Árás á bloggheiminn?
Jæja, nú liggur íslenska bloggsamfélagið svo sannarlega í því. Vefritið Kreml hjólar í bloggara og kallar okkur sorglega útgáfu af raunveruleikasjónvarpi. Það er raunar hin mesta synd að höfundur greinarinnar, Svanborg Sigmarsdóttir, skuli láta blogg-formið fara svona í taugarnar á sér því allt annað í pistlinum hennar er eins og klippt út úr prýðilegustu bloggfærslu þar sem hún rasar út yfir því sem mest fer í taugarnar á henni.
Orðrétt segir Svanborg:
Einhver ritstjórnarmeðlimur linkaði á bloggsíðu, þannig að ég kíkti… og rak mig áfram á fleiri þekkta sem óþekkta bloggara. Hverskonar ego-tripp er þetta eiginlega?!?!? Þetta er á sama stigi og „raunveruleikasjónvarp“ – bara sorglegra. Amk, hefur reality TV einhvers konar ritstjórn sem hefur sans fyrir því hvað er áhugavert fyrir almenning og hvað ekki. Að horfa á raunveruleikasjónvarp á að lýsa einhvers konar „gægjuhneigð“. En hvort ætli sé verra að láta undan gengdarlausum auglýsingum til að horfa á fólk gera sig að fífli – eða vera haldin það mikilli sýnihneigð að maður bara verði að auglýsa öll sín helstu axarsköft á netinu? Að ég tali nú ekki um þá bloggara sem skrifa oft á dag. Eigið þið enga vini til að tala við? Ef ekki þá er rauði krossinn að auglýsa vinalínu – notfærið ykkur það í neyð. Fáið ykkur vinnu, farið út á meðal fólks, gerið eitthvað! Þá munuð þið líklega komast að því að fólki er almennt alveg nákvæmlega sama hvaða fræga fólk þið hafið hitt, hvaða heimilistæki er bilað hjá ykkur eða hvaða teiknimyndasögur eru í uppáhaldi. Plís, get a læf!!!!
Hmmm… þetta er vissulega áhugavert sjónarmið. Raunar er langt síðan ég spáði því að „raunveruleikasjónvarp“ myndi tapa fyrir netinu, einmitt vegna þess að raunveruleikasjónvarpið er ritstýrt og miðillinn þolir ekki dauða punkta. Meginmarkmið þeirra sem að raunveruleikasjónvarpi standa er að fela ritstjórnina og láta áhorfandann í það minnsta halda að hún sé ekki fyrir hendi. Það sem drepur alla slíka sjónvarpsþætti er hins vegar að til lengdar verða þeir formúlukenndir og reglurnar sem þátttakendur þurfa að fylgja verða of takmarkandi.
Annars stingur Svanborg upp á áhugaverðum hlutum sem vert er að blogga um, þ.e. frægt fólk í hversdagslífinu, biluð heimilistæki og eftirlætis teiknimyndasögur. Öll þessi efni eiga það hins vegar sameiginlegt að vera alltof víðfem til að hægt sé að gera grein fyrir þeim á tæmandi hátt. Þess í stað ætla ég að búa til „topp 5“ lista yfir hvert þessara atriða:
5 frægir einstaklingar sem ég hef hitt:
i) Mike Pollock. Einu sinni ætlaði ég að kaupa af honum íbúð og var meira að segja kominn með bindandi kauptilboð. Það hefði ekki verið dónalegt að geta montað sig að því við gesti að búa á sama stað og Pollock.
ii) Salih Heimir Porca. Kom eitt sinn á Minjasafnið með unglingavinnuhóp sem hann var verkstjóri yfir. Porca er einn af betri knattspyrnumönnum sem hér hafa spilað og greinilega algjör harðjaxl þegar kom að því að verkstýra krökkum.
iii) Siggi Johnny. Hitti hann einu sinni á Rauða ljóninu og ræddi við hann lengi kvölds. Siggi var landsliðsmaður í handbolta og aðalrokkstjarna landsins á sama tíma. Megatöffari.
