Mér varð illt…
…við að lesa Fréttablaðið í morgun. Hvaða brjálæðingi dettur í hug að verja hundruð milljóna í að hlaða undir rassgatið á Völsurum? Nýtt íþróttahús, risastórt fótboltahús og nýr leikvangur! Er ekki allt í lagi heima hjá mönnum? Fyrri hluti tillögunnar – sá er lýtur að því að malbika yfir hálft Valssvæðið og rífa íþróttahúsið þeirra var fínn, en að ætla svo að bæta þeim það upp með þessum hætti er gjörsamlega geggjað…
Og fyrir hverja á svo að gera þetta? Eru til einhverjir Valsarar? Ekki hef ég mikið orðið var við það – nema þarna um árið þegar Valsararnir unnu fimm fyrstu leikina og stefndu í að vera spútnikliðið. Þá skriðu rauðklæddir undan hverjum steini, en voru fljótir að skjótast undir þá aftur þegar liðið tók dýfuna beint niður um deild. Að sjálfsögðu gat þetta lið svo ekki dílað við vonbrigðin (enda Valsmenn) og kenndi Frömurum um allt saman, fyrir að vinna svona marga leiki á lokasprettinum, í stað þess að líta í eigin barm.
Eftirtalda Valsara þekki ég persónulega:
Óli Njáll – Leiknismaður úr Breiðholtinu sem þykist halda með Val. Mætir örugglega aldrei á leiki frekar en aðrir Valsarar. (Enda – hvernig gæti maður mætt á völlinn hjá Val og haldið áfram að vera Valsari?)
Palli Hilmars – spilaði fótbolta með Val sem stráklingur og er nánast öryrki í dag með ónýta hnéskel. Tilviljun? – EIns og aðrir Valsarar mætir Páll aðeins á völlinn þegar hann fær ókeypis inn, nema þá helst þegar hann borgar sig inn á KR-leiki til að sjá KR-inga tapa og halda með andstæðingunum. Hið magnaða KR hatur er raunar aðdáunarverðasti eiginleki Valsara almennt.
Sverrir Guðmundsson – segist vera Valsari (og hver myndi ljúga slíku upp á sig). Mætir þó aldrei á völlinn.
Benedikt Waage – efnafræðigúru og Valsari. Ólst upp í Leiknishverfinu eins og Óli Njáll. Eitthvað hefur misfarist í klakinu þar.
Sveinn Birkir – vinur Palla. Upphaflega Hattarmaður frá Egilsstöðum en gerðist Valsari eftir að þeir réðu hann í vinnu. Það er sennilega eina leiðin fyrir Valsara að tryggja sér stuðning – að borga fólki. (Ekki það að telji líklegt að þeir hafi staðið í skilum…)
Kolbeinn Bjarnason – vinnufélagi og Valsmaður. Heldur með Liverpool eins og nánast allir Valsarar. Er ekki fjarri því að þeir byrji á að halda með Liverpool og velji svo Val út af litnum.
ísi Guðmunds – verðbréfagúrú og Valsari. Bjó á Laufásveginum og leiddist því út í þetta í æsku. Raunar eini Valsarinn sem ég veit um sem getur orðið verulega heitur út af fótbolta. – En mætir svo sem ekki á völlinn frekar en aðrir „stuðningsmenn“ þessa liðs.
Á sannleika sagt þekki ég ekki fleiri Valsara. Ég er ekki fjarri því að ég gæti nefnt fleiri HK-menn!
Og að það eigi svo að hlaða undir rassgatið á þessu með stórbyggingum, rífa íþróttahús sem er rétt orðið 15 ára (ég hef átt eldri bíla!) og ég veit ekki hvað og hvað, nær ekki nokkurri átt. Þetta þarf félagi Kolbeinn Proppé að stoppa í íþrótta- og tómstundaráði – annars sný ég baki við R-listanum!
– Jæja, þetta var morguneipið í boði Orkuveitunnar. (Haturspóstur sendist á: stefan.palsson@or.is)