Stefán Hrafn Hagalín og ég
Einhverra hluta vegna þá hafa mál æxlast þannig að ég hef nokkrum sinnum lent í að skrifa greinar og pistla á Múrinn þar sem skotið hefur verið á Stefán Hrafn Hagalín. Eins og búast mátti við hefur nafni minn svarað þessum skotum. Fyrir vikið hafa margir ályktað ranglega að það sé illt á milli okkar. Það er tóm tjara. Við Stefán Hrafn erum nefnilega ákaflega líkir menn og sammála um ýmsa hluti.
Eitt af því sem við eigum sameiginlegt er stuðningur við „lítil lið“ í enska boltanum. Ég er yfirlýstur Luton-maður og einhver stærsta stund mín var að ná að sækja heim Kenilworth Road, vöggu knattspyrnunnar í Bedford-skíri.
Nafni minn heldur hins vegar með QPR, sem er einmitt með jafnmörg stig og Luton í 2. deildinni, en nokkuð betri markatölu. Stebbi hefur líka farið á völlinn með sínum mönnum, en hann sá þá tapa fyrir smáliðinu Vauxall í bikarkeppni á dögunum. Þrátt fyrir tapið var hann alsæll – dæmigerður skandinavískur stuðningsmaður á leik í ensku. Ofsakátur og flippar út með Visa-kortinu í minjagripaversluninni.
Luton og QPR eiga fleira sameiginlegt en að vera í augnablikinu með 30 stig í 6-7 sæti. Þau eru jafnframt þekktustu klúbbarnir sem spiluðu á gervigrasi á níunda áratugnum. Gervigras var tækninýjung sem hefði getað gjörbylt knattspyrnunni, en skammsýnir menn fengu að ráða för og fyrir vikið leika menn ennþá á drullusvöðum vetrarlangt í Norður-Evrópu. Er það miður.
Á þessum bréfaskiptum okkar nafnanna kviknaði hins vegar eitursnjöll hugmynd. Hvernig væri að koma á fót samtökum stuðningsmanna lítilla fótboltaliða, sem gæti snúið niður heilalausu hjarðirnar sem fylgja stóru klúbbunum að málum og styðja bara þann sem best gengur hverju sinni? Á þessum efnum sem öðrum gildir nefnilega að SMíTT ER FAGURT !
Hverjir vilja vera með? Bryndís? Þú ert nú yfirlýst Grimsby-kona! – Palli? Wolves ætti nú að teljast „lítið lið“ í þessu samhengi! – Jóhannes Birgir? Sheffield Wednesday er vissulega sérvitringslegt lið!
Er ekki fyrsta skrefið að við kverúlantarnir sem látum okkur ekki nægja að halda með Liverpúl eða Júnæted komum út úr skápnum og förum að bera höfuðið hátt? – Sendið póst: stefan.palsson@or.is
Jamm