Og þá er stokkið af stað…
Jæja, nokkrir klukkutímar í brottför. Leiðin liggur upp í Borgarfjörð og ekki snúið aftur fyrr en eftir viku. Bókalistinn fyrir ferðina er svona í endanlegri mynd:
* Saga Reykjavíkur, fyrsta bindi, eftir Þorleik Óskarsson
* The Black Death Revisited, eftir Samuel Cohn
* Smásagnasafn, eftir Ian Rankin – inniheldur „Death is not the End“ sem er smásaga um Rebus, áður ófáanleg
* This Gun for Sale, eftir Graham Greene
Ó hvað þetta verða ljúfir dagar…
* * *
Fór í gær á Kaffi Stíg til að birgja okkur Steinunni upp við pökkunina. Sjaldan hefur nú risið verið jafnlágt á Stígnum. Gestirnir voru allir með ógæfulegasta móti og barþjónninn stjarfur af drykkju. Engin tónlist í gangi, enda ekki heiglum hent að stýra vínilplötuspilara í annarlegu ástandi. Kaffi Stígur rokkar samt!
* * *
Fótboltinn byrjar um helgina. Ég missi af fyrstu umferð en er alveg rólegur yfir því. Það eru nú ekki margar góðar minningar tengdar fyrstu umferðar leikjum, aldrei höfum við þó byrjað jafn illa og þegar Leiftursmenn skeltu okkur 0-4 á Valbjarnarvelli í ár.
Munu KR-ingar renna á rassinn og fokka upp þessu tímabili? Vonandi! – Er þetta árið í Safamýrinni? Öruggt fimmta sæti? Undanúrslit í bikarnum? Andri Fannar í gullskóinn? Stórfjölgun áhorfenda? Framherjar í eldlínunni? Hóhó… það er alltaf svo gaman í maí!