Enn af stjörnuspám
Höldum nú áfram að rifja upp stjörnuspánna úr Tímanum:
Þig grunar að konan þín sé þér ótrú. Verður þá til þessi vísa:
Alla kalla
ætti að malla,
sem eru að bralla
ljótt með Halla
– meina Höllu.
Þetta er náttúrlega snilld!
* * *
Eins og lesa má um annars staðar, styttist óðum í Færeyjaferð. Ljómandi verður gaman þá!
Á leiðinni austur er ætlunin að heilsa upp á báðar tengdaömmur mínar – í Húnavatnssýslunni og á Egilsstöðum. Kannski nota ég tækifærið og renni við hjá Steinþóri Heiðarssyni, en hann er héraðshöfðingjasonur frá Tjörnesi.
Þetta flandur gerir það að verkum að ég missi af tveimur leikjum með Safamýrarstórveldinu. Bikarleik gegn skítaliðinu KR og heimaleik í deildinni gegn KA. Það er fúlt. – Enn ömurlegra væri ef satt reynist að Þorbjörn Atli verði ekki með okkur gegn Skaganum í kvöld. Þá eru Framarar í vondum málum, því Þorbjörn Atli er vitaskuld besti leikmaður Landsímadeildarinnar.
* * *
Því miður get ég ekki orðið við áskorunum góðra manna þess efnis að ég taki saman pistil um tímamælingar á sjó, þar sem ég missti að mestu af sjónvarpsmyndinni í gær. Ekki það að ég hafi ekki verið að horfa á sjónvarpið, en á sunnudagskvöldum er BBC Prime oft með ágætis úrval af gamanþáttum. Á gær horfði ég á glefsur úr Bottom, Only Fools & Horses og Yes, Minister – það er ekki amalegt. Þá greip ég í gamla spólu með Simpson-þáttum frá 1996 sem ég hef ekki séð í óratíma. – Með öðrum orðum: gott kvöld í sjónvarpsglápinu.
* * *
Það blæs ekki byrlega með frídaginn sem ég ætlaði að taka mér í vinnunni á morgun. Nú er búið að boða blaðamannafund hér á Minjasafninu til að kynna nýja bók um skordýr í Elliðaárdalnum og gönguferðir á vegum fyrirtækisins í sumar. Að þessu tilefni settum við hér á safninu upp litla tjörn í sýningarsalnum, sem er full af vatnakarfa sem við veiddum í Grasagarðinum. (Vorum hálf álkulegir með háfa og tíu lítra Gunnars-mæjónesdunka.) – Þessi kvikindi geta svo blaðamennirnir skoðað á morgun í víðsjá. – Minjasafnið rokkar á þessu sviði sem öðrum.
Edda sem sér um ræstingarnar eipaði raunar þegar hún frétti af þessum áformum. Einkum eftir að við sögðum henni að vatnakarfinn myndi skríða oní parketið og spretta upp næstu mánuðina.
* * *
Hóhóhó, hvað það verður gaman að fara á Mánagötuna í kvöldmat. Steinunn er að búa til heimagerðar fiskbollur úr ýsuflökum að austan.
Jamm.