Spillir frægðin?
Nú er ég búinn að vera besti og frægasti bloggari landsins í tæpan sólarhring og því rétt að fara að velta því fyrir sér hvaða áhrif þessi nýja staða sé að hafa á skapgerð mína og sálarlíf.
Skemmst er frá því að segja að ég finn ekki á mér neinn mun, sem hlýtur að teljast merkilegt því margir myndu eflaust láta slíka nafnbót stíga sér til höfuðs og fyllast af hroka og veruleikafirringu. En er ég þá betri en annað fólk? – Nei, í sjálfu sér ekki. Ég er bara sterkari einstaklingur og meira með fæturnar á jörðinni en margur annar.
Það að verða skyndilega frægasti og besti bloggari á íslandi er um margt eins og að vinna stóra vinninginn í happdrættinu. Þeim sem það gera hættir til að tapa sér og breyta lífsstíl sínum gjörsamlega (hætta að vinna, skipta út gömlu vinunum o.s.frv.) Þetta ætla ég ekki að láta henda mig. Þó að ég sé komin í þessa stöðu, ætla ég að halda áfram að umgangast mína gömlu vini og tengja yfir á bloggsíður þeirra. Á sama hátt vona ég að þau fyllist ekki öfund vegna hinnar nýtilkomnu velgengni minnar. Þá væri betur heima setið en af stað farið.
En talandi um vini og kunningja:
* Það er gott að heyra að klikkaði rafvirkinn hafi ekki stútað Bryndísi. Þetta er löngu hætt að vera sniðugt með þennan mann.
* Það er sömuleiðis gott að heyra að Svenni hafi ekki misst fyrirvinnuna. Þessar uppsagnir hjá Ísl. erfðagreiningu eru sorglegar. Ég þekki slæðing af fólki sem vinnur þarna. Vonandi heldur það allt vinnunni.
* Ernu átti ég alltaf eftir að þakka stuðningsyfirlýsinguna varðandi litinn á blogginu mínu.
* Góð ábending hjá írmanni að fólk ætti að taka frá 11. október. Það verður eitthvað magnað sem gerist þá!
* Gott mál að Þór sé (næstum því) kominn í hóp blóðgjafa. Sjálfur byrjaði ég að heimsækja blóðsugurnar þegar ég var í menntó og er kominn upp í 24 gjafir. (Ætli ég fái viðurkenningarskjal næst?)
* Pottormurinn er í náðinni um þessar mundir. Það er greinilegt að hann ætlar að veðja á sigurvegara bloggheimsins frá byrjun…
Jamm