No alla NATO!
Jæja, þá er þessi helgi búin og enn einu sinni kem ég þreyttari undan frídögunum en vinnunni. En afköstin voru góð. Á sunnudaginn var skiltalager herstöðvaandstæðinga tekinn í gegn og búin til skilti með slagorðum gegn NATO á fjölda tungumála – þ.á.m. á ítölsku, pólsku og grísku.
* * *
Ég er augljóslega óður kommi ef marka má þetta stjórnmálapróf sem írmann vísaði í. Ég fæ 8,1 á frjálslyndisskalanum en 8,5 á vinstri/hægri skalanum í efnahagsmálum. Mér sýnist ég vera harðari en Tony Benn!
* * *
Á gær tókum við Steinunn á móti Evu, sem er þýsk stelpa á leiðinni til Borgarfjarðar eystri að vinna á sveitabæ. Eva segist hafa verið í Edinborg um leið og ég að læra lögfræði og að við höfum hist einu sinni, á úrvalsbarnum Standing Orders – ég man ekkert eftir því. Hún er hins vegar vinkona Thorstens, kunningja míns frá Hamborg og það er því fyrir hans milligöngu að ég ákvað að lána Evu íbúðina mína. – Aumingja stelpan varð heldur kindarleg þegar hún sá kvöldfréttirnar í gær, með myndum af mannhæðarsköflum á Austurlandi. Það er alls óvíst hvort flogið verður til Egilsstaða í dag og hún gæti því orðið veðurteppt í bænum. – Það vona ég að gerist ekki, þó ekki væri nema vegna þess að ég er búinn að boða Kjartan félaga minn á Hringbrautina í kvöld að sjá Arsenal klára ensku deildina.
* * *
Mikið er nú leiðinlegt að Stók skyldi hafa klúðrað þessu í gær. – Einu sinni skrifaði ég 10 greina bálk á vefritið Sleggjuna (blessuð sé minning þess) um Stók. Hann nefndist „Stók er djók!“ – Þeim titli stal síðar ræflarokkarinn Ceres 4 og notaði í afbragðsgóðu lagi.
Jamm.