Jí¤vla fascistar
Fín mótmæli í gær fyrir framan stjórnarráðið. Palli og Steini ljósrituðu Stríðsfréttir í 300 eintökum sem kláruðust á svipstundu og Steinunn gekk í að dreifa „Halldór í herinn og herinn burt!“ og „Davíð í herinn og herinn burt!“-barmmerkjunum. Við vorum með svona 350 merki sem voru rifin út og miklu færri fengu en vildu. Með tilliti til þessa myndi ég giska á að svona 800 manns hafi verið við Stjórnarráðið. Að sjálfsögðu sagði Lögreglan 300 við fjölmiðla – að þeir skuli nenna þessu…
Löggan lætur þessar aðgerðir fara gríðarlega í taugarnar á sér. Helst vilja þeir að einhver geri eitthvað heimskulegt þannig að þeir geti handtekið hann og stimplað alla mótmælendur sem skemmdarvarga og dusilmenni. Þegar ljóst var að þeim yrði ekki að þeirri ósk sinni sneru þeir sér að einhverjum krakkagrísum í staðinn. Þannig var mál með vexti að 6-7 krakkar, á að giska þrettán ára gömul, voru að þvælast í kringum mótmælin og að dunda sér við að henda snjóboltum í styttuna af Kristjáni kóngi. Löggan bannaði þeim að gera þetta, en eftir að 2-3 boltar flugu inn á Stjórnarráðslóðina í viðbót ákváðu hetjurnar í einkennisbúningunum að grípa í taumana.
Það dugði ekki minna en 7-8 lögreglumenn til að taka börnin og leiða þau inn í lögreglubíl til áminningar. Ætli maður fái mikið kikk út úr því að hrella unglingskrakka fyrir að henda snjóboltum? Ætli maður upplifi einhverja valdsmannstilfinningu við það að skipa börnum upp í bíl og láta þau skynja hver hefur völdin?
Við spurðum nokkra lögreglumennina hvort þetta væri nú ekki tóm vitleysa og yfirspennt viðbrögð. Þeir sneru bara upp á sig og vældu um að „það yrði að hlýða lögreglunni“ og spurðu okkur „hvort við værum ekki lýðræðissinnar?“ – Er hægt að hugsa sér glæsilegri birtingarmynd lýðræðisins en átta fullorðna karla í einkennisbúningum reyna að brjóta niður sex grísi á fermingaraldri.
Ég og lögreglan höfum aldrei skilið hvort annað almennilega…