Strokið um frjálst höfuð…
Loksins! Loksins!
Nú er öll friðarráðstefnu- og NATO-mótmælageðveikin að baki. Ég er úrvinda, en ákaflega hamingjusamur.
Ráðstefnan var frábær. Erindin sem þar voru flutt voru rosalega góð og fyrirlesararnir reyndust hið skemmtilegasta fólk. Viðtölin sem þau komust í tókust undantekningarlaust vel og ég hef fengið gríðarlega góð viðbrögð við viðtali Egils Helgasonar við Söru Flounders. Sara er hörkutól sem hefur heimsótt tugi stríðshrjáðra ríkja. Þar á meðal írak, Súdan og Palestínu. Á síðastnefnda staðnum tókst henni að smygla fjöldanum öllum af myndbandsupptökum af viðtölum við Palestínumenn fram hjá ísraelskum landamæravörðum, sem tættu í sundur farangur hennar og samferðarfólks hennar. Hún hefur nokkrum sinnum lent í háskalegum aðstæðum, s.s. í löndum þar sem borgarastyrjaldir fóru fram. – Menn geta verið sammála því sem Sara Flounders hefur að segja eða ósammála, en það er ótrúlegur hroki þegar blaðamenn sem skotist hafa í tvær til þrjár pakkaferðir á vegum NATO telja sig geta blásið á skoðanir hennar með þeim orðum að „svona fólk sé ekki í jafnvægi“. – Nú tel ég mig þekkja nógu vel til á Mogganum að vita að stórmennskubrjálæði er ekki forsenda þess að blaðamenn séu ráðnir þar til starfa,… en það hjálpar.
Ég lenti í allmörgum viðtölum vegna mótmælanna og ráðstefnunnar. Það er sláandi hvað NATO-sinnarnir tönnlast nú á því hvað mikilvægi NATO sé mikið. Mín reynsla er nú sú að ekkert sé öruggara merki um tilgangsleysi og tilvistarkreppu en að hamra á eigin mikilvægi. – Steininn tók þó úr þegar Halldór ísgrímsson fór að tala um „hið mikilvæga hlutverk sem Íslendingum sé ætlað innan NATO varðandi samskiptin við Rússa“ – þar nefndi utanríkisráðherra það sérstaklega að Íslendingar gætu bjargað rússneskum sjómönnum úr sjávarháska ef færi gæfist!!! – Haag? Hversu langt er hægt að seilast í aularökum? – Hefðum við ekki bjargað Rússum í hafsnauð ef NATO-fundurinn hefði ekki komið til?
And-NATO rokktónleikarnir á Gauknum voru flottir. Þeir sem stóðu að þeim eiga heiður skilinn. Eins munu tónleikar Sigga pönk í Tjarnarbíói hafa verið öflugir.
Steinunn er byrjuð að vinna. Vonandi bloggar hún um það sem fyrst.
Sverrir Guðmundsson kom til starfa á minjasafnið í dag. Mér líst vel á þetta samstarf.
Á áðan náði ég í íhluti í 10.000 barmmerki. Á kvöld mun Palli prenta út merki. Sjálfur ætla ég að malla eitthvað í kvöldmatinn, líta svo á úrslitaleikinn í Meistaradeildinni og enda kvöldið í huggulegheitum uppi í sófa. Spurning um að renna við í ríkinu á leiðinni heim og pikka upp eina góða frá Chile?