Morkinn mánudagur
Jæja, úr því að helvítis Mogginn helgaði sunnudagsblaðið úttekt á bloggi, þá er víst við hæfi að besti og frægasti bloggari landsins drullist loksins til að uppfæra síðuna sína.
Ekki vænta þess að þetta verði líflegt blogg. Ég er illilega kvefaður og skíthræddur um að ég sé með hitavellu. Það er fúlt. Til viðbótar þessu var ég að frétta að Dagfari komi ekki úr prentun í dag heldur á morgun. Það er líka fúlt.
Helvítis stríðsfréttirnar eru líka að gera mig óðann. Hvers vegna þarf þetta stríð að vera svona fyrirsjáanlegt? Við erum að horfa upp á fullkomna endurtekningu á Flóabardaganum 1991, en fréttamennirnir hafa EKKERT lært og verða alltaf jafn hissa. Ég eipa ef Steingrímur Sigurgeirsson mætir enn eina ferðina sem „sérfræðingur“ í íraksdeilunni í viðtal. – Ekkert sem hann hefur sagt til þessa bendir til að hann viti annað um málið en það sem hann hefur lesið í 3-4 bandarískum dagblöðum eða tímaritum.
Lögreglan er nú farin að taka upp sólarhringsvakt við fjölda bygginga. Taugaveiklunin hjá lögregluyfirvöldum er alveg mögnuð. Eins og venjulega voru þeir tilbúnir með víkingasveitarmenn með hjálma og skildi í grennd við fimmtudagsmótmælin á Lækjartorginu. Þeir földu sig í bíl á Lindargötunni og töldu að enginn tæki eftir þeim. Þar hafa þeir beðið í ofvæni eftir að fá fyrirmæli um að rjúkja niður á torg og lumbra á mótmælendum, líklega með táragas að vopni. – Þetta lið þráir ekkert heitar en að komast í alvöru slagsmál og geta barið á fólki. Það hlýtur líka að vera miklu skemmtilegra að geta barið hóp af fólki um miðjan dag fyrir framan myndavélar – þeir hljóta að verða leiðir á því með tímanum að berja fulla 16 ára krakka niðrí bæ um helgar. Lítið fútt í því…