Bloggað á hlaupum…
Jæja, þá er best að nota tækifærið á meðan ég bíð eftir krakkagríslingum úr Fellaskóla til að blogga smávegis.
Annars geri ég ekki ráð fyrir að þurfa mikið að hafa ofan af fyrir þessum skólahópi. Óli Guðmunds er að vinna í dag og hann getur varla beðið eftir að sjá hvernig nýr tilraunabás sem hann var að hanna kemur út. Þetta er fín og einföld tilraun með sterkum segulstálum. Helsti ókosturinn er sá að fólk má helst ekki koma of nálægt tilrauninni með greiðslukortin sín, því að segulröndin á kortunum á það til að fara í steik. – Hóhóhó… það er alltaf svo gaman þegar við fáum nýjar tilraunir í Rafheima!
* * *
Á gær þrykktum við Palli og Steinunn út nokkrum barmmerkjum fyrir Dalvíkurlistann. Á eftir þarf ég svo að koma þeim í flug.
Við vildum ekki afgreiða alla pöntunina að norðan í einu, þar sem við og verkkaupinn erum mjög á ólíku máli um það hvernig best sé að útfæra þetta. – Palli hannaði töffaraleg einnar tommu merki, en Dalvíkingarnir vilja eina og hálfa tommu með ljótri hönnun sem minnir helst á lúkkið sem var á vefsvæðinu Strikinu í upphafi. Með því að gera 50 af hvorri týpu erum við að vonast til að þeir sjái ljósið.
Á kvöld þarf svo væntanlega að búa til fleiri merki fyrir R-listann, auk þess sem við skuldum ennþá krökkunum í Heimsþorpi, samtökum gegn kynþáttahatri. – Er hægt að hugsa sér betri leið til eyða föstudagskvöldi? Varla!
* * *
Á sunnudaginn er stefnan tekin upp á Skaga, þar sem Begga frænka er að skíra litla gríslinginn. Það verður mikið umstang í kringum þetta barn í ættinni, þar sem þetta er fyrsta langafa- og langömmubarnið hjá afa og ömmu á Neshaganum. Jórunn frænka vildi greinilega ekki vera eftirbátur litlu systur sinnar í þessum efnum og á von á krakka með haustinu. – Væntanlega léttir þetta mestu pressunni af okkur hinum frændsystkinunum að fara að fjölga mannkyninu alveg í bráð. Mikið er það nú gott!
Sunnudagskvöldið bjóða gömlu út að borða, væntanlega á Holtið eða eitthvað svipað. ístæðan? Jú, Atli mágur er að klára lyfjafræðina. Nú hef ég fylgst með þessu lyfjafræðinámi hans úr fjarska og verð að segja að lyfjafræðinemar hafa valdið mér miklum vonbrigðum. Ég hélt að þeir væru hálf-maríneraðir megnið af tímanum í öllum þessum læknaspíra. Þjóðsögurnar voru þá ekki sannar eftir allt saman…
* * *
Mánudagskvöldið setur mig hins vegar í nokkra klemmu. Þannig er að okkur Steinunni er boðið í mat til tengdó. Hún á nefnilega afmæli sem og Guðmundur mágur minn. Tengdó gerir góðan mat og yfirleitt eru kvöldverðarboðin hjá henni prýðileg skemmtun.
Á móti kemur að Framarar eru að spila í Kebblavík sama kvöld í fyrstu umferð Íslandsmótsins. Valið stendur sem sagt á milli þess að fara í huggulegt kvöldverðarboð og að mæta á skítaleik í skítaveðri í skítapleisinu Kebblavík. Framararnir munu örugglega tapa, ég verð vonsvikinn, kaldur og kvefaður – Steinunn verður pirruð og tengdó svekkt.
Að öllu þessu samanlögðu er valið einfalt. – …ég mæti til Kebblavíkur.