Gula ógeðið…
…skín inn um gluggann á skrifstofunni minni og gerir mér ífið leitt. Væri hægt að banna gott veður á Íslandi nema eftir vinnu og um helgar? – Annars grunar mig að þetta sé fyrst og fremst gluggaveður.
* * *
Úrslitin í gær voru hræðileg! Ef ekki hefði komið fyrir Birki Kristinsson, þá hefði Fram unnið létt. En því var ekki að skipta – því miður.
Það gleðilegasta við leikinn var líklega að afi lét sig hafa það að mæta. Djöfuls kraftur er alltaf í gamla manninum að djöflast á alla leiki með Frömurunum. Ég ætla að verða aldraður æringi á öllum fótboltaleikjum eins og afi þegar fram líða stundir.
* * *
Vinnan við erindið mitt á Söguþinginu hans Sverris gengur bærilega. Vandamálið er hins vegar að ég þarf að reyna að stytta þetta aðeins. Það er alltaf erfiðast að stytta! – Næst þarf ég að hafa áhyggjur af ræðunni minni á þingveislu Söguþingsins á laugardag. – Ég hata tækifærisræður! Af hverju læt ég alltaf pata mig til að halda þær???
* * *
Steinunn var í fríi í vinnunni í dag. Ekki er að sjá að hún hafi notað tækifærið til að blogga eins og hún þó lofaði á áðan! Hún sér svo sem fram á náðuga tíma í júní. Fyrst er Söguþingið, svo HM með stöku íslenskum fótboltaleik inn á milli.
Á hvaða nám á ég að senda stelpuna í Háskólanum? Skráningin hlýtur bráðum að fara að byrja og henni dettur bara ekkert í hug! Sendið uppástungur á skuggabaldur@hotmail.com
* * *
Oft hefur stúdentapólitíkin verið á lágu plani, en ég held að nýjasta útspilið sé botninn. Núna er önnur hreyfingin farin að slá upp einhverjum bloggpistli eftir stelpu af hinum listanum. Er ekki alveg eins gott að fara bara að hætta þessu frekar en að eyða tímanum í að rífast um svona vitleysu?
* * *
Jæja, best að fara að tygja sig. Einkum ef maður ákveður að skella sér í krikket í kvöld ásamt góðum mönnum.