Gústi og hagfræðingurinn part II
Tja, ekki veit ég af hverju ég er að blogga þessa færslu. Kannski til þess að eiga síðasta orðið?
ígúst svaraði mér sem sagt um hæl eins og hans var von og vísa. Hins vegar tekur hann ekki efnislega á rökum mínum í málinu. Þannig var sögunni um Ólaf Thors ekki ætlað að fá ígúst til að hugsa: „Úbbs, var foringinn vinur verkalýðsins? Þá er eins gott að ég sé það líka!“ – Nei, mórallinn var þessi:
Þegar verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir breytingum á réttindum starfsfólks – hvort sem það eru vinnuverndarmál, vinnutímamál eða hvað annað – þá hefur viðkvæðið hjá atvinnurekendum undantekningarlítið verið á þá leið að slíkar breytingar geri reksturinn ómögulegar og muni koma verkafólkinu í koll á endanum. Afar oft hafa þeir spádómar reynst rangir. Þessu reynir ígúst ekki að svara.
Greinin umrædda heldur því fram að 35 klst. vinnuvika sé afleit og að allt muni fara í steik. Þetta er nákvæmlega það sem sagt var um 40 klst. vinnuvikuna. Gleymum því ekki að sú hugmynd var á sínum tíma byltingarkennd. – Núna, virðast hagfræðingar atvinnurekenda hins vegar vera búnir að taka 40 tíma vinnuvikuna í sátt – í það minnsta verður þess ekki vart að samtök þeirra reyni að krefjast þess í samningum við launþega að vinnuvikan verði lengd.
Með því að halda því fram að hertari vinnuverndarreglur frá því sem nú er, muni einkum koma verkafólki í koll – hlýtur ígúst líka að telja að núverandi reglur séu þeim myllusteinn um háls.
Er það þá ekki líka slæmt fyrir verkafólk að settar hafi verið miðstýrðar reglur um fæðingarorlof? – Jú, líklega?
En hvað með reglur um veikindaorlof? Sumarleyfi? Lækkaður eftirlaunaaldur? Kröfur um aðbúnað á vinnustöðvum?
ígúst segir: „Að vitna í vökulögin í þessu samhengi er bara útúrsnúningur. Við erum að tala um allt annan raunveruleika en þá. Við megum ekki fara fram úr sjálfum okkur, einsog Frakkar virðast vera að gera.“
Gallinn við þessa röksemdafærslu er hins vegar sá, að í hvert sinn sem aukin réttindi verkafólks hafa verið tryggð, þá hefur ekki verið neinn hörgull á mönnum sem vara við því að „verið sé að fara fram úr sjálfum sér.“ – Persónulega finnst mér það ótrúverðugt þegar menn segja: „Gott og vel, kannski höfðum við rangt fyrir okkur í seinustu tíu skiptin þegar við vöruðum við því að verið væri að fara fram úr sjálfum sér, en að þessu sinni erum við svo sannarlega að fara fram úr okkur!“
Gott væri ef ígúst, sem „ekki trúir því að miðstýrðar aðgerðir séu alltaf besta leiðin til að ná markmiðunum“, myndi nú skilgreina fyrir okkur hinum hvar mörkin liggi. Ef vökulögin voru í lagi, en 35 tíma vinnuvika er út úr korti – hvar liggja þá hin eðlilegu mörk? Er það 40 tímar á viku? Er það 50 tímar á viku? Eða eru reglurnar um átta tíma hvíld á sólarhring akkúratt fullkomnar?
Á leiðinni mætti hann útskýra hvað hann telur eðlilegt að vinnandi fólk eigi marga veikindadaga á ári. Eru launaðir veikindadagar kannski það margir núna að það sé farið að stórskaða láglaunafólkið? Mætti fólkið kannski við því að fá nokkra daga í viðbót eða er nauðsynlegt að fækka þeim hið fyrsta? Hvers vegna ætti verkalýðshreyfingin ekki að byrja að berjast fyrir afnámi veikindadaga strax í næstu samningum?