iv) Einar Vilhjámsson. Hitti hann líka á Rauða ljóninu þar sem hann tefldi við Óla Jó eina skák. Ólafur malaði hann eins og við var að búast og lauk viðureigninni á því að Einar rétti fram spaðann og sagði: „Nú getur þú sagt fólki að þú hafir sigrað heimsmeistarann í spjótkasti örvhentra í skák!“
v) Luther Blisset. Þegar Watford spilaði æfingarleik gegn Reykjavíkurúrvalinu á gervigrasinu í Laugardal í gamla daga, mætti ég að sjálfsögðu með blað og penna til að fá eiginhandaráritanir. Að leik loknum þyrptust allir krakkar í slíkum hugleiðingum inn á völlinn en ljóst var frá upphafi að ekki væri hægt að ná í báða frægu leikmennina í Watfordliðinu, það yrði að velja annan. Ég valdi Luther Blisset sem þá var nýlega kominn frá AC Milan og var stærsta stjarnan í liðinu. Hinn var ungur og efnilegur leikmaður, John Barnes. Óskaplega varð ég seinna spældur þegar ég gerði mér grein fyrir að Blisset væri gamall og útbrunninn en frægðarsól Barnes reis stöðugt.
5 heimilistæki sem eru biluð heima hjá mér:
i) Klósettið. Jamm, þrátt fyrir viðleitni og góða tilburði Kristbjarnar þá virðist ekki að fullu komið fyrir bilunina.
ii) Rafmagnstaflan (þó strangt til tekið ekki heimilistæki). Rafvirkinn kom í gær og tilkynnti að hann gæti ekki gert við rafmagnstöfluna eins og staðan væri núna. Fyrir því er sú asnalega ástæða að ef viðgerðin á töflunni krefst þess að rafmagnsmælirinn verði færður úr stað þá er óheimilt að gera það nema honum sé komið fyrir inni í rafmagnskassa, sem ekki er gerlegt við þessar aðstæður. Hins vegar má láta töfluna standa óhreyfða. Með öðrum orðum – það má láta töfluna vera ónýta í friði, en ef byrjað er að laga eitthvað í henni þá verður að laga hana fullkomlega. – Skrítið!
iii) Útvarpið í græjunum í stofunni. Á gamla staðnum var sérstök innstunga fyrir útvarpsloftnet við hliðina á sjónvarpsloftnetstenglinum. Ég notaði þá innstungu og týndi því gamla loftnetinu á græjunum. Eftir flutninganna heyri ég því ekkert í útvarpinu inni í stofu. Það er svekkjandi í hádeginu.
iv) Sturtan. Þetta helvíti á eftir að verða minn bani. Skyndilega breytist ylvolga og góða vatnsbunan í brennandi skrímsli. Til að bæta gráu ofan á svart þá stíflast niðurfallið stöðugt og hefur þar lítið að segja þótt reglulega sé ætandi sýru sem seld er í verslunum undir vörumerkinu Grettir sterki helt niður í það.
v) Örbylgjuofninn. Fékk hann frá Skúla Sigurðssyni fyrir 2-3 árum síðan. Þá var ofninn ónotaður, beint úr kassanum. (En hafði því miður verið í kassanum í 10 ár og var því ósvikinn forngripur.) Strangt til tekið er ofninn ekki bilaður, en hann er fáránlega kraftlítill og notkunarleiðbeiningar á matarumbúðum nýtast ekki þar sem hann kemst ekki hærra en í 600 wött.
5 teiknimyndasögur sem mér finnst skemmtilegar:
i) ístríkur skylmingakappi. „Afi Sesars var mórauður saltfiskur!“ – segja skylmingakapparnir í hringleikahúsinu. Þarf að segja meira? Ég hlæ alltaf þegar ég les þessa bók og ekki spillir fyrir að eiga hana líka á latínu.
ii) Falur í Argentínu. Fótboltafélagið Falur tekur þátt í heimsmeistarakeppninni í Argentínu með viðkomu á Íslandi. Lýsingarnar á herforingjastjórninni í Argentínu og pótemkíntjöldum hennar eru kostulegar.
iii) Svalur í Moskvu. Hef altaf verið Tom & Janry-maður varðandi Sval og Val. Lýsingin á rússnesku mafíósunum er óborganleg.
iv) Alli Kalli í eldlínunni. Maðurinn með stóra nefið er frábær. Hvers vegna í ósköðunum komu ekki út fleiri bækur um Alla Kalla? Enn ein sönnun þess að kapítalisminn veit ekkert hvað hann er að gera. Við þurfum að stofna nýtt fyrirtæki: Ríkisútgáfu teiknimyndasagna.
v) Strumparnir og eggið. Á þessari skemmtilegu bók er m.a. birt sagan „Hundraðasti strumpurinn“ sem tekur á mörgum áleitnum tilvistarlegum spurningum, meðal annars varðandi muninn á frummynd og heilmynd.