Siðfræði fyrir viðskiptavini…
Upp á síðkastið hefur mikið verið talað um siðferði í viðskiptum á Íslandi og þá einkum þann viðskiptakúltúr sem ýmsir stórlaxar í viðskiptaheiminum hafa tileinkað sér. (Norðurljós, SPRON, Nanoq o.s.frv.) – Minna er talað um okkur smáfiskana.
Um daginn fórum við Steinunn á Kaffi Kúltúre ástamt Palla, Hildi, Þór og Helgu. Við drukkum hvort sinn bjórinn og að því loknu borgaði ég með 2000-kalli. Stelpugreyið á kassanum var eitthvað utan við sig og byrjaði að telja fram þúsundkalla eins og ég hefði greitt með 5000-konu.
Ég benti henni á mistökin og hún þakkaði mér margfaldlega fyrir hugulsemina. – Þakka fyrir hvað? Þakka mér fyrir að hafa ekki stolið 3000 krónum frá kaffihúsinu? Hvers vegna ekki að þakka mér líka fyrir að hafa ekki hnupplað öskubakkanum eða fyrir að krota ekki á klósettveggina? – Það er auðvitað enginn munur á því að taka við of hárri endurgreiðslu og hreinum þjófnaði.
Einhvern veginn virðast sumir hafa kosið að telja sér trú um að ef afgreiðslufólk geri mistök, þá sé „í lagi“ að hrósa happi og ganga út með aukapening í vasanum. Gaman væri ef einhver tæki að sér að útskýra þessa hugmyndafræði fyrir mér. Er þá ekki líka í lagi að hnupla í búðum, svo fremi að verslunareigandinn sé sofandi á verðinum?
En hvers vegna er þetta rifjað upp hér núna? Jú, í gær mátti sjá í sjónvarpsfréttum myndir af langri biðröð fólks fyrir utan Nanoq í Kringlunni. Fólkið, sem margt hvert hafði tekið sér frí í vinnunni, var saman komið í þeirri von að fá hagstæð kjör á þýfi sem eigendur verslunarinnar prettuðu út úr birgjum. Finnst virkilega öllum þetta vera allt í lagi? – Er það bara sniðugt að gerast þjófsnautur, vegna þess að maður kemst upp með það? – Og jafnvel að auglýsa það líka með því að stilla sér upp í röð fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar?
Það eru varla nema 3-4 vikur síðan ég keypti mér gönguskó í Nanoq, svo ekki vantaði mig neitt sem verslunin hefur upp á að bjóða – en þótt svo hefði verið, þá hefði ég hugsað mig rækilega um áður en ég verslaði á brunaútsölunni. – Er svo mikill munur á því og að svindla á afgreiðslustelpum á kaffihúsum?