Þegar klósettið fór að leka…
…þá bloggaði ég um vandamálið og skömmu síðar kom Kristbjörn í heimsókn og reddaði málinu. Reyndar eipaði líka fúla stelpan á Kreml (þessi sem heitir Svan-eitthvað) og skrifaði pirringslega grein um að blogg væri skítafyrirbæri sem gengi bara út á að lýsa biluðum heimilistækjum.
Núna ætla ég sem sagt að taka sénsinn á að Kreml flippi gjörsamlega yfir um og blogga um vandræðinn með bílinn minn, í þeirri von að einhver góð sál muni annað hvort senda mér tölvupóst á stefan.palsson@or.is eða hreinlega banka uppá og laga bílinn.
Þannig er mál með vexti að Neisti nýrrar aldar (sem er Nissan Sunny – 1991) er farinn að haga sér hálfleiðinlega. Illu heilli er þetta sjálfskiptur bíll (það er svo leiðinlegt að keyra sjálfskiptan), en hann á það til að drepa á sér í lausagangi og jafnvel á mjhög hægri ferð. Þetta er ekkert nýtt og gerðist líka í haust. Þetta má væntanlega laga með einfaldri vélarstillingu.
Verra er, að undanfarna daga er bíllinn farinn að taka upp á því að halda áfram að auka ferðina þótt ég stígi af bensíngjöfinni. Þannig er eins og hann komist á skrið, líkt og ég hafi gefið rækilega inn og raunar virðist hann allur hinn kraftmesti. Þetta hefur enn ekki valdið mér vandræðum í akstri en það er frekar óþægileg tilfinning þegar bíllinn virðist skyndilega ákveða að auka hraðann að eigin hvötum, þannig að ég þarf að stíga á bremsurnar í tíma og ótíma.
Getur verið að bensínpedalinn sé eitthvað sambandslaus? Er þetta fokk í sjálfskiptingunni? Mun vélarstillingin einhverju breyta?
Sem sagt: bílaáhugamönnum er frjálst að laga bílinn minn eða ráða mér heilt. Allar athugasemdir sem leiða til þess að ég neyðist til að borða haframjöl í hvert mál næsta mánuðinn eru illa séðar.
íhm.