Enn um múmínálfa
Hóhó… það er svo skemmtilegt að komast í umræður um múnínálfa við aðra aðdáendur bókaflokksins! Þórdís er greinilega hafsjór af fróðleik um málið. Það er afskaplega áhugavert að heyra að Morrinn sé kvenkyns á sænsku, en ég hef einmitt lent í miklum umræðum um kynferði sumra persóna á öðrum vettvangi. – Er það kannski merki um það hversu ofurseld við erum flokkunarkerfinu kona/karl að festast í þeim hjólförum? Ef ég man rétt, þá er hreinlega tekið fram í bókunum að Hattífattarnir séu kynlausir (þrátt fyrir að líta út eins og smokkar). Hattífattarnir eru ofarlega á vinsældarlista mínum.
Þórdís rekur það líka í hvaða röð hún las múmínálfabækurnar. Sjálfur las ég þær í „réttri röð“ miðað við íslensku útgáfuna, en það var ekki fyrr en mikið síðar að ég uppgötvaði að það er vitlaus röð miðað við frumútgáfuna. Einhverju sinni hitti ég Magga finnska í partýi, en hann var þá að dunda sér við að reyta inn einingar í finnsku við Háskólann og stefndi að því að landa þar BA-prófi. Hann ætlaði að skrifa lokaritgerð um múmínálfana. (Síðar hætti hann við það og býr nú í Bandaríkjunum þar sem hann er í doktorsnámi í hagsögu.)
Magnús var með þá kenningu að múmínálfabækurnar yrði að lesa í réttri röð, þar sem bókaflokkurinn myndaði samfellu sem líkja mætti við þroskaferil barns. Þannig séu fyrstu bækurnar einfaldar og bjartar – persónur ekki mjög djúpar og lausar við galla. Eftir því sem á bókaflokkinn líður verður lífið flóknara og margbreytilegra. Einstakar sögupersónur fara að sýna á sér nýjar og óvæntar hliðar, s.s. Morrinn. Múmínpabbi verður veigameiri persóna og nær epísku hámarki í Eyjunni hans múmínpabba. – Bókaflokknum lýkur svo með „Hausti í Múmíndal“ þar sem dýrin í skóginum eru svipt þessum fasta punkti í lífinu – múmínfjölskyldunni. Múmínálfarnir eru á bak og burt.
Hvað segja aðrir múmínálfafræðingar um þessar hugleiðingar?