Er Ragnar Kristinsson…
…mesti kverúlant í heimi? Margir vilja meina það, en ég get ekki tekið undir það.
Nú skal það viðurkennt að Ragnar er líklega mesti kverúlant sem ég hef kynnst, en á hitt ber að líta að ég hef ekki hitt nema lítinn hluta jarðarbúa. Afar líklegt verður því að teljast að einhvers staðar í Asíu, t.d. á Indlandi, í Kína eða Indónesíu sé að finna meiri kverúlant en Ragga.
Þegar okkur Ragnari leiðist mjög mikið í vinnunni, þá förum við oft að karpa um það stóra sagnfræðilega atriði, hvort knattspyrnufélagið sé eldra – Fram eða Víkingur.
Ragnar, sem er Víkingur, telur að hans lið sé eldra – enda dettur hann í þá gryfju að trúa í blindni hinni hefðbundnu upprunasögn beggja liða en samkvæmt henni er Fram stofnað 1. maí árið 1908 en Víkingur 21. apríl, eða rúmlega viku fyrr.
Því miður fyrir Ragnar og félaga, eru gögn í þessu máli afar óljós. Til eru fundargerðabækur sem sýna að 1. maí var vissulega stofndagur Fram, en í tilfelli Víkinga er minna til af gögnum. – Hins vegar liggur líka fyrir að í hópi stofnfélaga Fram, voru drengir sem síðar voru virkir í árdaga Víkings. Það liggur því nokkuð beint við að álykta að annað tveggja hafi átt sér stað:
a) Að nokkrir strákar af ýmsum aldri hafi stofnað Fram, en að þeir yngri (einkum litlu bræður annarra stofnfélaga) hafi svo stofnað sinn eigin klúbb þegar ljóst var að þeir eldri vildu ekki leyfa þeim að vera með. – Samkvæmt því væri Fram eldra félagið.
b) Að nokkrir litlir pjakkar hafi tekið sig til og stofnað Víking. Síðan hafi hluti hópsins tekið sig til og stofnað annað fótboltalið viku seinna sem reyndist strax í upphafi verða öflugt félag, en einhverra hluta vegna ákveðið að taka ekki þátt í því og snúið sér aftur að Víkingi. – Samkvæmt því væri Víkingur eldra félag.
Á ljósi þessa ættu allir góðir menn að geta fallist á að mun líklegra er að fyrri kosturinn sé réttur. Ergo: ég vinn – Ragnar tapar!
Jamm.