Fjármálaséníið
Já, með nýjum kreditkortatímabilum fær lífið nýjan lit. Núna get ég á ný farið að beita snjallræði mínu í fjármálastjórninni – að fara í hraðbanka, taka reiðufé út á kreditkortið og leggja inn á bankareikninginn til að passa að yfirdrátturinn springi ekki. Þetta heitir að halda hjólum efnahagslífsins gangandi, enda löngu sannað að meginþorri peningafærslna í heiminum er bara tanaleikfimi og á ekkert með raunverulega framleiðslu eða verðmætasköpun að gera.
Vítahringur? – Mæðrastyrksnefnd? – Nei… en assgoti yrði erfitt að hafna aukaverkefni núna ef eitthvað væri í boði.
* * *
Bryndís gerði helvíti góða hluti með þessu afmæli sínu þarna um daginn, þar sem hún fékk DVD-spilarann gefins. Nú hefur mig hálfpartinn langað í svona græju um langt skeið en hef verið í Catch22-aðstöðu, því ég á enga diska til að spila í tækinu og á meðan ég á enga diska hef ég lítið við tækið að gera!
En núna get ég byrjað að hamstra DVD-diska, undir því yfirskini að hægt sé að horfa á þá á Mánagötunni – og þegar ég verð kominn með smá safn, þá get ég réttlætt það fyrir mér að kaupa tæki. Snjallt!
* * *
Eru svo ekki allir búnir að taka frá fimmtudagskvöldið?