Þraut fyrir tæknisögubuff
Jæja, það er nú orðið langt um liðið frá því að ég hef efnt til spurningaleiks hér á blogginu. Raunar má segja að undirtektir hafi verið dræmar í þessum spurningaleikjum til þessa, en á hitt ber að líta að þeir fóru fram áður en ég varð besti og frægasti bloggari Íslands.
Að þessu sinni verða allar spurningarnar um gamla kolakranann við Reykjavíkurhöfn. Mikið vantar upp á að sögu kolakranans hafi verið gerð nægilega vel skil í atvinnusögu þjóðarinnar, en hann var um skeið fullkomnasti kolakrani á Norðurlöndum. Verðlaunin eru ekki af verri endanum, eða falleg myndabók sem gefin var út í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkur. Hægt er að senda rétt svör í tölvupósti (stefan.palsson@or.is) eða með því að blogga, en þá er ekki pottþétt að ég rambi á svarið. Sá eða sú sem svarar flestum spurningum rétt fær hnossið, en ef fleira en eitt rétt svar berst verður dregið á milli og/eða sá/sú úrskurðaður sigurvegari sem fyrst(ur) kemur með rétt svar.
1. Hvaða ár var kolakraninn reistur?
2. Hvaða ofurhugi var aðalhvatamaður að framkvæmdinni?
3. Hvaða fyrirtæki rak kolakranann?
4. Hvað var kraninn nefndur í daglegu tali?
5. Hvaða ár var kraninn rifinn?
Jamm.