Mánudagsfærsla
Jæja, þá er helgin afstaðin og sennilega rétt að fara yfir stöðu og horfur af vettvangi baráttunnar:
Meginafrek helgarinnar fólst í því að ég Palli (sem hefur lítið bloggað eftir góða byrjun) og Steinunn (sem er eitthvað að hressast í blogginu), bjuggum til 600 barmmerki fyrir R-listann. Það var félagi Proppé sem fékk okkur til verksins.
Palli hannaði últrasvöl merki og notaði til þess hönnun sem við höfðum verið að velta fyrir okkur að nota fyrir Vinstri græna, en þar virðist ævintýramennska í hönnun ekki eiga upp á pallborðið. – Nema hvað, við gerðum þessi 600 merki núna um helgina og þurfum að gera 400 í viðbót til að klára pöntunina. Eitthvað segir mér að 1.000 merki dugi R-listanum engan veginn í heimsóknum sínum í framhaldsskóla og því verði pöntunin stækkuð. Þá er eins gott að slúbbertarnir í Bandaríkjunum sem við kaupum merkin frá geti afgreitt pöntun í hvelli.
– Það er rétt að taka það fram, að þessi barmmerkjaframleiðsla er ekki gerð í hagnaðarskyni. Við seljum merkin bara fyrir framleiðslukostnaði auk þess sem við erum að ná upp í stofnkostnað á gömlu pressunni (sem framleiðir einnar tommu merki) og festa kaup á nýrri pressu (sem framleiðir eina og hálfa tommu).
* * *
Sunnudagurinn fór að miklu leyti undir SHA-vinnu. Þar var ákveðið að ráðast í það um næstu helgi að dytta að kröfuspjöldum og fánum samtakanna. Sum hver mættu fá málningarslettur á stöku stað auk þess sem brýnt er að útbúa ný merki og slagorð. Það verður væntanlega handagangur í öskjunni á sunnudaginn kemur þegar við dembum okkur í þessa vinnu og ekki mun veita af vinnufúsum höndum – helst fólki sem dregið getur pensil skammlaust. Sjálfboðaliðar geta meldað sig hjá sha@fridur.is.
* * *
Á þriðju deildinni ensku tókst Luton að vinna enn einn leikinn um helgina og fóru því upp ásamt Plymouth og Mansfield. Það eru bjartir tímar fram undar hjá Luton og ég hef fulla trú á að liðið nái að komast upp úr 2. deildinni innan tíðar. Það væri þó ekki sniðugt að fara upp strax í fyrstu atrennu. Mörg lið hafa feilað á því að fara upp tvö ár í röð. – Að sama skapi er gleðilegt að sjá WBA í úrvalsdeildinni á nýjan leik. Verst að það skuli hafa gerst á kostnað Úlfanna.
* * *
Á gær skelltum við Steinunn okkur svo í bíó ásamt Palla og Hildi. Fyrir valinu varð nýja David Lynch-myndin í Háskólabíói. Þetta er rosalega töff mynd og fjölmargar frábærar senur. Hitt er svo annað mál að seinni hlutinn er gjörsamlega óskiljanlegur. Lynch er töffari og leikararnir fara margir hverjir á kostum!
* * *
Er BKI besta kaffi á Íslandi?
– Nei, svo sannarlega ekki! Það er algjört skólp.