Blogg um vegamál…
Jamm, alveg vissi ég jarðgangagrein mín á Múrnum í dag færi í taugarnar á einhverjum. ígústi Flygenring er a.m.k. ekki skemmt ef marka má skrif hans. Hann veltir því meðal annars fyrir sér hvernig jarðgangaárátta mín (og ég viðurkenni að ég er með jarðgangadellu) samræmist umhverfisverndarstefnu. Það er ágætis ábending og vissulega geta jarðgöng verið lýti á umhverfinu að ekki sé nú talað um allan útgröftinn.
Færeyingar eru raunar mjög skynsamir í þessu efni, því að þeir sturta sjaldnast því efni sem fellur til við framkvæmdirnar beint út í sjó, heldur slá tvær flugur í einu höggi og nýta það til annarra framkvæmda, s.s. til hafnargerðar. Þannig er afar algengt að jarðgangagerð og hafnarframkvæmdir séu hafðar „saman í pakka“ þar í landi. (Nokkuð sem vert væri að athuga varðandi göngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.
Þá tel ég að jarðgöng geti fremur bætt ásýnd fjalla en verið lýti á þeim, því að oftar en ekki er göngum einmitt ætlað að komast hjá því að leggja þurfi bílvegi meðfram fjöllunum með tilheyrandi jarðraski. Tökum sem dæmi Ólafsfjarðargöngin. Ljóst er að ef reynt hefði verið að bæta veginn fyrir Ólafsfjarðarmúlann án ganga, hefði þurft að ráðast í gríðarlegar framkvæmdir sem þó hefðu líklega litlum árangri skilað.
* * *
Annars er það skrítið hvað jarðgöng hafa fengið það orð á sig að vera bruðl og sóun á fjármunum, þrátt fyrir að oft séu þau fyllilega samkeppnisfær í kostnaði við aðrar leiðir. Öllum finnst sjálfsagt að brúa ár, leggja vegi yfir fjöll og heiðar og breikka þá vegi sem fyrir eru – en þegar stungið er upp á jarðgöngum ætlar allt vitlaust að verða. Þetta minnir mig helst á gamla fólkið sem telur leigubíla vera mesta flottræfilshátt í heimi, en hikar svo ekki við að snúa fjölskyldumeðlimum í ótal hringi að láta keyra sig um allar trissur eins og það kosti ekki neitt! – Auðvitað geta jarðgöng stundum verið hagkvæm framkvæmd í vegamálum, ekki síður en brýr eða tvíbreiðir vegir.
Markmiðið með jarðgangagerð er ekki að brenna upp peningum, heldur að stuðla að aukinni stærðarhagkvæmni. Hvort skyldi nú vera liklegra að unnt sé að halda uppi sérhæðri samfélagsþjónustu fyrir austan ef Seyðisfjörður, Egilsstaðir og Norðfjörður verða eitt atvinnusvæði en þegar þessir staðir eru einangraðir hver í sínu lagi? – Á sama hátt held ég að það væri rakið dæmi að koma upp góðum Suðurstrandarvegi til að tengja Þorlákshöfn við Grindavík og Sandgerði til að einfalda fiskflutninga á milli og efla þannig enn frekar fiskmarkaðina sem hafa stórlega eflt efnahagslífið hér á Íslandi á undanförnum árum. – Það eru nefnilega ekki bara túristar sem ferðast um vegina úti á landi. Öflugt vegakerfi skiptir orðið gríðarlegu máli fyrir sjávarútveginn og fiskvinnsluna, sem þrátt fyrir allt heldur þessu landi í byggð.
Þess vegna vil ég jarðgöng og þau víða! Ég fagna göngunum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Ég vil sjá göngin um Mjóafjörð. Og ég myndi vilja sjá göng til að greiða fyrir samskiptum á vestanverðum Vestfjörðum. Hins vegar er ég ekki enn orðinn sannfærður um að göngin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um Héðinsfjörð séu nauðsynleg. Mér hefur verið sagt að það sé nóg að byggja upp heilsársveg og vernda þannig Héðinsfjörðinn (kemur upp náttúruverndarsinninn í mér), en ef til vill tekst einhverjum að sannfæra mig um annað.
* * *
Og svona úr því að ég er farinn að tjá mig um verklegar framkvæmdir, þá get ég ekki sleppt því að lýsa aðdáun minni á nýja snjóflóðavarnargarðinum á Neskaupstað. Ég hafði talið garðinn á Flateyri tröllaukið mannvirki, en þessi er miklu stærri. Það er hins vegar ljóst að Norðfirðinga bíður mikið verk að græða upp þetta sár í fjallinu. Þarna verður að sá og dreifa áburði næstu misserin ef þetta skrímsli á að fríkka. Þá finnst mér nokkuð skrítið að veggurinn innan garðsins skyldi vera hafður svona snarbrattur, 90 gráður. Það þýðir að hann verður alltaf grjóthleðsla með járnabindingu framan á. Ef hann hefði verið látinn halla pínulítið hefði sennilega mátt koma einhverri gróðurþekju á hann, án þess að draga að neinu marki úr varnarmættinum. – Hitt er svo annað mál, að þessi garður ver alls ekki allan bæinn og Norðfirðingar eiga nánast ekkert varið byggingarland. Væntanlega verður þess ekki langt að bíða að eigendur húsanna utan garðsins munu fara að láta í sér heyra.
Jamm.