Merkilegustu menn skólans? Svenni Guðmars

Merkilegustu menn skólans?

Svenni Guðmars rifjar upp á blogginu sí­nu skemmtilegt atvik úr MR, þegar ég, Örn Úlfar Sævarsson og Barði Jóhannsson létum útbúa af okkur plakat með yfirskriftinni „Merkilegustu menn skólans“ og fengum birt í­ Skólatí­ðindum. Svenni hvetur mig til að rifja upp þessa sögu, en tyggur upp þá gömlu klisju í­ frásögn sinni að við félagarnir höfum borgað fyrir myndbirtinguna. Það er hins vegar alrangt.

Þannig er mál með vexti, að vorið 1993 þegar við Barði vorum í­ fjórða bekk en Örn í­ sjötta bekk, þá fékk Barði þá hugmynd að vel færi á því­ að prentað yrði plakat af honum í­ einhverju af blöðunum sem gefin voru út í­ skólanum. Hann orðaði hugmyndina við okkur Örn Úlfar og við gáfum honum vilyrði fyrir því­ að sitja fyrir á svona plakati ef einhver ritstjórnin fengist til að birta það. – Töldum við þó fremur ólí­klegt að nokkur fengist til þess.

Um þær mundir var ritstjórn Skólatí­ðinda skipuð nokkrum sjöttubekkingum, hinu svokallað Lomma-gengi, en í­ því­ var meðal annars Guðbrandur Benediktsson höfuðsnillingur og starfsmaður Ljósmyndasafns Reykjaví­kur. Einhverra hluta vegna gekk þeim ritstjórnarmönnum heldur illa að afla auglýsinga í­ blaðið, en Skólafélagið sem Svenni var ritari í­ skikkaði ritstjórnirnar til að fjármagna blöð sí­n að mestu eða öllu leyti með eigin auglýsingaöflun.

Barði gekk á fund Skólatí­ðindamanna og lýsti þeirri skoðun sinni að vel færi á því­ að birt yrði plakat á miðoppnu blaðsins með mynd af okkur þremenningum. Ritstjórnin sagði Barða að fara í­ rassgat – sem vonlegt var. Þá spurði hann hvort útilokað væri að fá þá til að breyta afstöðu sinni og fékk þau svör að ef Barði myndi afla hálfsí­ðu auglýsingar í­ blaðið, þá gæti hann fengið myndina birta.

Barði brást glaður við og gekk niður á ljósmyndastofuna andspænis Þjóðleikhúsinu (þar sem nú er Alþjóðahúsið og hið frábæra kaffihús, Kaffi kúltúr, sem allir skyldu heimsækja). Hann ræddi þar við ljósmyndarann og benti á að nú styttist í­ stúdentsútskriftir og hann gæti boðið honum góðan dí­l á hálfsí­ðuauglýsingu í­ skólablaði í­ MR, fyrir ákveðna upphæð og eina ljósmynd af sér og tveimur vinum sí­num. Ljósmyndarinn gekk að þessu og Barði gat gengið hróðugur á fund Skólatí­ðindamanna tuttugu mí­nútum eftir fyrra samtal þeirra og tilkynnt að málið væri frágengið.

Auðvitað varð ritstjórnin drullusvekkt yfir að hafa látið plata sig svona og yfir að hafa ekki fattað að ganga á fund ljósmyndastofa í­ borginni – en þeir gátu ekkert sagt og plakatið birtist. – Til að halda andlitinu, kusu þeir hins vegar að dreifa þeirri sögu að við Örn og Barði hefðum borgað stórfé fyrir birtinguna, sem var tóm tjara.

Og þannig, börnin mí­n, hljóðar sagan af plakatinu „merkilegustu menn skólans“.

– Verst að ég á ekki eintak af því­ sjálfur. Skrambans!