Merkisdagurinn 24. febrúar
Fýlupokinn Guðmundur Svansson breytti lítillega út af vananum í gær. Á stað þess að eipa yfir stúdentapólitíkinni (hvernig menn nenna því er mér raunar óskiljanlegt), þá lét hann Múrinn fara í taugarnar í sér í staðinn – eða nánar tiltekið atburðardagatal Múrsins. Um þetta hefur Svansson þetta að segja:
Múrinn tilgreinir á hverjum degi frá einhverjum stórmerkum sögulegum atburði sem borið hefur upp á sama dag í árinu – hafa molarnir jafnan pólitíska skírskotun.
Atburður dagsins í dag er sérdeilis áhugaverður, en svona hljómar molinn: [Á þessum degi árið 1848 leit Kommúnistaávarpið dagsins ljós.]
Þá vitum við það. Merkilegri atburður mun ekki á sögulegum tíma hafa borið við þann 24. febrúar. Nú bíð ég þess spenntur að Múrinn upplýsi mig áður en árið er liðið hvaða dag Rauða kverið hans Maó kom út.
Ógurlega hefur drengurinn verið úrillur í gær úr því að honum tókst að láta þetta fara í taugarnar á sér! Nú skal ég fyrstur manna viðurkenna að sögufróðleiksmolar Múrsins eru mismerkilegir, en það er skringilegt sögulegt mat að telja útgáfu Kommúnistaávarpsins léttvæga. Nú býst ég ekki við að Guðmundur Svansson hafi lesið Kommúnistaávarpið, skilið það eða verið því sammála, en það er undarlegt að maður sem gefur sig út fyrir að hafa áhuga áfræðilegri hagfræði og stjórnmálum neiti að viðurkenna að um áhrifamikið rit sé að ræða. Ekki dytti mér í hug að þræta fyrir að Auðlegð þjóðanna hafi reynst áhrifamikil bók og að útkoma hennar hafi verið sögulega mikilvægur atburður.
En úr því að Guðmundur Svansson kallar eftir fróðleik um merkilega atburði sem átt hafa sér stað þann 24. febrúar er sjálfsagt að verða við því:
i) Þann dag árið 1887 var fyrsta símalínan milli Parísar og Brussel tekin í gagnið. Það er merkur atburður í fjarskiptasögunni, enda höfðu tvær höfuðborgir ekki fyrr verið tengdar með símalínum.
ii) Febrúarbylting svokallaða braust út í Rússlandi á þessum degi árið 1917. Hermönnum hafði verið skipað að skjóta á hóp mótmælenda sem kröfðust þess að geta brauðfætt fjölskyldur sínar. Á stað þess að hlýðnast fyrirskipununum beina hermennirnir vopnunum að yfirboðurum sínum. Á kjölfarið snúast mótmælin upp í allsherjarbyltingu. Vendipunktur í rússneskri stjórnmálasögu 20. aldar.
iii) Þennan dag árið 1988 úrskurðaði hæstiréttur Bandaríkjanna Larry Flint í vil í frægu dómsmáli sem prédikarinn Jerry Falliwell hafði höfðað gegn honum. Um þetta mál má fræðast í þeirri skítsæmilegu mynd The People vs. Larry Flint.
iv) Landhernaður Bandaríkjamanna hófst í Flóabardaga þann 24. febrúar 1991. Yfirstjórn hersins óttast mjög að írakar kunni að beita efnavopnum, enda höfðu bandarísk fyrirtæki selt íraksstjórn efni í slík vopn um árabil.
v) Sveitir Zapatista halda inn í Mexíkóborg þennan dag árið 2001. Þeim er fagnað sem hetjum og forseti landsins fundar með leiðtoga þeirra. Enn hefur þó ekki komist á friður í Mexíkó.
Vonandi léttir þessi upptalning lund Guðmundar.
Jamm.