Bloggað gegn uppnefnum…
Jæja, nú hef ég ekki bloggað í nokkra daga og líklega eins gott að fara að taka sig á því annars mun írmann eflaust fara að gefa mér uppnefni á borð við „aumingjabloggara„.
Hef ég þá frá einhverju að segja eða um eitthvað að fjalla? – Tja, frá síðasta bloggi erum við Steinunn búin að bjóða gömlu hjónunum í kvöldmat. Það var þrælfínt, en minnti mig líka rækilega á að nú þarf ég að undirbúa fimmtugsafmælið hjá gamla í næstu viku. – Ég er raunar með flotta gjöf í vinnslu, en ekki verður ljóstrað upp um það frekar hér. (Þó að pabbi lesi aldrei þessa bloggsíðu – a.m.k. ekki svo ég viti til.)
* * *
Á gær, laugardag, var horft á fótbolta fram eftir morgni, en seinnipartinn var settur á Múrverjafundur, eins og lesa má um hjá Sverri. Á Ara í Ögri að fundi loknum hittum við Mella. Hann og Stebbi frændi munu segja frá Palestínuferð sinni á fundi sem SHA og Ísland-Palestína halda á morgun kl. 17. Lesið allt um það á Friðarvefnum – það er óhætt að mæla með þessum fundi.
Eftir langa og góða setu á Ara, hrökkluðumst við Sverrir og Kolbeinn burt eftir að þekktur myndlistarmaður hafði setið við borðið okkar full lengi og var farinn að ryðja um koll glösum.
* * *
Gærkvöldið fór svo í að vinna í afmælisgjöf gamla mannsins, senda út fréttatilkynningar fyrir fundinn á morgun, drekka bjór og góna á sjónvarpið heima hjá Palla og Hildi. Steinunn var úti að borða með norrænum ráðstefnugestum og hringdi ekki í mig fyrr en upp úr klukkan eitt. Þá var hún mætt á Kaffi Reykjavík, sem á sér þá skýringu að það er einn fárra staða með þokkalegu hjólastólaaðgengi fyrir Lonní vinkonu hennar.
Það væri synd að segja að ég sé mikill aðdáandi Kaffi Reykjavíkur, einkum þykir mér blóðugt að borga 1.000 kall inn á svona stað. Það var líka eins og við manninn mælt að um leið og ég settist við borðið hjá stelpunum svifu á mig menn sem vildu ræða um pólitík, á þeirri forsendu að ég væri „harðasti vinstri-græni maðurinn á landinu!“
Annar þeirra sagðist vera úr Eyjum og gerði lítið annað en að hamra á því að það væru vitleysingar í Reykjavík og þá helst vinstri-grænir sem vildu að allir byggju á mölinni og að „enginn mætti gera neitt úti á landi“. – Það er svo sem ágætis tilbreyting í því að sitja undir þessum skömmum, því að yfirleitt er ég vanari ræðunni um sveitavargaflokkinn VG með Jóni Bjarnasyni í broddi fylkingar.
Hinn var frá Norðfirði og vildi ólmur ræða um álver og virkjanamál. Samtalið þróaðist eitthvað á þessa leið í nokkuð styttri útgáfu:
Norðfirðingur: „Það er nú meira ruglið og vitleysan sem þið vinstri-grænir standið fyrir. Ég er afskaplega ósammála þér í öllu varðand virkjanir, stóriðju og stöðu landsbyggðarinnar.“
Stefán: „Jamm og jæja.“
Norðfirðingur: „Já, við verðum að virkja. Þið virðist bara ekki skilja það og eruð í tómu tjóni! Það verður að gera eitthvað fyrir austan.“
Stefán: „Jamm og jæja.“
Norðfirðingur: „Þú verður bara að kynna þér málið betur. Þetta er rosalega sniðugt dæmi og þeir sem ekki sjá það eru bara í einhverju rugli. Þú ert með afskaplega vondar skoðanir.“
Stefán: „Kærastan mín er frá Norðfirði.“
Norðfirðingur: (Snýr á punktinum) „Já, enda ertu höfuðsnillingur og allt sem þú segir er satt og rétt og skynsamlegt. – Norðfirðingar eru langflottastir.“
– Ég er ekki fjarri því að ég hefði getað skráð manninn í flokkinn í lok samtalsins.