Hitabylgja í Reykjavík…
Más og blás. Það er hræðilega heitt núna í Reykjavík. Varla að manni standi á sama í ljósi fregnanna frá Indlandi um að hundruðir manna hafi farist úr hita – þótt sennilega sé hitinn þar aðeins fleiri gráður.
Við Steinunn skriðum fram úr upp úr hádegi og rukum beint niður á R-lista með 600 barmmerki sem við þrykktum út í gærkvöld. R-listafólkið er að eipa yfir að hafa ekki nógu mörg merki og skældu það út að fá að senda hönnunina hans Palla til fyrirtækis út í bæ. Á ljós kom að það fyrirtæki er ekki að vinna þetta neitt hraðar en við, auk þess sem það getur bara gert 1 og 1/2 tommu, en ekki 1 tommu. Synir GSP eru þeir einu sem geta gert þá stærð af merkjum – enda rúlum við á merkjasviðinu.
* * *
Á kvöld ætlar R-listinn svo að standa fyrir tónleikum í miðbænum, m.a. að Ara í Ögri þar sem 5ta herdeildin spilar. Nú er Ari fínn bar og 5ta herdeildin stórskemmtilegt band, þannig að þetta ætti að steinliggja. – Vonandi verða leiðindagaurar á borð við Rígmontna rembimennið hvergi nærri.
* * *
Ein nostalgísk pæling að lokum. – Man fólk almennt eftir poxinu? Poxið var litlar pappaskífur með myndum af: handboltamönnum/tónlistarfólki/húðflúrsmyndum o.s.frv. Þetta keyptu krakkar í stórum stíl og gátu svo spilað upp á pox-skífur með því að varpa „sleggju“ (einhvers konar málmskífu) ofan á pox-stafla og reynt að dreifa þeim yfir sem stærst svæði.
Hvers vegna er ég að rifja þetta upp? – Jú, ég kynntist poxinu í gegnum félaga mína sem voru í skátafélaginu Ægisbúum. Einhverjir yfirskátar þar fluttu poxið til landsins og stórgræddu á því. Lagerinn var geymdur í skátaheimilinu, þaðan sem hægt var að stela bílförmunum af þessu. Hins vegar var íslenska poxið alltaf frekar skúnkalegt þar sem hverri skítahljómsveitinni var leyft að vera með – handboltapoxin gengu einkum út á að sýna þjóðfána hinna og þessara landa sem kepptu á HM95 o.s.frv.
Skyldi poxið slá í gegn aftur? – Ég leyfi mér að draga það í efa.