Besti bloggarinn hjá Gísla Marteini
Jæja, þá er eins gott að fara að setja sig í stellingar og kaupa popp og kók fyrir næsta þátt hjá Gísla Marteini. Besti og frægasti bloggari landsins verður nefnilega í viðtali ásamt Illuga Jökulssyni og Jónsa úr Svörtum fötum. (Já, ég veit. Frekar skringileg samsetning.)
Þvert á það sem margir halda, er þátturinn hans Gísla ekki í beinni útsendingu. Hann var tekinn upp í gær og klipptur nú í morgun. Ein af ástæðunum fyrir þessu er þetta átak heyrnleysingjafélagsins og Menntamálaráðherra að reyna að texta sem allra mest sjónvarpsefni. Greyin á Sjónvarpinu þurfa nú að skrifa upp alla umræðuþætti til að hægt sé að textasetja þetta. Ég bað Gísla um að senda mér scriptið af þættinum og hann tók vel í það. Tökum smá forskot á sæluna:
Gísli Marteinn: Já, þakka ykkur kærlega fyrir Á svörtum fötum. Og við hvetjum að sjálfögðu alla aðdáendur hljómsveitarinnar til að skoða þessa nýju og bráðskemmtilegu heimasíðu – www.isvortumfotum.is. En næsti viðmælandi minn ætti svo sannarlega að vita allt um það sem er að gerast á netinu, því hann er enginn annar en besti og frægasti bloggari landsins – Stefán Pálsson. Vertu blessaður Stefán.
Ég: Já, takk fyrir.
Gísli Marteinn: Já, blogg. Það er svo sannarlega nýjasta æðið í dag. Hvernig er það Illugi, hefur þú eitthvað kynnt þér þetta blogg?
Illugi: Jú, maður hefur svona aðeins verið að skoða þetta. Ég les nú síðuna hjá Stefáni, en annars verður maður bara svo ringlaður – þetta eru allt svo skringileg nöfn á þessum bloggurum. Það er einhver Ormur þarna og svo er einn Köttur og ein Læða…
Gísli Marteinn: Híhíhí… ha, er bara allt dýraríkið samankomið? Ha? Hestur og hundur? Hahahaha!
Illugi: Já ætli það ekki bara…
Gísli Marteinn: Hahaha… og kýr og gæsir? Hahaha… Stefán, er þetta bara einhver dýraspítali? Þarf maður að vera eins og Dagfinnur?
Ég: Ha, Dagfinnur?
Gísli Marteinn: Já, sko – Dagfinnur dýralæknir. – Að tala dýramál sko! Hahaha…
Ég: Uhh,… neinei.
Gísli Marteinn: En svona að öllu gamni slepptu, þá ert þú Stefán besti og frægasti bloggari Íslands.
Ég: Já, það er rétt.
Gísli Marteinn: Og sem slíkur ertu í raun leiðtogi íslenska bloggarasamfélagsins, ekki satt?
Ég: Já, það er hárrétt. – Ætli það megi ekki kalla mig ókrýndan konung bloggsenunnar hér á landi…
Gísli Marteinn: En nú ert þú að fara að taka þér frí frá blogginu?
Ég: Mikið rétt. Ég er að taka mér a.m.k. 10-12 daga hvíld frá bloggi.
Gísli Marteinn: Þetta verður aðdáendum þínum eflaust mikil vonbrigði. Verða íslenskir bloggarar ekki höfuðlaus her meðan á þessu stendur?
Ég: Nei, það held ég nú ekki. Við sem í þessu stöndum höfum lengi vitað að til þessa gæti komið – að ég gæti þurft að taka mér frí um lengri eða skemmri tíma og þess vegna var búið að gera ráðstafanir. Ég hef útnefnt næstbesta bloggara landsins, sem getur gegnt helstu „embættisskyldum“. – Ég lít fremur á þetta sem tækifæri fyrir minna þekkta bloggara að sýna sig og sanna. Mín stefna hefur alltaf verið sú að gefa nýliðunum tækifæri, en sitja ekki einn að allri athyglinni. Auðvitað lendir maður svo oft í því að þurfa einn að halda merkinu á lofti en það er alls ekki markmiðið. Alls ekki.
Gísli Marteinn: En er eitthvað til í þeim sögum að þetta óvænta og skyndilega bloggfrí þitt sé í tengslum við nýleg átök og hneykslismál í bloggheimum?
Ég: Hvað ertu að gefa í skyn með því? Talaðu ekki eins og véfrétt maður!
Gísli Marteinn: Tja, nú hafa þung skot gengið á milli sumra bloggara. Ertu kannski hræddur um að Beta buff fari að dreifa um þig óhróðri? Eða að gaurarnir á Tilverunni birti myndir af þér berrössuðum eða það sem verra er?
Ég: Þessar sögur hef ég því miður ekki heyrt. En ég get fuyllvissað þig, Gísli Marteinn – og raunar alla sjónvarpsáhorfendur líka – um að þær eru ósannar. Ég hef ekkert að fela og jafnvel þótt svo væri, þá myndi ég aldrei – ALDREI – láta kúga mig til að hætta að blogga. Því ef hælbítarnir og hýenurnar kæmust upp með að þagga niður í mér, þá má Óðinn vita hver yrði næstur. Ef við látum hræða okkur til hlýðni, þá hefur frelsið tapað og hryðjuverkamennirnir unnið.
Gísli Marteinn: Þetta var hraustlega mælt eins og þín var von og vísa Stefán. Ég vissi alltaf að þú myndir ná langt, allt frá því að ég keppti í ræðukeppninni við þig í gamla daga ásamt spilaklúbbsfélögum mínum…
Ég: Bíddu þarna,… Sveini Kára og Rúnari Þór?
Gísli Marteinn: Uhh… Sigga Kára og Rúnari Frey…
Ég: What ever…
Gísli Marteinn: Öööö… eigum við þá ekki bara að fá annað lag með Svörtum fötum?
Jamm.