Flutningar á næsta leyti
Loksins, loksins! Félagsstofnun Stúdenta er búin að tilkynna Bryndísi að hún hafi fengið inni á stúdentagörðunum. Því fagna allir góðir menn! Bryndís kemst í þessa fínu einstaklingsíbúð með háhraða netsambandi, steinsnar frá skólanum og ég get flutt mitt drasl inn til Steinunnar á Mánagötuna.
Þessum flutningum fylgja prýðileg samlegðaráhrif með bestun á nýtingu tíma og fjármagns (hljómaði þetta ekki viðskiptafræðilega?) Ég ætti að geta leigt út íbúðina á Hringbrautinni og sparað þannig nægilega til að afstýra því að lenda á Kvíabryggju. Svo er líka bara skemmtilegt að byrja að búa á einum stað en ekki tveimur…
Auðvitað eru þessir búferlaflutningar ekki með öllu gallalausir. Þannig verður erfitt að venjast því að búa í Valshverfi og stilla sig um að hvæsa á litlu púkana sem verða bankandi upp á í tíma og ótíma að betla flöskur og selja happdrættismiða fyrir rauðu hættuna. Þá er ég ekki alveg viss um að knæpan á Rauðarárstígnum sé besti hverfisbarinn. (Hann getur þó fjandakornið ekki verið verri en Rauða ljónið – sem var staður dauðans, borinn uppi af KR-ingum og spilasjúklingum. – Loks er ég ekki viss um að sjónvarpsskilyrðin séu upp á marga fiska í Norðurmýrinni, þannig að ég kemst varla í Fjölvarpið svo glatt.
Valur húsfélagsformaður (les. Falcon), er foxillur yfir þessari ákvörðun. Það er yfirlýst stefna húsfélagsins á Hringbraut að fækka leiguíbúðum í húsinu. Stjórnin, en þó einkum gjaldkerinn, telja nefnilega að leigjendur séu hyski og skríll. Þetta er ekki mjög málefnaleg afstaða, en styðst þó að vissu marki við reynsluathugun þar sem dópsalinn og dæmdi ofbeldismaðurinn í stigagangnum er sannarlega leigjandi og gamli nágranni minn sem virtist ljúka flestum fylleríum á að berja kærustuna sína í plokkfisk og rústa íbúðinni var líka að leigja. (Skyldu íbúðareigendur vera síður líklegir til að lemja konurnar sínar?)
* * *
Guðmundur Svansson kynnir blogg fyrir þjóðinni í fylgikálfi Moggans í morgun í ágætis grein. Ekki veit ég hvort almenningur er nokkru nær eftir lesturinn, en það er nokkur galli á úttektinni að hún fjallar eiginlega bara um strákablogg. (Og Katrínu Atladóttur, sem ég myndi eiginlega skilgreina sem strákablogg líka.) Ég er sammála því sem írmann sagði einhverju sinni að stelpublogg eru almennt séð skemmtilegri.
* * *
Önnur mikilvæg leiðrétting:
Ég hef ALDREI sagt að ég sé besti og frægasti bloggari í heimi, enda væri það fáránlegt að halda því fram!
Hins vegar er ég frægasti og besti bloggari á Íslandi. Það er allt annað mál. – Hver veit svo hvað framtíðin ber í skauti sér? Ef til vill munu fregnir af frægð minni og vinsældum berast út fyrir landsteinanna (t.d. með íslenskum námsmönnum erlendis) og útlendingar fari að þýð bloggið mitt yfir á önnur tungumál. Þá og þá fyrst gætum við farið að tala um að ég geri tilkall til heimsmeistaratitilsins.
Hvernig væri að keppa í bloggi á Ólympíuleikum? Það mætti hugsa sér ýmsar útfærslur, s.s. liðakeppni (fimm bloggarar í liði), einstaklingskeppni og tvenndarleik. Á tvenndarleiknum myndi ég vilja keppa ásamt Þórdísi. Eftir múmínálfafærslur hennar undanfarinna daga hef ég nefnilega ákveðið að velja hana sem næstbesta og næstfrægasta bloggara Íslands. Þar hafiði það!