Dagbók kosningadagsins…
Vá, það er gott að svona dagar komi ekki nema á nokkurra ára fresti.
Kosningadagurinn hófst á því að við Valur húsfélagsformaður renndum við í Hagaskólanum til að kjósa. Því næst var stefnan tekin til Grindavíkur. Á leiðinni furðuðum við okkur á því hvað veðrið væri gott – hvort að það gæti virkilega verið að við fengjum logn í Grindavík? En um leið og fram hjá fjallinu Þorbirni var komið, rann upp fyrir okkur að sú yrði ekki raunin. Það er alltaf rok í Grindavík!
En svo allrar sanngirni sé gætt, þá var veðrið ekki alslæmt. Vindurinn var hlýr og það rigndi hvorki né var völlurinn blautur. Það væri synd að segja að leikurinn hafi verið fjörugur, en Framararnir börðust og tókst að koma til baka eftir að hafa lent undir. Nú eru tvö stig komin í hús í jafnmörgum leikjum – og þeim báðum á útivelli suður með sjó. Þetta verður vissulega erfitt tímabil, en það er rosalega margt jákvætt í gangi. T.d. er Bjarni Hólm, nýji strákurinn í vörninni frá Seyðisfirði, helvíti efnilegur. Sterkur pjakkur sem getur lumbrað á hverjum sem er. – Við verðum að vinna Vestmannaeyjar á þriðjudaginn. Það skiptir einfaldlega öllu máli fryrir framhaldið!
* * *
Eftir leikinn lagði ég mig til að hlaða batteríin fyrir kvöldið. Það fór ekki betur en svo að ég svaf yfir mig og þurfti að spæna af stað í búðina og svo til Palla og Hildar í grillið. Kom fyrir vikið inn í mitt Júróvísíón. Ekki gat ég haft miklar skoðanir á þessum lögum, en það er samt alltaf stuð að horfa á stigatalninguna. – Það dró líka dálítið úr fjörinu að geta ekki verið að lepja bjór á meðan á þessu stóð. Ég var nefnilega búinn að lofa mér í umræður í kosningasjónvarpinu hjá RÚV um nóttina og ekki mætir maður þangað á sneplunum.
* * *
Svo fóru tölurnar að detta inn úr sveitum landsins. Úrslitin í Reykjavík voru fín – en eiginlega voru allar skoðanakannanirnar búnar að taka fúttið úr þessu. Komm on! Það var augljóst í margar vikur að borgin ynnist.
Útkoman víða annars staðar á landinu var ekki alveg nógu góð. T.d. var Huginn dálítið langt niðri vegna Hafnarfjarðarins, þar sem hann var kosningastjóri, þegar hann mætti til Palla síðar um nóttina. Hann þarf þó ekki að kenna sjálfum sér um þessar niðurstöður. VG stendur ekki nægilega styrkum fótum í Friðinum, Samfylkingin er með fullt af fínu fólki á sínum lista og Lúðvík Geirssson viðurkenndi það meira að segja þarna um kvöldið að fjöldi kjósenda Samfó væri í raun stuðningsmenn VG sem söðlað hafi um til að fella íhaldið.
* * *
Um miðnættið fór ég upp í Útvarpshús og lét mér leiðast þar fram yfir kl. 2. Á umræðunum var ég ásamt Guðjóni Ólafi Framsóknarmanni og Sigurði Kára frá Sjálfstæðisflokknum. Síðar bættist við Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sigurvegari kosninganna í Mosfellsbæ. Ragnheiður er Framari eins og við Siggi Kári. – Það er það sem mér þykir verst við Safamýrarstórveldið – hvar þar eru margir Sjálfstæðismenn í stuðningsmannaliðinu. (Eða öllu heldur, hversu hátt hlutfall þeirra er.)
* * *
Ég komst ekki aftur í partýið til Palla fyrr en eftir dúk og disk. Þá var írmann á bak og burt, en Stefán Jónsson, Óli Njáll, Huginn og Dagný, Þór og Helga, Palli og Hildur og Steinunn öll búin að skvetta rækilega í sig.
Kúrsinn var tekinn á 22 – þar sem fréttist að Ólafur F. Magnússon væri endanlega kominn inn í borgarstjórnina. Það eru merkileg úrslit!
* * *
Á 22 rakst ég fljótlega á Lilju Dögg Alfreðsdóttur, gamla skólasystur úr MR. Hún fór að rífast við mig um pólitík og var mikið niðri fyrir. Rifrildið, sem einkum snerist um alþjóðavæðinguna, þróaðist nokkuð sérkennilega og var orðið drepleiðinlegt síðasta hálftímann. Þessu næst svifu á mig þeir Gestur Páll Reynisson og Kolbeinn H. Stefánsson – eðalkratar sem eru skúffaðir yfir því hvað Samfylkingin sé ömurlegur flokkur. Ég hef farið svo oft í gegnum þessa umræðu með Kolla að ég gæti gert það í svefni. – Alltaf enda samtölin svo á því að hann barmar sér yfir því að hafa misst okkur Múrverja yfir í VG en sitji svo eftir með Birtingar-arminn úr Abl.
* * *
Klukkan var líklega orðin hálf sex þegar við Steinunn ákváðum að yfirgefa 22. Það hefði ekki mátt seinna vera, því Steinunn var í þá mund að fara að kýla einhvern dreng sem hún hafði farið að rífast við um stöðu láglaunahópa. – Inn í þá umræðu blandaðist svo téð Lilja Dögg, en rök hennar í málinu voru eitthvað á þessa leið: „Það er verra að vera fátækur í Súdan en á Íslandi. Þess vegna mega Íslendingar ekki kvarta yfir einu eða neinu – eða krefjast neinna umbóta heima fyrir.“ – Pottþétt rök!
Það tók óratíma að komast í gegnum miðbæinn. Stöðugt var eitthvað fólk að svífa á mig ig vildi fara að ræða um NATO. Ótrúlegt hvað margir virðast hafa séð þessi sjónvarpsviðtöl um daginn… – Það var sem sagt ekki skriðið upp í rúm fyrr en á sjöunda tímanum. Ég er ekki átján ára lengur. Ég er orðinn of gamall fyrir þetta helvíti.