Fótboltablogg
Þessi bloggfærsla er bara um fótbolta. Ekkert annað. Þeir sem vilja fræðast um líf mitt geta lesið það sem ég er að skrifa á aðrar vefsíður (Múrinn og Friðinn) eða hringt í mig. – Raunar væri samt betra að þið slepptuð því að hringja, ég er frekar önnum kafinn um þessar mundir.
Nema hvað:
Það eru stórir hlutir að gerast í fótboltanum núna. Raddy Antic hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Barcelona. Antic lék með Luton á áttunda og níunda áratugnum og hann var maðurinn sem bjargaði Luton frá falli með marki á lokamínútunum á Maine Road í síðustu umferðinni 1983 og sendi heimamennina í Manchester City niður. Það var fyrir þennan leik sem ég byrjaði að halda með Luton, þá nýorðinn átta ára.
Þegar ég var átta ára gamall, þá var ég ístöðulítill í svona málum og það er meira en líklegt að ef Raddy Antic hefði ekki skorað þetta örlagaríka mark og Luton fallið niður um deild, þá héldi ég með öðru liði í dag. Það hefði líklega orðið Aston Villa – ég hef alltaf verið veikur fyrir því liði.
En Luton hékk í efstu deild og ég flæktist í netinu. Að skipta um lið í dag væri jafn fráleitt og að reyna að sækja um inngöngu í nýja ætt eða ganga í Framsóknarflokkinn. Þannig er það bara.
Þessi árstími hefur oft reynst Luton hættulegur. Gamli völlurinn þolir illa frost og snjó, enda þýðir slæm veðrátta á Bretlandseyjum yfirleitt að fjöldinn allur af frestuðum leikjum safnast upp hjá liðinu. Það kemur líka róti á leikmennina þegar endalaust er verið að blása leiki af og á. Mörg dæmi eru um að Luton hafi verið á blússandi siglingu fram að jólum eða fram í janúar, en síðan hafi allt hrunið eftir að leikvellirnir fóru að breytast í moldarsvöð.
Á morgun er settur niður útileikur gegn Peterborough. Líklega verður hann blásinn af, sem er skaði því ég er sannfærður um að við myndum vinna hann miðað við formið sem liðið virðist vera í um þessar mundir. Með sigri færum við í 46 stig – jafn mikið og QPR, sem er núna búið að spila tveimur leikjum meira. – Þetta er samt mikið búið að vera að vefjast fyrir mér í vetur; vil ég í raun að Luton fari í umspil og sleppi upp um deild? Við erum nýliðar í 2. deildinni og það er aldrei gott að fara upp tvö ár í röð. Væri e.t.v. ekki bara betra að lenda fyrir ofan miðja deild í ár en taka þetta svo með trukki á næsta ári og eiga þá möguleika á að halda sér uppi í 1. deildinni, þar sem peningarnir eru?
Á Skotlandi er Hearts líka að gera flotta hluti. þeir eru reyndar langt á eftir Glasgow-risunum tveimur, en útlit er fyrir að þeir nái traustu 3. sæti. Á Skotlandi er það nánast eins og „B-meistaratiltill“ að enda í næsta sæti á eftir Celtic og Rangers. Evrópukeppnin gefur líka peninga í kassann og liðið er ungt og efnilegt. Mér finnst samt ekki nógu gott hvað lítið heyrist af byggingaráformum liðsins. Það er alveg ljóst að Hearts þarf nýjan völl. Illu heilli fengu Skotar ekki EM 2008, en þá hefði ríkisvaldið komið inn með veglegan stuðning við byggingu og endurbætur á fótboltavöllum.
Framararnir er svo að spila gegn Víkingum í kvöld í Reykjavíkurmótinu. Ekki það að mér sé ekki nákvæmlega sama um Reykjavíkurmótið en ég vona samt að við vinnum – annars verður Raggi Kristins svo óþolandi montinn á næstunni.
Ójá.