Handlaginn heimilisfaðir?
Neinei, Steinunn mín, það er hárrétt hjá þér að ég hef ákaflega takmarkað hugmyndaflug þegar kemur að því að gera við biluð klósett. Og hvers vegna ætti ég svo sem að hafa það? Er ég einhver h*****is pípari?
Ekki yrði ég kátur ef einhver pípulagningarmaður myndi ryðjast inn á gólf hjá mér hérna á safninu og fara að messa yfir lýðnum um sögu rafveitunnar. Á sama hátt ætla ég ekki að ráðast inn á svið iðnaðarmanna í lögverndaðri starfsgrein. Það væri absúrd!
Milli mín og píparastéttarinnar ríkir óformlegt samkomulag. Ég abbast ekki upp á þeirra lagnir og þeir láta tæknisöguna í friði. Á þessu er þó ein skemmtileg undantekning – „Lagnafréttir“ Sigurðar Grétars í Fasteignablaði Moggans. Það er sagnfræði sem segir sex!
* * *
Fór heim til gömlu í gær til að tékka á því hvort ekki væri þar að finna e-ð af teiknimyndasögum sem ég hafi skilið þar eftir. Það stóð heima. Uppskeran var tvær Palla og Toggabækur (þ.á.m. hin frábæra „Bannað að líma“), þrjár bækur um Hin fjögur fræknu, Prúðuleikarabókin „Ljósmyndari kemur í heimsókn“ og Ævintýri Birnu Borgfjörð.
Hin fjögur fræknu hafa aldrei skorað hátt hjá mér. Sérstaklega þótti mér Lastík vera leiðinlegur karakter. Og af hverju að kalla hann Lastík í íslensku þýðingunni? Hvers konar ónefni er það?
Ævintýri Birnu Borgfjörð keypti ég mér örugglega á bókamarkaði. Einu sinni skrifaði ég tvær merkar menningargreinar á Múrinn um þessar bækur.
Annars er teiknimyndasögusafnið í uppsveiflu. Um daginn leit ég nefnilega við í Góða hirðinum og önglaði mér í „Frost á Fróni“ með Samma og Kobba; „ílagaprinsinn“ með Stjána bláa; „Svörtu örina“ með Hinrik og Hagbarði og svo tvær Svals og Valsbækur – „Hrakfallaferð til Feluborgar“ og „Tímavilta prófessorinn“. – Teiknimyndasöguskápurinn mun í framtíðinni tryggja mér ómældar vinsældir yngri frændsystkina og annarra barna.
Jamm