Kopar á kirkjuþaki
Fyrsti kaffibolli dagsins var óvenjulegur í morgun – ég sporðrenndi honum nefnilega með Mogganum. Nú hef ég ekki verið áskrifandi í tvö ár, heldur látið nægja að lesa blaðið á netinu og kunnað því nokkuð vel. Um daginn reyndi írvakursmafían að pranga blaðinu inn á mig með því að bjóða kynningaráskrift í mánuð. Að sjálfsögðu fór sá auglýsingasnepill beint í ruslið því ég hef lítinn áhuga á að fylla heimili mitt af blaðarusli meira en orðið er.
Nema hvað – helvítin eru útsmogin og beittu því lúabragði að hringja þegar ég var ekki heima og fá Steinunni til að þiggja kynningaráskriftina. Jæja, skítt með það – einn mánuður getur nú varla drepið mann.
Einna skársta efnið í Mogganum eru héraðsfréttirnar, en þar kemur fram óvenjuleg landfræðileg fjórskipting þeirra Moggamanna á landinu. Mogginn trúir nefnilega ekki á hefðbundnu landsfjórðungaskiptinguna, heldur notast þeir við skiptinguna: Suðurnes, höfuðborgarsvæðið, Akureyri og landsbyggðin. Á sjálfu sér ekkert vitlausari skipitng en hver önnur.
Á dag var sagt frá því í Suðurnesjakálfinum að unnið sé að því að þekja þak Hvalsneskirkju með koparplötum. Það eru góð tíðindi, enda Hvalsneskirkja einhver allra fallegasta og töffaralegasta kirkja landsins. Hún var reist á níunda áratug nítjándu aldar úr tilhöggnu grjóti. telja margir að bygging Alþingishússins hafi átt þar stóran hlut að máli og eflaust er það rétt að einhverju marki, því eftir að framkvæmdum við það lauk voru margir iðnaðarmenn búnir að öðlast reynslu af steinhöggi og því reynt að sannfæra mögulega verkkaupa um ágæti þeirrar byggingaraðferðar.
Sjálfur hef ég aðra kenningu um málið. Á þeim tíma þegar Hvalsneskirkja hin nýja var reist, var mikið lagt upp úr því að kirkjur væru reisulegustu byggingar hverrar sveitar og að þær féllu aldrei í skuggann af íbúðarhúsum í grenndinni. Á flestum tilvikum þurfti ekki mikið til að standa undir þessu, enda húsakostur landsmanna með ólíkindum bágborinn. Suður með sjó háttaði hins vegar nokkuð öðru vísi til, því nokkrum árum fyrr hafði erlent kaupskip – Jamestown að nafni – strandað í Höfnum. Var lest skipsins full af úrvals timbri en engin merki sjáanleg um áhöfnina (sem væntanlega hefur yfirgefið skipið í óveðri).
Fólkið í sveitinni nýtti að sjálfsögðu timbrið sem best það gat og voru á tímabili jafnvel ómerkilegustu skemmur og hjallar reistir úr fínasta smíðatimbri. Gat fólk á Rosmhvalanesi því leyft sér að byggja stórt og veglega. Eftir stóð að gamla sóknarkirkjan, sem þess utan var ógnað af landbroti, var orðin lítil og hálftíkarleg. Til að skáka íbúðarhúsunum í sveitinni þurfti því sóknarnefndin að grípa til annarra byggingarefna og því varð steinninn fyrir valinu. – Er þetta nokkuð galin kenning?
Af skipinu Jamestown er það annars að fregna að Suðurnesjamenn gerðu sitt besta til að hirða allt lauslegt úr flakinu. Meira að segja akkerinu var bjargað og stendur það nú í Höfnum. Loks sökk flakið þó til botns þar sem það hefur væntanlega grafist í botninn. Spruttu snemma sögur um að mikið magn silfurs hafi merið að finna neðst í lestinni. Væri þetta ekki verðugt verkefni fyrir gömlu gullskipsleitarmennina af Skeiðarársandinum. – Bandarísk silfurskip hlýtur að slaga upp í hollenskt gullskip?
Jamm
* * *
Eitthvað sýnist mér að athugasemd mín varðandi félaga Sibba Hjallaklerk hafi farið illa ofan í gamla skátaforingja. Skil ekki hvers vegna, því ég man ekki betur en að ég hafi fagnað fréttunum af því þegar hann fékk brauðið á sínum tíma. Hins vegar fannst mér viðtalið í Fréttablaðinu draga upp kolranga mynd af Sigfúsi. Þar kom hann fyrir sjónir eins og sléttur og felldur gítargutlari sem kenndi börnum að hnýta hnúta. Það er ekki sá Sibbi sem ég þekki.
Sá Sibbi sem ég þekki er gamli bassaleikarinn, Spilafélagsfrömuðurinn og hármódelið. (Úff – hver getur gleymt því þegar Sibbi var með fjólublátt hár í mánuð en neitaði því statt og stöðugt að hann væri með hárlit…)
Og hver segir svo að það sé slæmt að vera „klám-skáti“? Klám-skátakynslóðin í Ægisbúum ól af sér marga af landsins bestu og eflnilegustu sonum – s.s. Sölva Blöndal og Lúlla feita ! ! ! Er ekki einmitt vandamál kirkjunnar að of FíIR klám-skátar klæðast hempunni?
(Það má lesa meira um stóra klámskátamálið hjá Svenna Guðmars)