Heimilisfriðnum borgið…
Hjúkk! Góður lesandi ákvað að benda mér á það vegna síðustu færslu, að leikurinn gegn Kebblavík sé klukkan 17 en ekki kl. 19. Það þýðir að ég kemst á völlinn OG get mætt í afganga hjá tengdó um kl. 20. – Jæja, þá ætti ég að losna við mestu skammirnar og er ekki algjör durtur!
Annars verð ég að fara að skipuleggja sumarið í kringum fótboltann. Það er HM í júní sem mun taka drjúgan hluta af tíma mínum. Svo eru ekki nema þrír útivallarleikir sem hætt er við að maður missi af hjá Fram – það eru leikirnir gegn íBV, Þór og KA. Ég hlýt að geta platað Steinunni norður á KA-leikinn í lokaumferðinni, en líklega eru tvær Akureyrarferðir á einu sumri of mikið. Þá er Eyjaleikurinn of nærri verslunarmannahelgi til að ég nenni að fara út eftir í hann. Svo á ég alveg eftir að tímasetja Færeyjaferðina sem enn er á dagskránni. – Spurning um að fara í lok júní eða byrjun júlí, því frá 24. júní til 9. júlí er bara einn leikur (16 liða úrslitin í bikarnum).
Það er alltaf svo gaman þegar fótboltinn byrjar! Ég er sannfærður um að þetta verður tímabilið sem Þorbjörn Atli nær að blómstra. Ég spái honum markakóngstitlinum!
Verst að afa gengur frekar hægt að jafna sig af sýkingunni sem hann fékk á dögunum. Hann fer hvorki lönd né strönd um þessar mundir og kemst örugglega ekki á völlinn í bráð.