna að sýna smá frumleika? Hver man t.d. ekki eftir gabbinu um það að til stæði að flytja Hljómskálann, þar sem búið var að koma krönum fyrir við húsið. Fólk var farið að skipuleggja mótmælaaðgerðir um allan bæ!
Annað dæmi um aulalegt aprílgabb mátti sjá á vefritinu Kreml. Þar var reynt að búa til sögu um að Kreml og Múrinn stefndu í sameiningu að því að hefja útgáfu Þjóðviljans á nýjan leik. Þetta „gabb“ náði hins vegar ekki að uppfylla þær kröfur sem gera verður til aprílgabba, þar sem það er ekki nóg að halda fram einhverri vitleysu – það verður að láta fólk „hlaupa apríl“, þ.e. fara erindisleysu á einhvern stað.
Kremlararnir hefðu þannig átt að hafa samband við okkur á Múrnum og fá okkur til að spila með. (Látum hér liggja á milli hluta þá staðreynd að við hefðum sennilega ekki nennt því.) Bæði vefritin hefðu þannig getað verið með frétt um málið, jafnvel sameiginlega fréttatilkynningu. Svo hefði mátt auglýsa stað og stund þar sem áhugafólki um útgáfuna gæfist kostur á að kynna sér málið betur – jafnvel fá ókeypis áskrift o.s.frv.
Menn verða aðeins að hugsa ! ! !