Goggur glænefur
Alveg er það óþolandi þegar posar fyrirtækja eru skráðir á einhver dulnefni sem ómögulegt er að glöggva sig á. Svo rýnir maður í reikningsyfirlitin frá bankanum og hváir yfir því hvar maður hafi verið að brenna upp peningunum sínum.
Svæsnasta dæmið um þetta er Hótel Borg, sem heitir á Visa-yfirlitinum „Gentleman´s Club“ eða eitthvað álíka. Einhverju sinni lenti ég í að leggja út fyrir hóp erlendra gesta sem borðað höfðu á Borginni. Svo kom yfirlitið með tugþúsunda króna færslu, þannig að Steinunn hélt vitaskuld að ég hefði flippað út á strípiklúbbi og keypt einkadansa í hrönnum. (Ókey, reyndar sá hún aldrei yfirlitið, en sagan er betri svona.)
Núna er ég að reyna að átta mig á nýjasta yfirlitinu. Sportbarinn er löngu hættur, en lifir þó væntanlega sem posaheiti Ölvers. Goggur glænefur hljómar eins og sportvöruverslun eða sjoppa í Grafarvogi, en er í raun Nelly´s. En hvað í andskotanum er Darklight og hvers vegna eyddi ég 600 kalli þar?
* * *
Steingrímur Ólafsson, Framari og snillingur hringdi áðan. Hann er að reyna að draga mig út í vinnu með Framherjum í sumar. Það gæti verið skemmtilegt…