Besserwisser
Ójá, ég er svo sannarlega búinn að vera mikill besserwisser í dag. Byrjaði daginn á því að kvelja fræðslustjóra Orkuveitunnar með því að hnýta í stjórnendanámskeiðið á föstudaginn var. Kryddaði tölvupóstinn með fróðleiksmolum úr sögu eðlisfræðinnar, nánar tiltekið af hinni alræmdu „uppgötvun“ n-geislanna árið 1903 og franska vísindamanninn Blondlot. – Það skríkti í mér meðan ég var að skrifa þetta.
* * *
Á hádeginu mætti ég á fyrirlestur Sagnfræðingafélagsins og Borgarfræðastofu. Fyrirlesarinn, Sigríður Björk Jónsdóttir, var ágætlega undirbúin. En eins og svo algengt er með þessa fyrirlestra var hann tvískiptur – annars vegar rakin erlend teoría og hins vegar tiltekin dæmi úr íslenskum veruleika. Hvort um sig var þokkalega gert, en tengingin féll á milli skipa. – Skúli var með flottar spurningar eins og hans var von og vísa.
Eftir fyrirlesturinn benti Skúli mér á að lesa Moggann í morgun, nánar tiltekið frásögn af endurbyggingu Aðalstrætis 2. Þar segir:
Það er fleira merkilegt við endurgerð húsanna. Á Aðalstræti 2 hafa verið sett upp postulínsljósastæði í loftið sem eru þau elstu í borginni. „Þau voru sett upp í ísafold árið 1899, þegar fyrsta ljósavélin í borginni var staðsett þar. Þessi ljós voru sett í kringum prentara- og setjarasal þar sem Morgunblaðið var síðar unnið og prentað.“
Þegar ljósastæðin prýddu sali ísafoldar voru perurnar sem í þeim voru aðeins 8 vött og var þeim því raðað þétt í kringum vinnustöðvarnar. „Perustæðin voru í ísafold þegar Minjavernd tók ísafoldarhúsið niður í Austurstræti og flutti það yfir í Aðalstræti. Húsið var tekið niður fjöl fyrir fjöl og milli þilja fundust þessi ljós. Við héldum þeim til haga og nú hafa þau fengið hlutverk á ný.“
Hmmm… við þetta hef ég ýmislegt að athuga. Á fyrsta lagi segja samtímaheimildirnar að um bogaljós hafi verið að ræða – þau hafa væntanlega ekki verið í hefðbundnum perustæðum. Á öðru lagi er grunsamlegt að ljósastæðunum hafi verið raðað þétt, því samkvæmt mínum heimildum var varla nema um einn bogalampa að ræða í prentsalnum – enda ekki afl í meira.
Á ég að vera gleðispillir og bjalla í Minjaverndarmenn til að leiðrétta þennan misskilning?
* * *
Neisti nýrrar aldar fór í smurningu, fékk nýja sjálfsskiptingarolíu og þessa fínu loftsíu á áðan. Nú malar hann eins og köttur – milli þess sem hann fretar út um hálfónýtt pústið.
* * *
Framararnir voru flottir í gær. Rosalega er Egilshöll glæsileg bygging. Það er alveg rakið að mæta með afa á leiki þarna og ólíkt skára að horfa á fótbolta innandyra í febrúar en í helv. Laugardalnum.
Ekki er ég samt sannfærður um að þetta muni gefa okkur mikið betri fótboltamenn í framtíðinni. Ungu strákarnir sem þarna æfa verða kannski flinkir og fimir – en jafnframt kuldaskræfur og rolur.
Flestir bestu fótboltamenn þjóðarinnar koma hvort sem er utan af landi. – Hvað ætli það sé t.d. hátt hlutfall íslenskra atvinnumanna af landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið? Örugglega drjúgur meirihluti.
Jamm